Gígja Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri Dósaverksmiðjunnar er ekki að framleiða áldósir þótt heiti fyrirtækisins sem hún stýrir gæti bent til slíks. Hún er að kenna útlendingum íslensku og er enginn nýgræðingur í því fagi. Í þrjátíu og sjö ár hefur hún opnað augu innflytjenda fyrir íslenskri menningu, fært þeim betri tök á tungumáli okkar og lært af þeim verðmætar lexíur um þeirra menningarheim. Stefna hennar er sú að enginn sem í Dósaverksmiðjuna kemur fari út með tóma dós.

Námið í Dósaverksmiðjunni snýst líka um að kynna nemendum íslenska menningu og deila sinni með samnemendum.
Nafnið á skólanum er áhugavert. Líklega tengja ekki margir saman verksmiðjurekstur og menntastofnanir og hvað þá dósaframleiðslu. Hvernig er nafnið til komið?
„Ég byrjaði að kenna í sveitaskóla úti á landi, bæði áður en ég kláraði stúdentinn og eftir,“ segir hún. „Íslensku fór ég að kenna í Námsflokkunum og bjó svo á Ítalíu í átta ár og var þá með kennslu á netinu. Við fluttum heim árið 2008, daginn sem Íslandsbanki fór, okkur að óvörum eins og öllum öðrum. Þá opnuðum við skóla í íbúðinni okkar. Seinna gátum við breytt þeirri íbúð í eingöngu skóla með því að flytja annað. Við kenndum í tveimur svefnherbergjum og eldhúsi og í eldhúsinu var ísskápurinn taflan.
Við vorum búin að kenna þarna í einhver ár og þá voru nemendur farnir að kvarta við okkur undan plássleysi. Þess vegna var hafist handa við að finna nýtt húsnæði og við fengum leigt í hringhúsi við Borgartún. Það var byggt á þeim tíma að í borgarskipulaginu var kveðið á um að endahús ættu að vera hringhús. Þess vegna er að finna nokkur slík í borginni enn en þessi krafa var ekki langlíf. Þegar ég fór að grennslast fyrir um hvað hafði gerst í þessu húsi kom í ljós að það var ýmislegt, meðal annars hafði verið þarna dósaverksmiðja sem var mikill kvennavinnustaður. Mjög margt fólk utan af landi fékk þar sína fyrstu vinnu í Reykjavík og mér fannst það spennandi því við vorum að kenna fólki sem var að koma til landsins í leit að vinnu.
Fyrirtækið framleiddi tómar áldósir og hét Dósaverksmiðjan. Þegar við fórum að fabúlera með hvernig við gætum notað þetta nafn, vegna þess að við erum ekki fyrirtæki sem er rekið í hagnaðarskyni og erum ekki framleiða neitt heldur eingöngu að veita menntun þá var hugmyndin sú að allir sem koma hér fá ímyndaða dós og þeim er síðan að fylla hana af því sem þeim líkar best og fara með hana fulla út. Er það kennarinn, hvernig tekið var á móti þeim, spilin sem þau lærðu, íslenskan eða matreiðslan? Helst á að vera góð blanda af öllu í hverri dós.“

Misjafnt er hvaða áskoranir nemendur glíma við þegar þeir koma til að læra íslensku. Sumir þurfa að læra alveg nýtt stafróf aðrir eiga sér móðurmál sem er gerólíkt íslensku.
Tungumál, menning, saga, matur og skemmtun
Þá strax var til mottó skólans eða einkunnarorð sem eru í senn lýsandi og full af fyrirheitum. „Tungumál, menning, saga, matur og skemmtun,“ segir Gígja. „Það eru einkunnarorðin. Þetta þarf allt að gerast á einu námskeiði. Það þarf að vera eitthvað um íslenska menningu og menningu þeirra, saga Íslands blandast einnig þar inn í og við viljum að allir hópar nái að blandast og það sé gaman.
