„Held að æðri máttarvöld hafi vísað mér hingað“

Dagendurhæfing fyrir eldri borgara á Hrafnistu veitir vel skipulagða þjónustu fyrir fólk sem þarf að ná upp fyrri getu eða byggja upp hreysti eftir veikindi eða byltu. Skjólstæðingar eru sóttir á morgnana og dvelja allan daginn undir vökulum augum Guðbjargar Árnadóttur deildarstjóra og samstarfsmanna hennar.

Markmiðið með dagendurhæfingunni er að einstaklingar auki og viðhaldi færni og geti verið áfram í sjálfstæðri búsetu að henni lokinni. Dagskrá hvers og eins er sniðin að þörfum hans og getu hverju sinni. Hér er pláss fyrir þrjátíu manns í einu. En hvernig fer starfið fram svona dagsdaglega?

„Fólk kemur hingað til að fá endurhæfingu,“ segir Guðbjörg. „Viðkomandi er sóttur á morgnana og byrjar á að fara í morgunmat, síðan er stólaleikfimi alla daga. Fljótlega eftir að fólk kemur fær það tíma hjá sjúkraþjálfara sem gerir prófanir og setur upp æfingaprógramm sem hentar viðkomandi. Síðan fara morgnarnir í æfingar fram að hádegismat en að honum loknum er alltaf eitthvað um að vera í félagsstarfinu og svo er fólk keyrt heim eftir kaffi.

Þetta er frábrugðið annarri dagdvöl að því leyti að við byggjum á þessari endurhæfingu. Fólk hittir sjúkraþjálfara í upphafi og reglulega á tímabilinu eftir þörfum hvers og eins.

Sjúkraþjálfari gerir prófin aftur í lokin og fær þá mælanlega niðurstöðu á því hvort og þá hversu miklar framfarir fólk sýnir á tímabilinu. Það eru gerðar prófanir og framför mæld. Þetta er tímabundin endurhæfing. Hugsuð þannig að hún vari í átta til tíu vikur. Markmiðið er að byggja upp manneskjur. Oft er fólk að koma eftir erfið veikindi, fall eða brot. Þá þarf það að styrkja sig til áframhaldandi búsetu heima en við viljum að fólk geti búið heima sem lengst. Endurhæfingin hér er liður í því. Við metum svo áframhaldandi þörf fyrir þjónustu. Ef sjúkraþjálfarinn telur að viðkomandi þurfi að halda áfram sjúkraþjálfuninni vísum við honum á einhvern sjúkraþjálfara eða til síns sjúkraþjálfara ef hann hefur verið hjá einhverjum áður.“

Starfsfólk Dagendurhæfingarinnar á gulum degi á Hrafnistu.

Sumir koma aftur og aftur

Á deildinni er einnig veitt fræðsla um aukaverkanir lyfja, hjálpartæki, næringu, félagsleg réttindi og byltuvarnir.

„Hið sama gildir ef þetta félagslega spilar inn í þá vísum við fólki í almenna dagdvöl þannig að það geti verið þar tvo til þrjá daga í viku eða púslum saman einhverju öðru í framhaldinu. En svo eigum við líka okkar fasta hóp sem vill bara vera hér hjá okkur. Það má sækja um aftur sex mánuðum eftir útskrift og það eru margir sem spyrja: Hvenær má ég sækja um aftur? Það eru því margir sem rúlla hér í gegn reglulega. Tilhugsunin um að fá að koma aftur er líka oft hvati til að vera duglegur að gera æfingar heima, fara út að ganga eða annað því þá veit fólk að kemur vel undirbúið hingað aftur.“

Einn notandi þjónustu ykkar sagði að hér væri vel fylgst með hverjum og einum en aldrei væri farið yfir mörk einstaklinganna, þ.e.a.s. þjónustan væri í boði og fólk stutt til að nýta sér hana en án þrýstings eða að sjálfsákvörðunarrétturinn væri tekinn af því. Vinnið þið eftir einhverri hugmyndafræði hvað þetta varðar?

