Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu er ört vaxandi og virkt félag. Hér kemur texti sem tekinn var úr ársskýrslu félagsins fyrir síðasta ár. Þið megið nota Allann textinn eða hluta að vild.
Félagið stóð fyrir fjórum hátíðum á starfsárinu. Góugleði var haldin í mars í Menningarsalnum á Hellu. Kvenfélagið Unnur á Hellu stóð fyrir veitingum sem voru saltkjöt og baunir. Heimatilbúið diskótek stóð fyrir dansi og skemmtinefndin skemmti gestum. 36 sóttu Góugleðina.
Jónsmessuhátíð var haldin í íþróttahúsinu í Þykkvabæ. Kvenfélagið Sigurvon sá um matinn sem var ljúffeng lambasteik með tilheyrandi. Hlynur Snær trúbador og Sæbjörg Eva dóttir hans léku og sungu fyrir dansi. 46 tóku þátt í jónsmessuhátíðinni.
Árshátíðin var svo haldin í október. Hún var vel sótt, rúmlega 80 tóku þátt. Veitt voru verðlaun fyrir besta árangur í pútti, skemmtinefndin annaðist skemmtiatriðin, kvenfélagið Eining í Hvolhreppi töfraði fram frábæran mat og fallega skreyttan sal. Veislustjóri var Ísólfur Gylfi Pálmason og Hlynur Snær trúbador annaðist dansmúsikkina.
Að þessu sinni var jólahlaðborðið haldið í Hvolnum á Hvolsvelli. Stjórnin skreytti salinn, Einar gjaldkeri las jólasögu og frábær maturinn var fenginn hjá Múlakaffi. Met þátttaka var á þessum viðburði þar sem 102 tóku þátt.
Félagið skipulagði þrjár ferðir. Í júníbyrjun var farin dagsferð. Ekið var um Flóa, listasafnið í Forsæti skoðað, snæddur hádegisverður í Þorlákshöfn og lífsgæðakjarninn sem gengur undir nafninu Nían skoðaður. Strandarkirkja skoðuð og að endingu kaffisamsæti í boði Félags eldri borgara Hveragerði.
Þriggja daga ferð á Snæfellsnes í júlí var vel heppnuð. Á degi eitt var hákarlasafnið í Bjarnarhöfn heimsótt, kvöldverður snæddur í Stykkishólmi og gist á Miðhrauni. Á öðrum degi var Snæfellsnesið skoðað með frábærri leiðsögn Svövu Svandísar Guðmundsdóttur. Á þriðja degi var haldið heim á leið með viðkomu í víkingabænum á Eiríksstððum og snæðingi á Hótel Bifröst.
Þriðja ferðin var dagsferð í Þakgil með viðkomu í Reynisfjöru. Í Þakgili voru grillaðar pylsur og notið einstaks landslags. Þórir Kjartanson var leiðsögumaður í Þakgil og þegar ekinn var hringur um Álftaver var Jónas Jónsson með hljóðnemann. Báðir frábærir leiðsögumenn. Á heimleið var komið við í Skógum og snæddur frábær kvöldverður.
Yfir sumartímann var boðið upp á vikulegt pútt á Strandarvelli undir styrkri stjórn Brynju Bergsveinsdóttur og sundleikfimi vikulega á Hellu og Hvolsvelli sem Drífa Nikulásdóttir stjórnaði.
Af verkefnum vetrarins má nefna Boccia tvisvar í viku á Hvolsvelli og Hellu. Vist spiluð vikulega til skiptis í þorpunum, bókaklúbbur, og gömlu dansarnir hálfsmánaðarlega. Hringur, kór eldri borgara æfði vikulega. Ákveðið var að gera hlé á starfsemi bókaklúbbsins vegna lélegrar þátttöku en við erum velkomin að taka þátt í Skruddum, bókaklúbbi sem er á vegum Hérðsbókasafnsins.
Handverk var iðkað tvo daga í viku á vorönn. Guðrún Óskarsdóttir hætti sem leiðbeinandi eftir vorönn. Við þökkum henni fyrir gott og óeigingjarnt starf sem leiðbeinandi. Fækkað hefur í handverkshópnum og því ákveðið að hafa einn
handverksdag í viku í stað tveggja. Brynja Bergsveinsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir standa vaktina eins og undanfarin ár. Ester Markúsdóttir kom svo til starfa á miðri haustönn. Að venju var haldinn glæsileg handverkssýning í lok apríl.
Útskurður var vikulega undir styrkri stjórn Hjálmars Ólafssonar. Margrét Tryggvadóttir bauð upp á ókeypis handleiðslu í leiklist, framkomu o.fl. vikulega, tvö námskeið voru haldin í skapandi skrifum sem Harpa Rún Kristjánsdóttir kenndi.
Með bestu kveðju Sigdís Oddsdóttir