Það sem ég komst að þegar ég var að kenna fólki þarna í stofunni heima var að margir vissu ekkert um íslenska menningu eða sögu. Sum höfðu aldrei farið á safn eða leikhús, önnur aldrei í fiskbúð því þar þurfti að nota íslensku til að biðja um þann fiskrétt sem þau vildu. Ég fór þess vegna að vinna með söfnunum á höfuðborgarsvæðinu og við fengum þar frábærar viðtökur og samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg hefur þetta fjölgað heimsóknum fólks af erlendum uppruna búsettum hér á landi á söfnunum. Starfsmenn sjá þetta á kortunum sem þeir framvísa þegar greitt er inn.
Við fjöllum um gamla sögu og nýja sögu, segjum þeim til að mynda nú á þorra að bóndinn sé ekki lengur á hlaupum kringum húsið heldur fái hann gjafir. Nemendur höfðu mikinn áhuga á því og veltu fyrir sér hvað væri eðlilegt að kaupa dýra gjöf handa bóndanum. Fólk er auðvitað nýbúið að lifa jólin og vissi að ekki var reiknað með dýrum gjöfum í skóinn svo þetta var mjög viðeigandi spurning,“ segir Gígja.
Ís frá Grænlandi og kóngamatur frá Taílandi
„Hér koma einnig mörg sem aldrei hafa kynnst íslenska lambakjötinu,“ heldur hún áfram. „Í Austur-Evrópu borðar fólk yfirleitt ekki lambakjöt því þar er oftast boðið upp á rollukjöt og fólki finnst það vont. Við blönduðum þess vegna matreiðslu inn í námskeiðin, bjóðum upp á kjötsúpu, bökum íslenskar pönnukökur og búum til sultur á sumrin. Notum til þess rifsber og rabarbara. Hvoru tveggja vex jafnvel í garðinum þar sem það býr en það veit ekki hvernig á að nota það.
Þegar fólk fer að læra um menningu þar sem það býr fer það ósjálfrátt að spegla við sína menningu og við fengum þess vegna svo ótal margt skemmtilegt á móti. Þeim fannst líka þau þurfa að launa okkur greiðann og nú koma allir með rétt á lokadaginn byggðan á uppskrift frá þeirra heimalandi. Þau segja síðan frá réttinum, er þetta hversdagsmatur, jólamatur eða annað. Við höfum meðal annars fengið að smakka kóngamat frá Taílandi og ís frá Grænlandi. Þegar fólk fer heim á sumrin eftir útskrift og ætlar að halda áfram er það þá oft að hugsa um hvað það geti komið með á lokadaginn næst. Þetta er rosalega skemmtilegt og við kennarar höfum lært alveg rosalega mikið í gegnum þetta, því matur endurspeglar alltaf þjóðfélagsgerðina.“

Glæsilegt veisluborð á lokadegi í Dósaverksmiðjunni.
Maturinn sameinaði hópinn
Það er vissulega og matur er auk þess ávallt vel til þess fallinn að færa fólk saman. „Það er nú líkast til. Ég sá eitt sinn alveg stórkostlegt dæmi um hvernig matur færir fólk saman. Við kennum gjarnan blönduðum hópum og það snýst um að fólk læri að sýna öðrum vinsemd og virðingu, saman hvaðan það kemur, hver trúarbrögðin eru, kyn eða kynhneigð allt í gegnum þetta eina sem þau eiga sameiginlegt, að vera að læra íslensku. Við vitum hins vegar að sumir hópar blandast verr en aðrir. Austur-Evrópubúar og Asíubúar eru til að mynda mjög duglegt fólk og eftirsóttir starfskraftar. Þau eru aldrei veik og einstaklega samviskusöm. En það gætir tortryggni í þessum hópum í garð hvers annars, kannski vegna þess að þau eru í samkeppni um góð störf. En hvað sem veldur þá hitti eitt sinn þannig á að hópur hjá okkur var eingöngu skipaður fólki af austurevrópskum eða asískum uppruna.
