Fimmtán sinnum í Hveragerði

Þórhallur Þorsteinsson

Þórhallur Þorsteinsson

„Það segir allt um það hvernig er að vera hér að ég er búinn að koma hingað 15 sinnum á 13 árum“ , segir Þórhallur Þorsteinsson sem Lifðu núna hitti í setustofunin á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Síðustu árin hefur hann komið þangað í þrjár vikur tvisvar á ári. Þórhallur sem þjáist af vefjagigt, verkjum í stoðkerfi og síþreytu, segist koma endurnærður úr Hveragerði í hvert skipti. Hann stundar þar sundleikfimi, gönguferðir, leirböð og leikfimi auk þess að sækja alls kyns fyrirlestra. Hann segir ekki neitt eitt atriði valda því hversu gott er að vera í Hveragerði. Það sé umhverfið og viðmót starfsfólksins. „Raunverulega er allt mjög gott hér“, segir hann.

Betra en fimm stjörnu hótel

Smári Helgason

Smári Helgason

„Þetta eru bestu dagar lífsins, betra en á fimm stjörnu hóteli“ segir Smári Helgason sem situr líka í setustofunni með fartölvuna sína eftir morgunmatinn. Hann var sendur í Hveragerði vegna streitu. „Ég fékk steitukast rétt fyrir sumartrafíkina í fyrra“ segir hann. Þá var hann að vinna í að opna nýtt hótel á Ísafirði auk þess að koma Edduhótelinu í gang. „Ég fór yfirum“ segir hann og hlær. „Ég fékk svima, gat varla talað og hélt að þetta væri heilablóðfall“

Of fljótt að líða

Þegar á spítalann kom, var hann greindur með streitukast. Hann segir að hann hafi unnið svona mikið ár eftir ár og eftir viðræður við lækninn, sagði sá síðarnefndi „Við erum hvorugur að yngjast“. Smári var óvinnufær um tíma og niðurstaðan varð sú að hann drifi sig í Hveragerði. „Eini gallinn sem ég sé við dvölina hér er að þetta er alltof fljótt að líða“, segir hann.

 

 

Ritstjórn mars 13, 2015 11:02