Feluleikir í fjölskyldum

Feluleikir; „Það er svo mikil einlægni á fjöllum“ eftir Lilju Magnúsdóttir er saga af fjölskylduleyndarmálum og hvernig þau hafa áhrif á næstu kynslóðir. Arna er að skrifa kvikmyndahandrit þegar hún fær fregnir af því að kærasti hennar er sakaður um alvarlega líkamsárás. Hún ákveður að trúa því að hann hafi ekki gert þetta en þá ríður á að finna þann seka en Örnu hefði aldrei dottið í hug að það leiddi til þess að mörg fjölskylduleyndarmál kæmu upp á yfirborðið og gömul mannshvörf leystust.

Arna er heilluð af sögum og hefur verið að segja þær og safna þeim frá því hún var barn. Hún er búin að koma sér fyrir í einangrun í húsi í Fljótshverfi og ætlarað einbeita sér að því að skrifa. Henni gengur það misvel því draugar fortíðar þvælast fyrir henni sem og áhyggjur af sambandi kærastans við nánustu samstarfskonu sína. Þegar sú samstarfskona verður fyrir alvarlegri líkamsárás hefst atburðarrás þar sem Arna og margir hennar nánustu liggja undir grun.

Feluleikir er lipurlega skrifuð og skemmtileg bók. Sagan rennur vel og seinni hlutinn er spennandi. Fléttan er nokkuð flókin er gengur upp í lokin.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.