Fjármálaáætlun fyrir efri árin – algjör nauðsyn

Víða erlendis þekkist að fólk byrji ungt að undirbúa eftirlaunaárin. Það velur sparnaðarleið, velur ákveðnar fjárfestingaleiðir umfram aðrar og setur sér markmið um hvenær það ætlar að vera orðið skuldlaust. Hér á landi er mjög misjafnt hvort ungt fólk hugsar á þennan hátt eða ekki. Þótt það hafi ekki verið rannsakað er það líklega tilfinning flestra að færri séu svo skipulagðir en hinir sem ekki eru það.

Mjög misjafnt er hvernig fólk horfir til eftirlaunaáranna. Margir sjá þau sem tímabil frelsis og lífsnautnar. Þá dreymir um að ferðast, stunda áhugamál sín óhindrað og njóta lífsins með góðum vinum. Aðrir hafa fá plön en hugsa fegnir til þess að vera óbundnir af skyldum og vilja gjarnan geta leyft sér eitthvað og allir vilja trygga afkomu. En til þess að það megi verða er nauðsynlegt að fylgjast vel með og byrja snemma að huga að því hvernig þú ætlar að vera staddur fjárhagslega þegar þú hættir að vinna.

Hér á landi höfum við lífeyrissjóðakerfi. Allir á vinnumarkaði greiða í einhvern lífeyrissjóð og atvinnurekandi greiðir framlag á móti. Það er hluti af launakjörum fólks á vinnumarkaði. Árið 1997 voru samþykkt fyrstu lög um séreignarsparnað og síðar var leyft að nýta hann til að greiða inn á húsnæðislán og auðvelda sér þannig húsnæðiskaup. Flestir kjósa að safna séreignarsparnaði í dag, enda munar um það bæði til að minnka greiðslubyrði og alla munar um þessa eign þegar þeir hætta að vinna.

Fjárfestingarkostir og fjármálaráðgjöf

Verðbólga og háir vextir hér á landi setja strik í reikninginn hjá jafnvel skipulagðasta fólki en engu að síður er fyrsta skrefið að ákveða hvenær allar skuldir eiga að vera uppgreiddar. Það er gríðarleg kjarabót og trygging fyrir ásættanlegri afkomu að skulda ekkert þegar kemur að því að draga sig í hlé af vinnumarkaði. Sumir kjósa að minnka við sig vinnu áður en þeir hætta alveg og það er auðveldara ef menn engar skuldir þarf að greiða um hver mánaðamót. Í mörgum tilfellum gefst fólki kostur á að minnka starfshlutfall og hefja töku lífeyris á móti því tekjutapi sem af því hlýst. Best er að skoða þann möguleika með ráðgjöfum á vegum þess lífeyrissjóðs sem menn hafa greitt í.

Skynsamlegt er einnig að leita til fjármálaráðgjafa, helst einhvers sem hefur sérhæft sig í lífeyriskerfinu, og skoða stöðu sína áður en að starfslokum kemur. Hverjar verða tekjurnar? Munu þær nægja miðað við þann lífsstíl sem þú hefur tileinkað þér og vilt halda áfram? Er eitthvað sem þú getur gert til að tryggja betur afkomu þína? Allt eru þetta spurningar sem vert er að vera búinn að svara áður en fólk hættir að vinna og vera með fjármálaáætlun til að fylgja svo hægt sé að sjá nokkuð vel fyrir hver staðan þín verður og hvað þú munt geta leyft þér.

Flestir ná að leggja fyrir á langri starfsævi aukasjóð fyrir utan það sem lífeyriskerfið býður þeim upp á. Þann sjóð geta menn notað að vild og margir nota einnig húsnæði sitt sem aukatryggingu fyrir vellíðan á efri árum og minnka við sig, kaupa ódýrara húsnæði og nota mismunin til að auka lífsgæði sín. Á fjármálamarkaði bjóðast einnig fjölmargir fjárfestingakostir og leiðir til að ávaxta sparifé sitt. Það er hægt að leita til fjármálaráðgjafa og fá bæði upplýsingar og útskýringar á þessum kostum og þá sérstaklega með tilliti til hversu öruggir þeir eru.

Sjúkdóma- og líftryggingar

Að hafa sjúkdóma- og líftryggingu er nauðsynlegt og getur skipt sköpum ef fólk missir heilsuna tímabundið eða varanlega. Gildi þessara trygginga minnkar með árunum, einkum vegna þess að tryggingaupphæðin lækkar með hækkandi aldri en í flestum tilfellum veita þær þó eitthvert skjól. Eitt af því sem sjálfsagt er að skoða reglulega er hvaða vörn þessar tryggingar veita og hvort það borgar sig að halda þeim áfram að greiða þær.

Eignir og arfur

Líklega vilja flestir hafa eitthvað með það að gera hvernig eignum þeirra er ráðstafað eftir þeirra dag. Þess vegna ættu allir gera erfðaskrár. Það er einnig hægt að útbúa yfirlýsingu um sinn hinsta vilja, þ.e. hvernig menn vilja haga jarðarförinni, hvar koma fyrir gæludýrum, ráðstafa einhverjum munum og annað er kann að hvíla á fólki. Sumir skjalfesta vilja sinn varðandi hverjum þeir vilja treysta fyrir sínum málum geti þeir af einhverjum ástæðum ekki ákveðið það sjálfir. Til þess að tryggja að slík skjöl hafi lagalegt gildi er gott að leita aðstoðar lögfræðinga við samningu og frágang þeirra.

Félagslíf og virkni

Það eru það samskipti við aðra og félagsleg virkni sem mestu skiptir um vellíðan og hamingju á eftirlaunaárunum. Góð fjármálaáætlun er undirstaða þess að tryggja áhyggjulaust ævikvöld og jafnframt grunnurinn að því að fólk geti ræktað fjölskyldu sína og vini. Þurfi menn að hafa fjárhagsáhyggjur og viti ekki hvort þeir nái endum saman þennan mánuðinn kemur það niður á hvert þeir fara og hvort þeir mæta á mannamót og taki þátt í lífinu. Það er vert að benda á að víða fá eftirlaunaþegar afslátt af menningarviðburðum, frítt í sund og svo standa ýmsar menningarstofnanir opnar, til að mynda bókasöfn. Þar eru oft áhugaverðar uppákomur og umræður. Rannsóknir hafa sýnt að því virkara sem fólk er í félagslífi og þátttöku í menningarviðburðum og tómstundastarfi því heilsuhraustara er það. Þetta geta verið bestu ár lífsins ef þau eru vel undirbúin og fólk ákveðið í að njóta þeirra.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 6, 2024 07:00