Rómantísk vor- og sumartíska

Þó enn sé kalt og hávetur, er vor og sumarfatnaður að koma í verslanir.  Ljósir og glaðir litir sem gefa okkur von um sólríka daga.  Lifðu núna hafði samband við þrjár verslanir og spurði hvers væri að vænta.

Gamla góða buxnadragtin

„Stíllinn verður rómantískur og þægilegur. Blúndur, blóm og kögur verða áberandi. Sumartískan verður líka undir áhrifum frá karlmannatískunni,  buxnadragtir eru að koma aftur í tísku. Dragtarbuxurnar verða víðar á meðan jakkarnir eru mjög aðsniðnir. „A-line“ pils eru einnig að koma sterkt inn,“  segir Ása Björk Antoníusdóttir verslunarstjóri hjá Hrafnhildi. Í svipaðan streng tekur Guðný Kristín Erlingsdóttir verslunarstjóri hjá Stíl í Síðumúla.

Rómantíkin blómstrar

„Ég myndi segja að sumartískan verði dálítið rómantísk. Það eru heklaðar peysur, blúndur og blóm. Sniðin eru þægileg. Það er þægileg vídd í þessum fötum,“  segir hún. Hólmfríður Óskarsdóttir verslunarstjóri í Evu segir að vor og sumartískan veðri afslöppuð. Það verði víðir efripartar á móti þröngum neðripörtum. „Silki verður áberandi og svo eru hörefnin að koma aftur. Konur sem eru hrifnar af krumpum elska hörinn,“ segir Hólmfríður.

Fallegar í bleiku

„Það mikið um „offwhite“, beige og hvíta tóna. Coral liturinn verður áberandi. Það er mikið um gyllta liti og koparliti.  Þessir tónar eru einstaklega fallegir með „offwhite“. Auk þess verða mjúkir pastellitir  á borð við „dusty“ bleikt og blátt,“ segir Ása Björk.  Undir þetta tekur Guðný Kristín og bætir við að konur séu mjög hrifnar af bleiku tónunum. „Ljóshærðar bláeygðar konur eru  fallegar í bleiku,“ segir hún. Hólmfríður  segir ljósu litina verða mikið í tísku í sumar og grábleiki liturinn sjáist víða.

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 20, 2015 14:07