„Nei, en Hrafnista er hjúkrunarheimili og vinnur eftir þeirri hugmyndafræði að þetta sé heimili fólksins. Skjólstæðingarnir sem koma til okkar koma eins og gestir yfir daginn. Við sjáum auðvitað til þess að allir fái tíma hjá sjúkraþjálfara, tíma í tækjasal og þá félagslegu örvun og fræðslu sem þeir þurfa. Við erum með stundaskrá fyrir hvern og einn og pössum upp á að allir mæti í sína tíma. Þetta er auðvitað stórt hús og algjört völundarhús svo við viljum fylgja fólkinu eftir.. Endurhæfingin er í annarri byggingu og við fylgjum fólki í gegnum garðinn þangað en ekki viðrar til þess er hægt að fara niður í kjallara og ganga ganginn þar. Það er innangengt þótt sú leið sé aðeins lengri. Flestir eru líka fegnir að koma aðeins út og anda að sér fersku lofti. Við erum dugleg að nota garðinn til útiveru og það er púttvöllur hér fyrir utan og við nýtum það eftir áhuga og getu hvers og eins.“

Mikil áhersla lögð á íslenskukennslu

Hér starfar margt fólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Hvernig gengur það? „Flestir tala einhverja íslensku. Við leggjum mikla áherslu á íslenskukennslu fyrir starfsfólkið og Hrafnista býður á vorin og haustin námskeið í íslensku. Þá koma kennarar hingað og kenna hér. Við leggjum mikið upp úr því að starfsfólk sem er af erlendu bergi brotið læri íslensku.“

Heimilisfólk á Hrafnistu er fær einnig aðgang að sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun í húsinu. Matsalurinn er stór og bjartur og þar er hægt að fá gott kaffi og meðlæti, mat og annað sem fólki hugnast yfir daginn. Þangað mega gestir koma og eiga notalega stund með heimilisfólki.

Iðjuþjálfarar fara einnig inn á deildarnar með sitt starf. Guðbjörg er deildarstjóri  dagendurhæfingarinnar. Er hún iðjuþjálfara menntuð?

„Nei, ég er félagsráðgjafi,“ segir hún. „Ég er alveg á réttum stað með öll úrræði á takteininum. Ég var búin að vinna hér í tíu ár og sá um hvíldarinnlagnirnar áður en ég tók við þessari stöðu og er búin að vera alls þrettán ár hér í húsi.“

Endaði óvart í félagsráðgjöf

Hvers vegna valdir þú fara í öldrunarþjónustu?

„Það var eiginlega óvart,“ segir Guðbjörg og hlær. „Ég held að það hafi hreinlega verið æðri máttarvöld sem leiddu mig inn í þetta. Ég hafði áhuga á sálfræði og ætlaði fyrst að læra sálfræði en fór á kynningardag í háskólanum og leist svo vel á félagsráðgjafadeildina að ég ákvað að skrá mig í nám þar. Ég sá að í félagsráðgjöf lærir maður svolitla sálfræði, svolitla lögfræði og eiginlega svolítið af hinu og þessu. Ég sá að þetta var fjölbreytt og skemmtilegt nám. Svo fer maður í starfsnám í mastersnáminu og í fyrra starfsnáminu var ég á Landakoti á öldrunardeild og þar opnuðust einhverjar dyr. Ég hélt að þetta snerist bara um að skapa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld en sá þar að málið er ekki alveg svo einfalt. Eftir mastersgráðuna fór ég svo að vinna á Hrafnistu og bætti við mig viðbótar diplómanámi í öldrunarþjónustu.“

Guðbjörg er auðheyranlega rétt kona á réttum stað en hvað finnst þér um stöðu öldrunarþjónustu hér á landi? Í fjölmiðlum er gjarnan talað um að þetta eða hitt vanti. Erum við að gera nóg?

