Fólk getur ekki borðað sama magn af mat þegar það er komið yfir miðjan aldur og það gerði þegar það var á þrítugsaldri og það þarf að breyta samsetningu fæðunnar. „Fitumassinn í líkamanum eykst þegar fólk kemst á sextugsaldurinn, á sama tíma rýrna vöðvarnir. Það hægir á brennslunni. Og þó að fólk viðhaldi sömu þyngd og það gerði á yngri árum fjölgar sentimetrunum,“ segir næringarfræðingurinn Rupali Datta í grein í Vogue. Hún segir að margir grípi til þess neyðarúrræðis að fara í stranga megrunarkúra og taki út alla fitu. Það segir hún að sé eitt það versta sem fólk geri. Fita sé afar nauðsynleg til að viðhalda heilbrigðu hári og húð auk þess sem hún sé nauðsynleg fyrir liðina. Hún segir að fólk eigi að borða eina matskeið af smjöri á dag, hálft avokado, kókos og svolítið af hnetum eða fræjum
Datta ráðleggur fólki að skoða hvað það setur á diskinn sinn. Hún segir að grænmeti ætti að þekja helming disksins, prótein ætti að vera á einum fjórða disksins og kolvetni ættu að taka jafnmikið pláss. Svo á fólk að borða ríkulega af ávöxtum.
Að mati Datta á fólk að hafa þetta í huga þegar það kemst á sextugsaldurinn. Borða 300 kalóríum minna á dag en það gerði fyrir áratug. Það á að skera niður alla óhollustu svo sem sykur, of mikið af fitu og hreinsað mjöl. Að hennar mati á fólk að stunda þolþjálfun og styrktaræfingar til að viðhalda vöðvamassa og beinþéttni í 75 til 150 mínútur á viku. Sjá til þess að það fái nóg af kalki og d vítamíni. Prótein segir hún, er nauðsynlegt til að byggja upp vöðvamassa, það fæst úr mjólk, belgjurtum, kjöti, fiski og eggjum.
Datta segir að fólk eigi í lengstu lög að forðast að neyta næringasnauðra hitaeininga. Borða ávexti í stað þess að pressa safann úr þeim og drekka hann. Ekki sykra te og kaffi, sleppa orkudrykkjum, áfengi, gosdrykkjum og sælgæti. Svo bendir hún fólki á að hætta að borða matvæli sem innihalda soya, því það geti komið rugli á hormónabúskapinn.