Í byrjun var skiptingin algjör. Austur-Evrópufólkið raðaði sér öðru megin í stofuna og Asíufólkið hinum megin. Það gengur auðvitað ekki því okkar kennsla byggir á virkni, fólk er að tala saman, vinna saman eða spila saman. Kennarinn kemur alveg miður sín fram í hlénu og segist ekki vita hvernig fer. Ég sagði henni að nýta sér þekkingu sína á tungumálum hópanna og byrja á að leggja niður fyrir þeim við hvaða vandamál hvor um sig glímdi. Þetta gerði hún. Asíubúar tala tónamál og eiga því í erfiðleikum með að bera fram tiltekin hljóð en Austur-Evrópumenn eru margir með kyrillískt stafróf og þau lesa alltaf alla stafi mjög skýrt sem ekki hentar alltaf íslenskunni. Þetta strax hjálpaði því hvorir um sig sáu og skildu hvað hin voru að glíma við.
Svo kom lokadagurinn. Þessir hópar eiga það líka sameiginlegt að vera klikkaðir kokkar og þau komu með fjölbreyttan mat og ekkert smávegis af hverjum rétti. Það flóði bókstaflega yfir öll borð en þá allt einu skiptust þau í tvo hópa aftur og austur-evrópufólkið ætlaði ekki að smakka asíska matinn og öfugt. Kennarinn kom til mín og sagði: „Hvað eigum við að gera? Þetta er ekki góður endir á frábæru námskeiði.“ Við gripum til þess ráðs að segja þetta verður síðasti kennsludagurinn og settum upp töflu, öðru megin orð um allt það góða sem hægt var að segja um matinn og hinum megin það vonda. Til dæmis, gómsætt, ljúffengt, bragðgott, of sterkt, illa kryddað, bragðvont, bragðlaust og svo framvegis. Síðan vorum við litla diska, öll fengu skammtað á sinn disk og sagt að þau þyrftu að smakka en ekki klára og velja svo leiðir til að lýsa matnum.
Svo var byrjað að smakka og þau fóru að spyrja hvaða krydd er í þessu, hvaða hráefni og svo framvegis. Niðurstaðan var sú að þeim fannst ekki allt gott en margt beinlínis ljúffengt og þau fóru heim eftir að hafa lært alls konar nýja hluti. Við vorum mjög sælar með þessa niðurstöðu.“

Matur er ávallt sameinandi afl.
Töluðu um áfram um matinn
Námskeiðin eru yfirleitt sex vikur í senn og svo kemur vikupása og síðan haldið áfram. Flest eru í fullri vinnu með náminu, með fjölskyldur og börn og það því mikil skuldbinding. Í þessu tilviki héldu nánast öll áfram og þau sem bættust við voru úr sömu heimshlutum. Gígja og kennarinn voru spenntar að sjá hvort árangur hefði náðst og það kom þeim skemmtilega á óvart að hópurinn blandaðist strax og ekki að sjá að nokkru sinni hefði borið á óvináttu eða tortryggni þar á milli.
„Já, og í kaffipásunni á fyrsta degi, hvað heldurðu að þau hafi verið að tala um?“ Spyr Gígja íbyggin. Það verður fátt um svör frá blaðamanni svo hún heldur áfram. „Nú auðvitað, ætlarðu ekki að koma aftur með réttinn sem þú komst með á útskriftina síðast? Mikið svakalega var það gott. Þannig að þau voru að tala um matinn sem þau höfðu ekki ætlað að borða í fyrstu en voru búin að læra á. Hér er því á ferðinni mjög jákvætt dæmi um hvernig hægt er vinna með menningu og tungumál nemenda og færa þau saman.“
Leitar fyrri nemenda til að fara með í leikhús
Nefna má líka að Gígja kenndi fyrir nokkru námskeið þar sem bók Auðar Övu Ólafsdóttur Ungfrú Ísland var tekin fyrir í yndislestri. Þar kom í ljós margvíslegur menningarmunur sem gerði það að verkum að nemendur skildu ekki söguna sama skilningi og við Íslendingar.