„Það er fyrirséð að í framtíðinni muni vanta starfsfólk í þessa grein miðað við fólksfjölgun. Nú þegar er farið að breyta ýmsu í verklagi á hjúkrunardeildum til að koma til móts við þörfina og leita leiða með nýrri tækni til að auka öryggi og spara tíma. Búið er að þróa öpp sem starfsfólk er með og þar sést hvað hver og einn þarf og merkt við hvað hefur þegar verið gert og hvað ekki, t.d. þessi þarf aðstoð við að bursta tennur og það er búið og svo framvegis. Hér áður var starfsfólk með blöð og merkti við á þeim, síðan þurfti að fara fram á vaktherbergi og færa inn í tölvuna. Tæknina má nota á margvíslegan hátt til að létta á starfsfólki.

Miðað við þá fyrirlestra sem ég hef hlýtt á á ráðstefnum sem ég hef sótt í gegnum tíðina þá sér maður að stefnt er að því að færa meiri þjónustu heim og fresta því að fólk fari inn á hjúkrunarheimili. Úti á landsbyggðinni hefur maður séð að boðið er upp á fjarþjónustu. Fólk er með skjái og ræðir við skjólstæðinga sína gegnum facetime. Spyr um líðan og viðkomandi mælir kannski blóðþrýstinginn sjálfur og fleira. Það er alls konar svona úrræði sem eru að breyta starfinu og létta á vinnuálaginu. Þetta getur líka létt skjólstæðingum lífið því margir eru ekki hrifnir af að fá heimahjúkrunina daglega og finnst betra að geta mælt sjálfir blóðþrýsting og þeir sem eru með sykursýki geta mælt sykurinn. Síðan skráist þetta í inn í kerfi og heilbrigðisstarfsmaðurinn á hinum endanum getur fylgst vel með öllu..“+

Þetta verða lokaorð Guðbjargar að þessu sinni en aðstaða til iðjuþjálfunar á Hrafnistu er sérlega góð. Í björtum sal getur fólk safnast saman og unnið í höndunum, saumað, hannað skartgripi, málað, lesið og hvað eina sem hugurinn stendur til. Sjúkraþjálfunin býður upp á einkameðferð á bekk og tækjasal sem búinn er helstu tækjum sem þarf til að bæta styrk og jafnvægi. Í húsinu er líka verslun þar sem má fá margs konar vörur, fótaaðgerðarstofa og hárgreiðslu- og snyrtistofa. Allt þetta ýtir undir sjálfstæði íbúa og vellíðan.

Ágætt merkir meira en gott 

Bryndís Víglundsdóttir

Bryndís Víglundsdóttir naut nýlega þjónustu Dagendurhæfingarinnar. Hún hafði glímt við erfið veikindi og þurfti að ná aftur fyrri styrk. Bryndís er 91 árs og býr í eigin íbúð á jarðhæð en fjölskylda hennar á efri hæðinni. Hún hafði þetta að segja um þjónustu Guðbjargar og samstarfsfólks hennar.

„Ég sótti Dagendurhæfinguna á Hrafnistu í Laugarási um skeið í byrjun árs 2025.  Mér er ljúft að segja frá reynslu minni þar. Hún var í einu orði sagt ágæt og hér er orðið notað í upprunalegri merkingu. Ágætt merkir hér að eitthvað sé betra en gott. Hvað var svona gott við þessa dagþjálfun sem ég fullyrði að hafi verið betri en góð? Í stuttu máli sagt var hvert atriði dagskrár vel hugsaður, markviss þáttur í því að ná markmiðum Dagþjálfunar sem eru að styrkja líkamlega getu þátttakenda með margs konar æfingum og sjúkraþjálfun og stuðla að góðri andlegri líðan með samveru, söng og samtölum.

Utan um daglega dagskrá héldu nokkrar konur, allar vel fróðar og kunnandi í öllum þeim fræðum sem til þarf, svo að takast megi að ná markmiðunum. Það er ekki nóg þegar unnið er með þurfandi fólki að kunna fag sitt.  Góðvild og tilgerðarlaus létt lund eru  þættir í samskiptunum sem gera gæfumuninn. Alls þessa fékk ég að njóta meðan ég var í Dagþjálfuninni og þakka innilega fyrir mig.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.