Fjarbúð, ekki vitlaus hugmynd

Maður er manns gaman segir í Hávamálum og þar eru menn hvattir til að rækta vináttuna og náin samskipti við aðra. Nýjar rannsóknir sýna að einmanaleiki hefur vond áhrif á heilsuna og dregur úr lífsvilja eldra fólks. En að vera einn eru ekki verstu örlög sem menn  getur hlotið og margir kjósa nú orðið að vera söguhetjan í eigin lífi og búa einir.

Konur bindast yfirleitt nánari vináttuböndum en karlmenn. Þær eru einnig duglegri við að sækja mannamót, námskeið og menningaruppákomur ýmiss konar. Auk þess sinna þær fjölskyldum sínum yfirleitt meira en karlar. Við makamissi eiga þær því oftar auðveldar með að fá félagsþörf sinni fullnægt. Stundum kviknar ástin að nýju en þá er spurningin hvort þær vilji hefja sambúð og bæta umönnun maka inn í þegar fullskipaða dagskrá sína?

Sú er ekki alltaf raunin. Í breskri rannsókn voru einhleypar konur á eftirlaunaaldri spurðar hvort þær myndu vilja vera í sambúð. Mikill meirihluti sagði nei. Konurnar voru almennt ánægðar með líf sitt, sögðust gjarnan vilja eiga félaga og eiga í nánum samskiptum við hann en ekki búa með viðkomandi. Aðspurðar hvers vegna það væri svo sögðust þær óttast að missa sjálfstæði sitt og þurfa að gefa of mikinn afslátt af eigin vellíðan til að koma til móts við nýjan aðila. Karlar voru hins vegar mun opnari fyrir sambúð og margir þeirra sögðust þrá að eignast maka.

Söguhetjur í eigin líf

Sú breyting er orðin á samfélaginu að flestar konur ganga núorðið að fullum lífeyri við starfslok og eru því ekki háðar öðrum fjárhagslega. Þeim finnst því ákveðinn léttir að þurfa ekki að taka tillit til annarra við val inn á heimilið eða lífsstíl. Það er ákveðið frelsi í því að þurfa ekki að mæta væntingum eða þörfum annarra og geta hagað flestu eftir eigin höfði. En hvað þá með þörf mannsins fyrir ástúð, umhyggju og samveru?

Margvíslegar leiðir eru til að fá þeirri þörf fullnægt öðruvísi en að búa undir sama þaki. Margt eldra fólk kýs að búa sér eigið heimili en hittast reglulega. Sumir eiga saman helgarnar eða verja saman tveimur eða fleiri dögum í hverri viku. Þetta sambúðarform hefur verið kallað fjarbúð. Vinsældir þess eru vaxandi erlendis og nefna má að Gwyneth Paltrow og eiginmaður hennar Brian Falchuk kjósa að haga sínu lífi þannig. Það gerðu einnig Mia Farrow og Woody Allen á sínum tíma en líkt og þekkt er endaðu þeirra ástir ekki farsællega.

Oft liggja að baki praktískar ástæður á borð við ólík áhugamál, lífsstíl eða þarfir. Til að mynda endaði nýjasta þáttaröð And Just Like That á að þau Carrie og Aidan ákveða að búa hvort á sínum staðnum en halda sambandi sínu gangandi úr fjarlægð. Helstu ástæður þess voru að þau eru ólíkir einstaklingar, hann kýs útiveru og návist við náttúruna meðan hún er borgarbarn og getur ekki hugsað sér að vera án hárra hæla og kaffihúsa. Hann á stálpuð börn sem hann vill sinna en hún er barnlaus. Þótt hér sé um skáldaðar persónur að ræða í sjónvarpsþáttum er eigi síður vel hægt að ímynda sér að einmitt svona sé þetta hjá mörgum.

En allt hefur sína ókosti og fjarbúð líka. Það er hætta á að ástin kólni í stað þess að hitna við aðskilnaðinn og ef óöryggi eða skortur á trausti er til staðar er líklegt að það magnist þegar fólk lifir sínu lífi að svo miklu leyti án hins aðilans. Hér þarf því eins og ævinlega í samskiptum manna á milli að ræða saman, setja skýrar leikreglur og vera viss um að báðir aðilar séu jafnsáttir við þær.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 4, 2023 07:00