Reynt að temja tímann

Mannkynið hefur líklega mjög fljótlega farið að leita leiða til að hemja tímann. Sú viðleitni er í rauninni grunnurinn að öllum okkar vísindum og uppgötvunum. Hellamyndir fornaldar benda til þess að þá þegar hafi menn verið farnir að tengja tímann við árstíðirnar og miðað líf sitt við þær. Síðar var svo farið að skipta árstíðunum upp í misseri og næst mánuði og svo daga.

Þörfin fyrir að koma einhverju skipulagi á tímann og verkefni tengd árstíðunum var auðvitað rík og  Forn-Egyptar bjuggu til sólarúrið. Þeir fundu leið til að mæla tímann eftir sólargangi. Þetta var fyrir um það bil 5000 árum. Babýlóníumenn og Egyptar lögðu grunninn að nútímadagtölum, skiptu lífinu upp í daga og mánuði. Þeir skipulögðu hátíðahöld, opinberar uppákomur, vörusendingar og árstíðabundin störf á borð við sáningu og uppskeru með tilliti til þessa skipulags. Sólarhringurinn var miðaður við sólarupprás og sólsetur. Með öðrum orðum ljós og myrkur réðu hvenær vinnudagurinn hófst og hvenær hann endaði.

Deginum skipt í tímabil 

Reyndar var deginum var ekki skipt í klukkustundir heldur nokkur tímabil. Það reyndist ekki nóg svo menn héldu áfram að deila niður tímanum og Grikkir og Rómverjar notuðu sólar- og vatnsúr. Dagatal Egyptanna miðaðist við tólf mánuði sem hver og einn var þrjátíu dagar að viðbættum fimm til að laga sig að sólarárinu. Vestur-Evrópumenn tóku þá tækni sér til handargagns en þegar leið á þrettándu öld var þörfin fyrir nákvæmara og skilvirkara tímamælitæki orðin brýn. Það varð til þess að handverksmenn fundu upp úrverkið. Mikið tækniundur þess tíma og svo vel var um allt búið að sumar þessara fyrstu klukkna virka enn í dag. Margar að vísu ekki mjög áreiðanlegar þótt þær þjónuðu vel þörfum klaustra og þorpanna í kringum þau. Eftir að pendúllinn var fundinn upp og notaður til að telja sekúndur, mínútur og klukkustundir urðu klukkurnar nákvæmari.

Sumir sagnfræðingar hafa viljað rekja upphaf tæknibyltingarinnar til þess að menn fóru að mæla tímann. Sú viðleitni varð til þess að menn fóru að skapa siglingatæki og síðan önnur tæki til að létta sér lífið.

Í dag eru úr ekki lengur bara leið til að mæla tímann og halda utan um dagskrá dagsins heldur fjölhæf stuðningstæki sem borga það sem verslað er, fylgjast með tölvupóstinum, heilsunni, veita áminningar og tengja þig við fólk sem þú þarft að ná í. Allar tölvur eru búnar klukkum sem mæla tímann mjög nákvæmlega. Tímamerki frá gervihnöttum á sporbaug um jörðu senda merki í tölvurnar okkar, farsímana, snjallúrin og fullkomin siglingatæki nútímaskipa. Öll þessi tæki hafa orðið svo víðtæk áhrif á líf okkar að við gerum okkur enga grein fyrir hversu háð við erum þeim fyrr en þau bila og þótt hæfni okkar til að mæla tíma muni án efa halda áfram að batna með aukinni tækni breytir það ekki þeirri staðreynd að við munum aldrei hafa nógan tíma.

En í tilefni þess að þorrinn gengur í garð þann 26. janúar er hér listi yfir fornu íslensku mánðarheitin og hvenær hver mánuður byrjar:

Þorri hefst föstudag í 13. viku vetrar (19. – 26. janúar)

Góa hefst sunnudag í 18. viku vetrar (18. – 25. febrúar)

Einmánuður hefst þriðjudag í 22. viku vetrar (20. – 26. mars)

Harpa hefst sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19. – 25. apríl)

Skerpla hefst laugardag í 5. viku sumars (19. – 25. maí)

Sólmánuður hefst mánudag í 9. viku sumars (18. – 24. júní)

Heyannir hefjast á sunnudegi 23. – 30. júlí

Tvímánuður hefst þriðjudag í 18. viku sumars (22. – 29. ágúst)

Haustmánuður hefst fimmtudag í 23. viku sumars (20. – 26. september)

Gormánuður hefst fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21. – 28. október)

Ýlir hefst mánudag í 5. viku vetrar (20. – 27. nóvember)

Mörsugur hefst miðvikudag í 9. viku vetrar (20. – 27. desember)

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn janúar 22, 2024 11:47