Alveg frá því Bill Gates og Melinda kona hans skildu eftir 27 ára hjúskap, hafa margir spurt sig, hvernig stendur á því að fólk skilur eftir svona langt hjónaband?
Bill og Melinda eru ekki einu heimsfrægu hjónin sem hafa skilið eftir langt samband. Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og Tipper konan hans, ákváðu að skilja eftir 40 ára hjónaband og dæmin eru fleiri. Þetta kemur fram í grein á vefnum AARP, sem er vefur eftirlaunafólks þar vestra. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.
Skilnaðatíðni meðal eldra fólks í Bandaríkjunum hefur tvöfaldast síðustu þrjátíu árin, frá 1990 til 2010. Sérfræðingar telja að eldra fólk í dag sætti sig síður við að lifa í ástlausu hjónabandi, en hér áður fyrr. Hjónabönd nútímans snúist meira um að uppfylla persónulegar þarfir fólks og veita því hamingju. Menn hafi því miklar væntingar til hjónabandsins. En hvað fær fólk til að skilja á gamals aldri?
1. Framhjáhald
Dæmi er tekið í greininni af Mary Brown 74 ára, sem reyndi í þrjú stormasöm ár að fá manninn sinn til að binda enda á samband við konu sem hann hafði kynnst í vinnunni. Á endanum sótti hún um skilnað eftir 33 ára hjónaband. Hún var eyðilögð, særð, sorgmædd og öskureið. Hún tók uppá að gera hluti sem henni hefði aldrei dottið í hug að hún ætti eftir að gera. Eins og að fela sig bak við runna á bílastæðinu heima hjá eiginmanninum fyrrverandi klukkan tvö um nótt til að gá hvort konan væri heima hjá honum!
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar í lífi Mary, hún hefur gefið út bækur um hvernig menn ná sér eftir skilnað á efri árum og hefur líka veitt bæði konum og körlum persónulega ráðgjöf um efnið. „Stærsti ósigur minn hefur snúist uppí nokkuð sem ég er mjög stolt af, vegna þess að ég hef getað hjálpað svo mörgum“, segir hún. „Það gerist ýmislegt í lífinu, en við verðum að finna út hvernig við getum haldið áfram“.
2. Fjármál
Fjármál eru streituvaldur í lífi rúmlega 60% fullorðinna Bandaríkjamanna, að því er fram kemur í nýrri rannsókn. Fólk er ólíkt og hefur mismunandi viðhorf til peninga og það getur auðveldlega valdið deilum í samböndum.
Þetta snýst ekki endilega um hversu mikla peninga hjón eiga, að sögn sérfræðinga. Heldur viðhorfið til peninganna og þar skipta tilfinningarnar máli.
Deilur hjóna vegna peninga snúast iðulega um hvort það eigi að eyða peningunum eða spara þá. Fyrir þann sem vill eyða, þýða peningar einfaldlega frelsi, en fyrir þann sem er sparsamur snúast þeir um öryggi. Eyðsluseggir líta oft á sparsamt fólk sem nískupúka, á meðan sparsamir einstaklingar líta á eyðsluklærnar sem ábyrgðarlaust fólk.
Önnur algeng orsök deilna um fjármál lýsir sér í því þegar annar aðilinn hefur samykkt að vera heima með börnin á meðan hinn sér fjölskyldunni farborða fjárhagslega. Þegar börnin eru orðin fullorðin, vill kannski sá sem hefur séð fyrir fjölskyldunni að makinn sem var heima fari aftur út að vinna. Hann vill hins vegar ekki, eða getur kannski ekki útvegað sér vinnu. Sérfræðingur sem rætt er við í greinni segir að hjónin upplifi stundum samkomulagið sem gert var á mismunanedi hátt og deili um hver braut það. „Það þarf að leysa svona mál strax. Ef það er ekki gert byggist bara upp meiri og meiri gremja. Á endanum springur allt í loft upp og þá er ballið búið“, segir hann.
3. Fólk talar ekki saman
Samskipti geta verið léleg og þau geta verið skaðleg. Það eru fjórar samskiptaaðferðir sem lita samskipti hjóna og þeim er lýst þannig í greininni. Gagnrýni, illindi sem oftast leiða til skilnaða, vörn og þögn eða frysting.
Illindi gera að verkum að fólk fjarlægist hvert annað.Menn loka sig af í sínum eigin heimi og enda uppi einir síns liðs. Það þarf heldur ekki að orðlengja skaðsemi þess að vera stöðugt að gagnrýa makann eða þegja dögum saman og frysta hann úti.
4. Þegar börnin flytja að heiman.
Stundum áttar fólk sig á því þegar börnin eru farin að heiman, að það hefur lifað sitt hvoru lífinu og eingöngu átt barnauppeldið sameiginlegt. Hefur gleymt að huga að eigin sambandi. Þannig leið Kaliforníumanninum Henry sem sótti um skilnað eftir 24 ára hjónband, þegar hann var 57 ára. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á, voru hjónin ekki búin að ljúka skiptum eigna sinna og enduðu á því að vera saman í sóttkví á heimili barnanna sinna, nokkuð sem Henry vonaði að myndi gera það að verkum að þau næðu saman á ný. En sú varð ekki raunin og skilnaðarferlið hélt áfram.
Hann hafði alltaf haldið sig vera „einnar konu“ mann en lítur alls ekki þannig á að skilnaðurinn eða hjónabandið sjálft hafi verið mistök. Stundum þróist fólk bara í sitt hvora áttina, það hafi ekki lengur sömu sýn á hvað skipti mestu máli og eigi ekki margt sameiginlegt.
5. Gömul óleyst mál
Chris Smith, 58 ára sá að 25 ára hjónaband hennar var að leysast upp og taldi það sýna að þau hjónin hefðu aldrei átt sérlega vel saman. Móðir hennar hafði átt við geðheilsuvanda að stríða og var inn og út af stofnunum, þannig að Chris þurfti að ala upp þrjú yngri systkini sín. Henni fannst hún einnig bera ábyrgð á að koma móður sinni til heilsu á ný.
Á sama tíma fannst henni að eiginmaðurinn ætti óuppgerð mál gagnvart móður sinni, sem var látin. Hún leitaði sér aðstoðar og fannst hún ná að vaxa sem persóna. En maðurinn hennar neitaði að fara í meðferð. Hann var þögull að eðlisfari, lokaði á allar tilfinningar og vildi að hún gerði það líka.
Þótt allir vinir þeirra væru slegnir, þegar þau skildu, hafði ákvörðunin verið að gerjast með Chris í 15 ár og hjónabandsráðgjöf hafði ekki bætt ástandið. Hún taldi hjónabandinu ekki viðbjargandi.
Þegar fólk hefur tilkynnt að það sé að skilja….
Ef þið hjónin ætlið að skilja eftir áratuga hjúskap, gerið eins og fræga fólkið, segir sérfræðingur sem rætt er við í greininni og það er líklega góð leið í stórum samfélögum úti í heimi. Spurning hvort það á við hér þar sem samfélagið er lítið? En fólki vestra er sem sagt ráðlagt að útbúa yfirlýsingu, þar sem segir að það hafi verið erfið ákvörðun að fara sitt í hvora áttina, en nú taki við nýr kafli í lífi beggja. Bill og Melinda Gates settu tilkynningu á Twitter, en það er allt í lagi að senda einfaldan tölvupóst til vina og kunningja, segir í greininni.