Orti ódauðleg ljóð um andvökunætur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

 

Ég átti því láni að fagna að heimsækja Kanada, nánar tiltelkið Alberta, í byrjun september. Alberta er næstvestasta ríki Kanada, og þar er að finna hin tignarlegu og stórbrotnu Klettafjöll.  Við ferðuðumst um helstu þjóðgarða ríksins, Banff þjóðgarðinn og Jasper þjóðgarðinn. Við dvöldum einnig í samnefndum  bæjum, Banff og Jasper, sem eru einna vinsælustu ferðamannabæir Alberta, en þeir taka á móti um það bil 4 milljónum ferðamanna á ári.- Geri aðrir betur.- Banff er einna þekktastur fyrir menningasetur sem þar er rekið og heitir einfaldlega Banff Center, og helgar sig vísindum og listum.- Á hverju hausti er, til að mynda, haldin þar mikil kvikmynda-og bókmenntahátíð, sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn og rithöfundar hafa oftar einu sinni tekið þátt í.

Klettafjöllinn eru háreist og búa yfir mörgum jöklum með tilheyrandi skriðjöklum, jökulám, fossum og jökullónum. Ferðamenn streyma á þessa staði í milljónatali til að njóta fegurðarinnar, en þar er ákaflega vel búið að ferðamannastöðum til að tryggja sem minnstan ágang á náttúruna og er það gert með girðingum og steinlögðum gönguslóðum. Mér varð hugsað til ferða minna um Ísland í sumar um vinsæla ferðamannastaði, eins og til dæmis Jökulsárlón, en þar völsuðu ferðamenn um víðan völl og spurning um hvenær umhverfi þess verður svo niðurnítt, að skömm verði af.

Þótt mér hafi fundist ákaflega gaman að njóta hinnar miklu náttúrufegurðar þjóðgarðanna tveggja, réði Íslendingurinn í mér því, að það sem mér fannst mest til koma í ferðinni um Alberta, var Íslendingabyggðin á sléttunni í Alberta, nánar tiltekið smábærinn Markerville og nánasta nágrenni hans, en í sjö kílómetra fjarlægð frá Markerville, er að finna heimili Klettafjallaskáldsins góða, Stephans G. Stephanssonar.

Úr húsi skáldsins

Úr húsi skáldsins

Heimilið hans hefur verið  gert að safni, sem er opið yfir sumarmánuðina og vorum við svo lánsöm  að ná að komast þangað á síðasta opnunardegi ársins. Það var sterk upplifun að koma í hús skáldsins, en þar var lágt til lofts, og varla hægt að segja að þar hafi verið vítt til veggja. Auk stofu og eldshúss voru þar þrjú lítil svefnherbergi, hjónaherbergi og tvö barnaherbergi þar sem börnin sváfu saman í einu rúmi, dæturnar þrjár niðri, en synirnir tveir uppi á háalofti.

Heimilið var nokkuð vel munum búið, þar var til dæmis píanó, sem ein af dætrum skáldsins lék á af mikilli list, en fallegustu munirnir voru gjafirnar sem sveitungar Stephans gáfu honum, þegar hann heimsótti æskustöðvarnar í Skagafirði árið 1917.

Auk þess að leggja áherslu á skáldskap Stephans G., þá varð leiðsögukonunni tíðrætt um hversu framsækinn Stephan var.  Hann var í fyrsta lagi trúleysingi, og var í nöp við boðskap Lúthersku kirkjunnar, en bærinn Markerville skartar einmitt íslenskri lútherskri kirkju. Sem tákn um afstöðu hans, lét hann ekki grafa sig né sína, í kirkjugarðinum í Markerville, sem ber hið tignarlega heiti Tindastóll, heldur í fjölskyldugrafreit, sem við heimsóttum og gaman var að skoða.

Legsteinn Stephans í fjölskyldugrafreitnum

Legsteinn Stephans í fjölskyldugrafreitnum

Í öðru lagi var Stephan G. ekki aðeins mikill kvenréttindasinni, heldur líka friðarsinni og var opinberlega í andstöðu við þátttöku Kanadamanna í fyrri heimstyrjöldinni.  Stríðsrekstur  kallaði, að mati Stephans,  fram það versta í fari manna og leiddi aldrei til góðs. Stephan stóð fast við sínar skoðanir, þó óvinsælar væru, og neitaði meðal annars að þiggja sokkaprjónavél af kanadíska ríkinu, en sokkaprjónavélar voru gefnar ókeypis á hvern bæ undir þeim formerkjum að húsfreyjurnar prjónuðu sokka og sendu til kanadískra hermanna á vígvellinum. Stephan sagði nei takk og greiddi fyrir sína sokkaprjónavél sjálfur!

Það jaðraði við landráð að vera á móti þátttöku Kanada í stríðinu og vildi leiðsögukonan meina að það hefði verið mesta mildi að Stephan var ekki sóttur til saka sem landráðsmaður. Síðan bætti hún því við, að Stephan hafi ekki aðeins verið of framsækinn fyrir sinn tíma, heldur væri hann það enn. Enda er Alberta eitt íhaldsamasta ríki Kanada, en þar eru miklar olíulindir og ráða olíufurstar oft gangi mála þar.

Eftir heimsókn mína á heimili Stephans G., heimili landnemans, sem þrælaði myrkranna á milli og orti ódauðleg ljóð um andvökunætur, varð mér hugsað til allra innflytjendanna á Íslandi. Eins og Stephan G. þá hafa þeir yfirgefið föðurlönd sín, vegna erfiðleika heima fyrir, skorts á atvinnutækifærum og almennu vonleysi um framtíð sína og afkomenda sinna.

Eins og Stephan G. , þá gera þeir sér vonir um betra líf í nýju landi og eins og hæfileikamenn-og konur á borð við Stephan, leyndust í hópi íslenskra útflytjenda, þá leynist án efa hæfileikafólk í röðum innflytjenda á Íslandi. Hver veit nema sá dagur rísi á Íslandi að opnað verði byggðarsafn helgað Pólverjum og öðrum innflytjendum á Íslandi og í hópi merkustu listamanna landsins verði að finna listamenn af erlendum toga.

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir september 23, 2016 17:06