Fimm heilræði frá Bruce Springsteen um hamingjuna

„Ég er forsetinn, hann er foringinn,“ sagði Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, um Bruce Springsteen þegar hann afhenti honum frelsisverðlaunin í Hvíta húsinu árið 2016. Þau eftirminnilegu meðmæli um eina mestu rokkstjörnu sögunnar voru fyllilega verðskulduð. Springsteen á ótrúlegan lífsferil að baki þar sem skipst hafa á skin og skúrir. Hann hefur frá mörgu að segja sem allir geta dregið einhvern lærdóm af, enda hefur hann jafnan verið alþýðumaður með báða fætur á jörðu þrátt fyrir mikla velgengni.

Springsteen varð 72 ára á dögunum og kom síðast fram á minningarathöfninni í New York 11. september sl. í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá hryðjuverkunum þar í borg. Hann söng lagið „Ég sé þig í draumum mínum“ (e. I’ll See You in My Dreams).

Ein ástæða þess að Springsteen er dáður af svo mörgum — jafnvel þeim sem ekki eru hallir undir tónlist hans — er sú hvernig hann hefur fjallað af einlægni og hispursleysi um geðheilsu sína, „svarta hundinn“ sem hefur fylgt honum alla ævina. Faðir hans, Doug, barðist í seinni heimsstyrjöldinni og þjáðist af áfallastreituröskun og greindist síðar með geðklofa. Þetta markaði Springsteen sem ungan mann. Í ljósi þess hvernig þunglyndi og aðrar geðraskanir löskuðu föðurímynd Springsteens hefur hann alltaf gert sér ljósa nauðsyn þess að ræða opinskátt um geðheilsu.

„Ég hef þurft að takast á við ýmsar gerðraskanir um ævina,“ sagði hann í viðtali við Esquire árið 2016. „Ég er á ýmsum lyfjum sem halda mér í jafnvægi; annars get ég sveiflast verulega og … bara … hjólin dottið undan. Við þurfum að vera á varðbergi í minni fjölskyldu. Ég hef þurft að fylgjast vel með börnunum mínum og hef verið afar lánsamur með þau. Geðveilan hefur verið í fjölskyldu okkar lengi, löngu á undan pabba.“

Margir urðu furðu lostnir þegar í ljós kom að „foringinn“ var í raun brothætt manneskja en ekki risi af öðrum heimi. Þetta hefði þó ekki átt að koma neinum á óvart. Heiðarleiki og hispursleysi hefur alltaf verið aðalsmerki Springsteens, ólíkt mörgum jafningjum hans í rokkheiminum. Auk þess að ráða mönnum heilt um geðheilsu hefur Springsteen undanfarin ár boðið upp á ýmis heilræði um hvernig megi lifa hamingjusömu lífi. Hér á eftir fara fimm heilræði hans sem Far Out Magazine tók nýverið saman.

1. Tónlistin er mesti græðarinn

Springsteen gaf út bók með æviminningum sínum árið 2016, „Fæddur til að flýja“ (e. Born To Run), en hún vakti gríðarlega athygli. Í henni sagði hann í fyrsta sinn frá baráttu sinni við geðrasaknir og lýsti í smáatriðum hvernig „svarti hundurinn“ hefði fylgt honum í lífinu. Þar kom einnig fram að stærsti áhrifavaldurinn í lækningu hans var tónlistin. Hún er mesti græðarinn og hefur reynst honum best í baráttunni við þunglyndið.

Í viðtali við PBS News Hour sagði Springsteen m.a.: „Ég áttaði mig á því að eina skiptið sem mér fannst ég heill á geði og afslappaður var þegar ég hafði komið fram á sviði eða stuttu síðar. Segja má að þetta hafi verið fyrsta lyfjameðferðin mín, og þess vegna leitaði ég alltaf aftur þangað. Ég var knúinn áfram af djúpri þörf til að finna öruggan og friðsælan stað, jafnvel þótt það væri fyrir framan þúsundir manna. Þar hef ég lengstum verið öruggastur.“

Á öðrum vettvangi sagði hann: „Ég geng upp á sviðið, spila, syng, skapa eitthvað nýtt; þannig kemur friður yfir mig.“