„Þau vissu til dæmis ekki hvað snittur voru,“ segir hún. „Ég vann eitt sinn á veitingahúsi og er mjög flink að gera snittur svo ég kenndi þeim að búa til snittur og svo elduðum við fiskibollur í bleikri sósu. Fyrst að við vorum að því á annað borð þá tók ég líka fiskbúðinginn inn í þetta og við borðuðum líka steiktan fiskbúðing. Á lokadeginum voru við að vinna úr þessu matartengda þema með hliðsjón af bókinni.“

Auðvitað verða allir að læra að skera út laufabrauð.
Gígja er nú að reyna að ná í þessa fyrrum nemendur sína núna því hana langar að fara með þeim á leikritið sem nú er verið að sýna í Borgarleikhúsinu. Henni finnst fróðlegt að vita hvort leikgerðin opni þeim nýja sýn á bókina og hvort það sem áður var þeim framandi sé nú augljóst og þekkt. Stærsta verkefni hennar til þessa er hins vegar þróunarverkefni þar sem unnið er því að útbúa námsefni fyrir þá sem ekki nota latnesk stafróf því það er grunnurinn að því að þau geti lært íslensku.
„Að kenna latneska letrið er orðið risastórt þróunarverkefni. Það stærsta sem við erum gera. Við fengum síðast að fara inn í framhaldsskóla og kenna og það kom í ljós 10% nemenda af erlendum uppruna voru algerlega ólæs á latneskt letur og 20% mjög illa læs. 20% lásu á við tíu ára börn. Stór hluti þeirra er eiginlega í frjálsu falli og við vitum ekki hvort þau geti lesið sér til gagns. Við gerum rannsókn og niðurstaðan var að engin fylgni var milli komutíma og getu. Hluti af þessum vanda er að kennarar mega ekki taka nemendur út úr og kenna þeim sér latneska letrið. Mörg þeirra hafa líka verið svo lengi á flótta að þau hafa mjög brotna skólagöngu og eru jafnvel ekki læs á eigið móðurmál heldur.“
Mikill mannauður í Dósaverksmiðjunni
Gígja segist vera svo heppin að hún búi yfir miklum mannauði og hjá henni vinni fjöldi hæfra kennara sem séu öll hluti af rannsókna- og þróunarteymi skólans og það geri þeim kleift að þróa námsefni til að kenna fólki að lesa latneskt letur og læra íslensku um leið. Akkilesarhæll skóla á borð Dósaverksmiðjuna er hins vegar skortur á styrkjum til starfseminnar. Gígja hefur unnið metnaðarfullt starf en hið opinbera greiðir styrki per nemanda og hún fær greitt fyrir helming þeirra er sækja skólann. Annað þurfa þau að fjármagna sjálf. Hún segir að eina ástæða þess að hún hafi getað haldið þessu gangandi sé það einstaka starfsfólk sem hún hafi alla tíð haft á að skipa. En nú er hún að nálgast hefðbundinn eftirlaunaaldur er hún farin að horfa til þeirra ára?
„Auðvitað er ég farin að horfa fram á þau,“ segir Gígja. „Það sem heldur mér gangandi er hins vegar mitt baráttumál að þetta sé sérfræðistarf og sérkunnátta og þjálfun sem þurfi að njóta viðurkenningar. Hún er ekki komin ennþá. Að vísu eru komnar deildir í HÍ kennslufræði íslensku sem annars mál. En þar vantar meiri áherslu á menningarmun og þau nauðsynlegu tæki sem þarf til að kenna fólki frá mismunandi málsvæðum.“
Þetta verða lokaorð þessar ástríðufullu konu sem augljóslega hefur lagt ótrúlega mikið á sig til að þau sem hingað koma og vilja setjast hér að fái aðgang að samfélaginu til jafns við innfædda.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.