Við þessi „hreinræktuðu“

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Af nokkuð augljósum ástæðum fylgist ég mikið með fréttum. Ég hef unnið við og í tengslum við fjölmiðla megnið af minni starfsævi og geri enn. Ég er að vinna með ungu fólki sem er í háskólanámi sem hefur áhuga á störfum við fjölmiðla að námi loknu. Þeirra er framtíðin.

Ég er hugsi yfir ýmsu tengdu starfi fjölmiðlafólks sem flytur okkur daglegar fréttir. Þess á meðal er umfjöllun þeirra sem tengjast fólki af öðru þjóðerni, en hefur valið koma til landsins. Nú síðast var ég að hlusta á fréttir af ömurlegum atburðum í sumarhúsi á Suðurlandi. Maður er látinn og fjórir á gæsluvarðhaldi. Strax á öðrum degi er farið að tíunda hvaðan mennirnir væru. Ég veit ekki hver er tilgangurinn. Kannski sá að við þessi „hreinræktuðu“ getum andað léttar og þurfum ekki að leggjast í ættfræðibækur til að kanna hvort sá látni sé tengdur okkur.

Eitt af því marga sem Emil Björnsson, fréttastjórinn minn í Sjónvarpinu, innprentaði okkur var að skrifa aldrei fréttir sem væru til þess fallnar að setja stimpil á þjóðfélagshópa sem byggju á Íslandi. Samfélagið upp úr 1970 var reyndar ólíkt því sem við lifum í árið 2024. Það var ekki mikið um erlent fólk en samt var þetta allt að byrja. Ég man eftir tilviki þegar einhverjum úr hópi Víetnama sem fluttu til landsins á þessum árum varð eitthvað á. Þá lagði fréttastjórinn mikla áherslu á að nefna ekki þjóðernið enda yrði það til þess að skapa andúð og auka fordóma.

Mér finnst ég stundum heyra á fréttaflutningi af slysum og ódæðisverkum að um sé að ræða fólk sem ekki er af íslensku bergi brotið. Það er einhver annar tónn. En kannski er þetta ímyndun í mér en hitt er ekki ímyndun hve fljótt við fáum að vita að meintir glæpamenn eða fórnarlömb slysa séu frá þessu landinu eða hinu. Við heimafólkið getum þá andað léttar, eða hvað?

Við segjumst vilja byggja upp fjölþjóðasamfélag en er þessi áhersla í fréttum til þess fallin? Skiptir föðurland gerenda máli? Hvaða áhrif hefur þetta á samlanda þeirra sem vilja búa hér í friði og spekt í sátt við Guð og aðra Íslendinga.

Fjölmiðlar eru oft skilgreindir sem fjórða valdið. Þeir geta ráðið miklu um það hvort hér tekst að mynda fjölþjóðasamfélag þar sem fólk býr í sátt og samlyndi hvaðan sem það kemur úr heiminum. En fjölmiðlar geta líka stuðlað að því að við förum í vörn og trúum grönnum okkar til alls ills bara vegna þess koma frá landi sem við erum búin að stimpla sem útungunarstað glæpahópa.

Það getur verið að það sé bara ég sem er hugsi yfir þessum upprunaupplýsingum. Ef til vill er skýringin á því sú að orð míns góða fréttastjóra og læriföður glymja enn í eyrunum á mér.

Sigrún Stefánsdóttir apríl 26, 2024 07:00