2. Vertu til staðar fyrir börnin þín

Aðdáendur Springsteens hafa lært það af lögum hans, viðtölum og ævisögunni að samband hans við föður hans var mjög erfitt. Þess vegna hefur hann lagt sig fram um að eiga heilbrigt samband við börnin sín. Í viðtali við Esquire árið 2018 gaf söngvarinn foreldrum og uppalendum nokkur eftirminnileg ráð. Þar kom m.a. fram að hann teldi að einfaldleiki og viðvera væru lykilatriði í heilbrigðu sambandi foreldra og barna. „Vertu viðstaddur. Vertu á staðnum,“ sagði hann. „Ef ég hef einhver ráð að gefa, þá er það þetta. Þú verður að vera fullkomlega til staðar í huga, anda og líkama. En þú þarft ekki að gera neitt.“

Að lokum sagði hann: „Það skondna er að ef þú ert til staðar frá því að börnin þín eru ung, og ef þú kemur vel fram, þá taka þau upp ýmsar heilbrigðar venjur. Það gerist alveg ósjálfrátt. Með hegðun þinni heima fyrir og hvernig þú kemur fram við maka þinn, allt hefur það áhrif á hvernig börnunum þínum reiðir af.“

3. Taktu sjálfan þig ekki alvarlega

Í ævisögu sinni fullyrðir Springsteen að fjölmiðlaímyndin „Bruce Springsteen“ sé blekking, uppdiktuð sviðsmynd í anda Ziggy Stardust sem Bowie skóp. Í bókinni fullyrðir hann að þetta sé allt hreinn tilbúningur. Hann hefur t.d. aldrei unnið í verksmiðju eins og lagatextar hans gefa í skyn. Sviðsmyndin af Bruce Springsteen er bara stæling af bandarískum iðnverkamanni.

Hann ráðleggur öllum að taka sjálfa sig ekki alvarlega. Dæmi um þetta í eigin lífi er meginþema ferilsins, sem hefur verið að flýja, en það gerði hann reyndar snemma á tíunda áratugnum þegar hann fluttist með fjölskyldunni til Los Angeles í stuttan tíma. Nú býr hann í tíu mínútna fjarlægð frá götunni þar sem hann var alinn upp í New Jersey. „Fæddur til að snúa aftur,“ segir hann í kaldhæðni í þessu samhengi.

4. Hlúðu að vinum þínum og fjölskyldu

Rétt eins og mikilvægi heilbrigðs ástarsambands hefur Springsteen jafnan lagt ríka áherslu á mikilvægi vináttunnar. Hlúðu að vinum þínum og fjölskyldu, segir rokkstjarnan, af því að það eru vinir þínir og fjölskylda sem skapa þig. „Tími okkar á þessari jörð er stuttur, svo nýttu hann sem best. Þegar þú hefur náð ákveðnum aldri koma endalokin í ljós, svo njóttu tímans með ástvinum þínum af því að hann er skammvinnur.“

5. Ekki missa sjónar á markinu

Árið 2019 sagði meðlimur hljómsveitarinnar E Street, Jake Clemons, frá nokkrum heilræðum sem „foringinn“ hefði gefið sér. Clemons var orðinn mjög vinsæll og farsæll tónlistarmaður þegar Springsteen sagði við hann: „Þú hefur ekki unnið fyrir því enn. Þú ert ennþá að vinna þér það inn.“

Clemons skýrði þessi ummæli „foringjans“ síðar og sagði: „Eftir 40 ára tónlistarferil er hann enn að vinna sér það inn. Það er þessi hugsun að í hvert sinn sem þú kemur fram, þá þarftu að verðskulda vinsældirnar, árangurinn, þú þarft að vinna fyrir þeim eins og það væri í fyrsta skipti og þú verður að vilja það í sérhvert sinn.“

Þessi lífsafstaða auðmýktarinnar hefur mótað Bruce Springsteen öðru fremur. Andvaraleysið má aldrei ná undirtökunum. Sjálfsánægja á aldrei sína stund. Ef við viljum raunverulega efla getu okkar og hæfileika, þá verðum við að fara út fyrir þægindarammann og halda áfram að rekja slóðina. Að markinu.

Ritstjórn október 6, 2021 07:00