Þegar eldra fólki er hrósað á niðrandi hátt

Orð geta meitt, jafnvel þau sem eru sögð í góðri meiningu. Það er misjafnt hvernig öldrun kemur okkur fyrir sjónir og hvernig við tölum við þá sem eru eldri en við sjálf. Að því leyti skipta blæbrigði tungumálsins miklu máli. Við viljum uppræta þær setningar sem niðurlægja eldra fólk, hvort sem það sem sagt er er vel meint eður ei, segir Ann Brenoft í pistli á Huffington Post. Lifðu núna endursagði og stytti svolítið. En listinn frá Ann er á þessa lund.

Afi og amma eru svo krúttleg. Smábörn og hvolpar eru krúttlegir. Hið krúttlega er ekki ástand sem er ætlað til að lýsa þeim sem eru á milli sextugs og áttræðs. Mörgu öldruðu fólki klígjar við þessu orði enda finnst þeim að þau séu barngerð með þessari lýsingu. Ef öldruðu fólki er þannig lýst er jafnframt verið að segja að það sé óhæft og skipti engu máli segir öldrunarprófessorinn Tracey Gendron í viðtali við Huffington Post. „Rannsóknir sýna að fólk lítur á aldraða sem óhæfar en hlýlegar manneskjur. Tungutakið sem við notum til að tala um þær og við þær ýtir undir þessa sýn. Við ættum að tala á sama hátt um og við alla“ segir hún. Gendron birti nýlega grein í tímaritinu The Gerontologist þar sem hún sagði frá rannsókn þar sem háskólastúdentar voru látnir hitta aldraða einstaklinga og segja svo frá hverjum fundi á samfélagsmiðlinum Twitter. Tólf prósent slíkra skilaboða innihéldu niðrandi athugasemdir um hina öldruðu. Oft voru slík skilaboð hlýleg á yfirborðinu, til dæmis en sæt gömul kona eða en hvað hún virkar krúttleg. Sleppum þessu sæta og krúttlega.

Hún er 75 ára en ennþá ung. Þetta er sagt með brosi á vör og er ætlað til að létta lund en merkingin er sú að æskan sé góð en ellin vond. Það er ekkert að því að vera gamall og í fjölmörgum menningarsamfélögum eru aldraðir metnir mikils fyrir visku sína, þekkingu og innsæi. Látið ekki eins og það að vera gamall sé eitthvað til að vera leiður yfir. Þegar við látum með orðalagi eins og það að vera ungur sé gott og það að vera gamall sé slæmt, erum við farin að nota tungutak aldurshyggjunnar segir Gendron. Í viðtalinu við Huffington Post sagði hún að sambærilegt orðalag væri oft notað ómeðvitað, en hvort sem það væri meðvitað eða ómeðvitað væri það jafn slæmt.

 Þegar þjónninn segir við eldri konu: „Hvað má bjóða þér í dag,unga dama?“ Hvernig væri sýna smá snefil af virðingu? Þjóninn á að heilsa konunni á sama hátt og öllum öðrum viðskiptavinum. Þjóninn hefði aldrei spurt unglingsstúlku: „Viltu pipar með þessu, amma?“

Þú ert ekkert gömul, bara sjötug. Enn og aftur erum við að segja að gamalt sé slæmt, segir Gendron.

Þú lítur ekki út fyrir að vera sextíu og fimm ára. Ef ég er 65 ára þá er það útlit 65 ára konu. Vandamálið er að í hugskoti þess sem ávarpar er fyrirfram ákveðið hvernig 65 ára einstaklingur eigi að líta út og það sem undir liggur er að yngra útlit sé betra en gamalt verra.

 Þú ert ennþá….  „Ennþá“ er eitt af þessum orðum sem angar af aldurshyggju. Dæmi: „Hann er 85 ára og er ennþá að taka þátt í sjálfboðastarfi.“ Það er orðið „ennþá“ sem skiptir máli hér en það undirstrikar þá trú að geta gamals manns sé eitthvað til að undrast. Þegar við bítum það í okkur að öldrun snúist aðeins um hrörnun og það að orðið gamall standi fyrir eitthvað slæmt erum við að þróa með okkur persónulega aldurshyggju segir Gendron. Persónuleg aldurshyggja getur haft neikvæð áhrif á heilsu, getur t.d. valdið of háum blóðþrýstingi og getur valdið félagslegri einangrun vegna þess að viðkomandi vill þá ekki umgangast „þessa gamlingja“ þó hann sé sjálfur gamall.

Þú ert sönnun þess að 60 er hið nýja 40. Sá sem segir þetta meinar að sú sextuga sé kraftmikil, með á nótunum og viti jafnvel hvar vinsælustu staðirnir séu. En það sem hinn eldri heyrir er að það að vera sextug sé sæmt.

 Þú mátt gleyma á þínum aldri  Aldraðir eru sagðir gleymnir en þeir hafa engan einkarétt á þeim eiginleika. Það að læsa lyklana inni í bílnum getur komið fyrir alla óháð aldri. Við gleymum þegar við erum stressuð og þreytt. Hvernig væri að gefa sér að aldraðir séu bara eins og allir aðrir. Að gleyma að kaupa eitthvað í búðinni hafi ekkert með aldur að gera.

Mamma er best … og svo kemur texti sem gerir grín að því hvað hún er klaufaleg í tölvunni. Af hverju eru þeir sem finnst vænt um mæður sínar að gera grín að þeim á netinu? Sennilega hefur móðurinni yfirsést villa þegar hún var að vélrita, eins og það hafi ekki komið fyrir alla? Það er verið að birta texta eldra fólks því yngra fólki  finnst eldra fólk ófært um að skilja nýjustu tækni og finnst það fyndið. Það sem er verið að gera er að festa í sessi staðalímynd sem veldur því að eldra fólk á erfitt með að fá vinnu þrátt fyrir að starfshæfni þess sé óskert. Eldra fólk fæddist kanski ekki með snjallsíma í höndum en getur vel tileinkað sér notkun hans. Hættið að gera grín af tæknigetu eldra fólks.

Þú ert alveg hnífskörp. Það er mjög misjafnt hvernig fólk eldist og þó skert minni spili þar stóra rullu skaltu ekki ætla að allt eldra fólk hafi misst minnið. Læknar ættu að tala beint við eldra fólk en ekki við börn þess þó þau séu viðstödd. Almennt snýst vandamálið um að fólk setur samasemmerki á milli öldrunar og þess að vera veikur eða fatlaður. Þó það hægi á líkamanum þegar árin færast yfir er það ekki veiki heldur eðlilegt ástand.

 

 

Ritstjórn október 12, 2016 10:14