Hamingjan felst í litlu hlutunum

Steingerður Steinarsdóttir nýr ritstjóri Lifðu núna

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

 

Við höfum tilhneigingu til að trúa að grasið í garði nágrannans sé grænna og fegurra en það sem vex réttu megin við grindverkið okkar. Hins vegar hættir okkur til að líta framhjá því hve oft granninn gengur út með áburðarpokann, mosaeyðinn og garðkönnuna. Þetta ilmandi grængresi fékk hann hvorki fyrirhafnarlaust né án erfiðis, ekki undarlegt að hann brosi breitt.

En sú ímynd sem ýmsir kjósa að setja fram á samfélagsmiðlum eða vísa að veröldinni út í frá segir aldrei alla söguna. Hver einasta manneskja á sínar döpru stundir, verður leið, reið, svekkt, sár eða örg. Við kjósum hins vegar að bregðast við þessum tilfinningum og vinna úr þeim á mismunandi hátt. Sumir leyfa þeim að setjast að í sálinni og eiga þar framtíðarbústað.

Það kann ekki góðri lukku að stýra og á endanum kemur beiskjan eingöngu niður á þeim sem ræktar hana með sér. Ein leið til að sigrast á erfiðum tilfinningum er að hreyfa sig. Í bókinni Líkaminn geymir allt eftir Bessel van der Kolk, lýsir höfundur því vel hvernig góð áreynsla við líkamsrækt getur hjálpað til við að yfirvinna afleiðingar áfalla og streitu. En það getur verið ótrúlega erfitt að drífa sig upp úr sófanum og fara út að ganga.

Þakklæti er sömuleiðis einstaklega gott læknislyf þegar kemur að óánægju og vanlíðan. Það getur verið einstaklega nærandi að rifja upp í huganum allt það sem við getum verið þakklát fyrir og þegar vel er að gáð er það ansi margt í lífi okkar allra. Hamingjan felst nefnilega í litlu hlutunum. Hún steypist sjaldnast yfir í fötufyllum og meðan við bíðum þess að loksins verði lífið fullkomið streymir það framhjá hraðar en hönd á festir.

Við höfum svo sem öll heyrt að hamingjan felist í því að njóta stundarinnar en við getum gert meira, nefnilega skapa stundina, breyta henni í gleðistund. Það eitt að taka stein upp af götu sinni og gera að óskasteini getur umbreytt gráum morgni í bjartan dag. Í raun endurómar þessi aðferð úr barnæsku þegar hver steinn á götunni var sérstæður og fjaran full af fjársjóðum. Við getum eignað hlutum, umhverfinu og samferðafólkinu krafta og það erum við ein sem gefum þeim þetta afl. Steinninn verður ekki óskasteinn nema við gæðum hann töfrum, veðrið skiptir ekki máli nema við leyfum því að ná yfirhöndinni og enginn getur eyðilagt sálarró þína nema þú opnir honum leiðina.

Forvitin manneskja fer í gegnum lífið með opin augu. Hún er áhugsöm og stöðugt tilbúin að læra af öðrum. Hver sagði að ekki væri hægt að læra af reynslu annarra? Sá sem setti fram þá fullyrðingu hafði svo sannarlega ekki á réttu að standa. Það er nefnilega bæði auðvelt og skynsamlegt að hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa og notfæra sér þeirra reynslu og aðferðir til að laga ýmislegt í eigin ranni. Úr öllum samtölum mínum við fólk og af öllum kynjum hef ég tekið með mér lífslexíur. Þær hef ég síðan mótað og lagað að því sem hentar mér og mínum aðstæðum. Margir hafa kennt mér hvað sé best að gera en margir einnig hvað ég vil forðast umfram allt. Þetta hefur verið mín leið og reynst mér vel.

Steingerður Steinsdóttir mars 14, 2024 07:00