Fáðu meira út úr deginum

Ýmist flýgur tíminn hratt eða hann dragnast áfram og virðist aldrei ætla að líða. Hið fyrra gerist þegar það gaman hjá okkur eða annríki er mikið en hitt þegar við höfum ekki nóg við að vera eða erum að bíða eftir einhverju. Við getum hins vegar sjálf haft mikil áhrif á hversu vel við njótum hvers augnabliks og hversu vel hver dagur nýtist okkur. Hér eru nokkrar hugmyndir til umhugsunar um hvernig má fá sem mest út úr deginum.

Stjórnaðu orku þinni fremur en tímanum

Ef þú veltir því fyrir þér í nokkrar mínútur hvenær þú hefur mesta orku yfir daginn er líklegt að þú áttir þig á að þú átt þína hápunkta. Þá ganga verkefnin vel, hugurinn er skapandi, skipulagður og drífandi. Sumir eru upp á sitt besta á morgnana, aðrir um hádegisbil, þriðji hópurinn í eftir miðdaginn og svo eru kveldúlfarnir. Nýttu þér þinn tíma til að gera það sem krefst mest af þér. Mjög líklegt er að þú finnir einnig fljótlega að tiltekinn tími dagsins hentar betur en annar til líkamlegra átaka og enn annar til að hugsa og leysa flókin verkefni. Þegar þú veist hvenær hápunktar þínir eru getur þú notfært þér þá til að hreyfa þig, taka til eða vinna í garðinum og taka síðan fram bókhaldið, dagbókina eða bókina á þeim tíma sem hugurinn er virkastur.

Undirbúðu hvern dag

Taktu nokkrar mínútur í að skipuleggja næsta dag á kvöldin. Settu saman lista yfir það sem þarf að gera og raðaðu því eftir mikilvægi. Bara þessi einfalda aðgerð getur sparað þér allt að klukkustund næsta dag.

Ekki opna tölvuna fyrr en um hádegi

Fyrsta verk margra þegar þeir eru komnir á ról er að opna tölvuna. Láttu það vera. Opnaðu hana í hádeginu, þá eru allir aðrir búnir að segja frá sínu og í tölvupósthólfið skilað sér flest mikilvægustu erindi dagsins. Taktu þá tíma til að svara pósti, skoða facebook eða setja inn eigin færslur.  Alltof margir eyða tíma í að opna samfélagsmiðla á nokkurra mínútna fresti og dreifa þannig athygli sinni. Þeir verja ómældum tíma í að skrifa athugasemdir, skoða færslur, svara póstum og vinna eigið efni til að setja inn á miðlana í stað þess að leyfa sér að njóta stundarinnar eða ljúka einhverju sem væri meira aðkallandi.

Slökktu á símanum

Ef þú hefur ekki tíma til að sinna alls konar símtölum frá hinum og þessum slökktu þá á símanum eða komdu honum fyrir í öðru herbergi á meðan þú lýkur við verkefni þín í algjörri ró. Bara þessi einfalda aðgerð tvöfaldar einbeitingargetu þína og kemur í veg fyrir að þú vinnir með hálfum huga. Skilvirkni og afköst aukast einnig til muna. Það er góð leið til að hvíla hugann að gefa síma og tölvu hvíld, hlusta á tónlist eða lesa í staðinn fyrir að stara á skjái.

Passaðu hitastigið

Allir verða syfjaðir og daufir í miklum hita. Athugaðu hvernig loftgæði eru heima hjá þér og stilltu ofnana á lægra hitastig. Ef þér finnst kalt hreyfðu þig þá meira um í íbúðinni. Þá eykst brennsla líkamans og hann hitnar.

Farðu út

Farðu út að ganga einu sinni til tvisvar yfir daginn og það á eftir að koma á óvart hversu góð áhrif hreina loftið hefur á hugsunina.

Berðu höfuðið hátt

Menn þreytast mjög mikið í bak-, axla- og handleggsvöðvum ef þeir eru alltaf hoknir. Þindin þrýsist upp og þrengir að lungunum. Öndunin verður ekki eins djúp og súrefnisupptaka ekki eins góð. Það er líka óhollt að sitja of mikið. Allir ættu að standa reglulega upp yfir daginn, ganga svolítið um og bera þá höfuðið hátt, með axlir og bakið beint. Það er gott ráð til að skerpa á einbeitingu og auka orkuna.

Komdu þér upp góðri rútínu

Byrjaðu hvern dag eins. Margir kjósa að teygja á morgnana, taka nokkrar góðar jógaæfingar eða rösklegan göngutúr til að koma blóðinu á hreyfingu. Glas af köldu vatni og hollur morgunmatur eru svo næsta skref. Sumir kjósa að hugleiða í nokkrar mínútur áður en dagurinn hefst og það skerpir athyglina og dregur úr streitu og kvíða. Fastar venjur hjálpa heilanum því vaninn verður ríkur og um leið og byrjað er á ákveðinni röð athafna setur heilinn sig í stellingar til, vinnu, hvíldar, ánægju eða slökunar eftir því sem við á. Með því að koma sér upp föstum venjum af þessu tagi er hægt að kveikja á áhugahvötinni og lífsgleðinni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 12, 2025 07:00