„Fit to fly“ fræðsluvefur um flug og heilsu

Geirþrúður Alfreðsdóttir

Geirþrúður Alfreðsdóttir

Geirþrúður Alfreðsdóttir flugstjóri og athafnakona hefur í um ár haldið úti vefsíðunni Fit to fly.  Á síðunni er að finna margar góðar greinar um allt það er lítur að flugi og því hvernig hægt er að gera flugferðina sem ánægjulegasta. Síðan er ætluð almenningi og líka þeim sem starfa við flug. Hún er bæði í íslenskri og enskri útgáfu. „Ég legg mikla áherslu á fagmennsku að það séu sérfræðingar sem skrifa á vefinn um það sem þeir þekkja best,“ segir Geirþrúður. Á síðunni er meðal annars að finna greinar eftir næringarfræðinga, sálfræðinga, lækna og  greinar um flugöryggi og réttindi og skyldur flugfarþega.

Gefa sér góðan tíma

„Fólk sem er á leiðinni í flug á að gefa sér góðan tíma. Vera í þægilegum fötum og huga að því sem það lætur ofan í sig,“ segir Geirþrúður. Flug reynir á fólk, miklu meira en margir gera sér grein fyrir. Ferðalögum fylgir spenna og erill. „Það eru margir sem eru flughræddir miklu fleiri en ég held að fólk geri sér grein fyrir,“ segir hún. Það eru heldur ekki allir sem átta sig á því að um borð í flugvélum er lofþrýstingur svipaður og vera í um 2000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar með er loftið þynnra auk þess sem fólk situr hreyfingalítið langtímum saman. Slíkt getur valdið bjúg og bólgumyndun. Það er líka hávaði um borð og mörgum finnst það óþægilegt.  Auk þess sem langar flugferðir og morgunflug valda svefnleysi hjá mörgum og þar með aukinni þreytu. Um allt þetta er hægt að lesa sér nánar til um á Fit to fly.

Greinarnar standist tímans tönn

Geirþrúður segir að síðan hafi gengið ágætlega. „Þetta er nú bara áhugamál hjá mér og ég sinni síðunni í hjáverkum,“ segir hún en bætir við að að hún stefni hærra. „Ég er að velta því fyrir mér að koma síðunni á erlendan markað. Íslenski markaðurinn er ekki nógu og stór. Ég var í viðtali við fréttavefinn CNN fyrir nokkru og í kjölfarið jókst lestur á enska hluta síðunnar til muna. Síðan á að vera fræðsluvettvangur fyrir ferðalanga og áhugafólk um flug. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að greinarnar standist tímans tönn og séu upplýsandi,“ segir Geirþrúður.

Ritstjórn júní 23, 2016 12:10