Albert Eiríksson, kokkur og matgæðingur, er löngu orðinn kunnur fyrir matarvef sinn Albert eldar þar sem finna má uppskriftir og fróðleik um borðsiði, veitingastaði og ýmislegt fleira en hann gaf út sína fyrstu matreiðslubók á dögunum sem ber heitið Albert eldar – einfaldir & hollir réttir. Tilefnið að bókinni er nokkuð sérstakt. Albert hefur ásamt manni sínum Bergþóri Pálssyni óperusöngvara varið nokkrum sumrum á Austfjörðum þar sem þeir hafa eldað fyrir hópa á heilsuvikum. Áherslan í bókinni er því á hollt og fjölbreytt fæði en uppskriftirnar ættu að vera á allra færi að gera sem er mikill kostur. Bókin er litrík og falleg en hana má nálgast hjá höfundi.
Uppskriftirnar þróuðust á Heilsuvikum í Breiðdal
Albert og Bergþór hafa undanfarin sumur dvalið austur í Breiðdal þar sem þeir hafa eldað fyrir 12-14 manna hópa. „Það var semí-útgáfupartí heima,“ segir Albert „og Bergþór bakaði rabarbarapæ, fólki fannst þetta persónulegt og skemmtilegt. Uppistaðan í bókinni eru réttir og matur sem ég hef þróað á heilsuvikunum fyrir austan. Þær eru ekki opnar almenningi en fólkið er á vegum bandarísks fyrirtækis sem heitir The Ashram. Það er boðið upp á mat, jóga, nudd, fjallgöngur og svo eru kvöldvökur. Maturinn er úr nærumhverfinu eins og kostur er og áherslan er á hollan og góðan mat en við elduðum einu sinni í viku fisk og kjöt. „Hver hópur er í sex daga og gestir gerðu matnum mjög góð skil,“ segir hann og hlær. „Það er svo gaman þegar maður er að gera þetta aftur og aftur þá kemur færni í matargerðinni og þannig er með uppskriftirnar í bókinni. Þær eru þróaðar á þessum hópum fyrir austan. Bókin kemur í tveimur útgáfum, á íslensku og ensku, það var alltaf upphaflega hugmyndin að hafa uppskriftirnar á prenti fyrir Ameríkanana því þeir voru sífellt að spyrja um þær.“

Matreiðslubókin hans Alberts.
Matur sem veitir vellíðan
Albert hefur reitt fram nokkra rétti úr bókinni og býður blaðamanni að smakka. Overnight Oats, eða magnaður morgunverður, samanstendur af chia-fræjum, kasjúhnetum, glútenlausum höfrum með bláberjum ofan á sem bragðast afar vel, upplagður morgunverður eða sem millimál. Súrdeigsbrauð Bergþórs reyndist eðalgott, enda alltaf mjög vinsælt, og hráterta sömuleiðis sem var með silkimjúku kremi. „Tertan er snilld því fólk sem er með ofnæmi, eins og mjólkur- og glútenóþol, getur borðað hrátertu. Möndlusmjör sem er eitt það einfaldasta í heimi að útbúa en fólkinu fyrir austan fannst það eins og einhverjir töfrar þegar það var búið til,“ segir Albert og það reyndist dásamlegt með epli, en má nota á margvíslega vegu, á morgunverðargrauta, vöfflur, pönnukökur o.fl. Blaðakona fór heim södd og vel nærð og leið afar vel af matnum.
Matreiðslubókin er hönnuð og prentuð hér á landi. „Hún geymir uppskriftir að hollum mat, það er lítið um hveiti, mjólkurvörur eða sykur en samt engir öfgar, það eru fiskréttir, eftirréttir, ýmiss konar brauð, veganréttir og hráfæði. Fólki líður mjög vel af þessu mataræði,“ segir Albert.
Hvað kom til að þið fóruð þarna austur? „Sagan er sú að hjónin sem eiga Þorgrímsstaði, Jón og Guðrún, ákváðu fyrir um 20 árum að söðla um, þau keyptu sér jörð og voru með sauðfé. En þau eru mjög atorkusöm og vildu hafa eitthvað meira fyrir stafni. Þau breyttu hlöðunni og fjárhúsinu í hótel, byggðu við og gerðu allt mjög grand. Hjónin ráku hótelið í allmörg ár en árið 2019 leigði The Ashram hótelið og síðan þá höfum við eldað þarna fyrir hópa sem koma. Það er sænsk kona sem á fyrirtækið en hún flutti ung til Bandaríkjanna, stofnaði það 1974 og 50 árum síðar er hugmyndafræðin enn sú sama, hollur matur, jóga og hreyfing. Það er dagskrá allan daginn, leiðsögumenn sem sjá um hópinn og fara í göngur sem verða erfiðari eftir því sem á líður vikuna. Við fórum með hópa í óvissuferð á Fáskrúðsfjörð, þaðan sem ég er frá, en mamma býr þar. Þegar við renndum í hlað hjá henni, beið hún, 86 ára, með staflana af upprúlluðum pönnukökum. Við fórum niður í fjöru í leiki, borðuðum nesti sem var komið fyrir á vagni og frænka mín sagði frá jarðfræði svæðisins. Þetta var frábær stund og allir mjög glaðir,“ segir Albert og brosir.

Bergþór með einum hópnum.
Allir taka þátt í koma með matföng
„Við vorum með grænmeti frá Vallanesi og á Breiðdalsheiði er vatn sem við förum reglulega á til að vitja um net. Svo er boðið upp á nýveiddan pönnusteiktan silung, sem uppskrift er að í bókinni, og gestunum fannst það merkilegt að kokkarnir færu sjálfir og veiddu í matinn,“ segir Albert og Bergþór bætir við: „Í sumar stigum við það skref að bjóða upp á ekta gamaldags íslenska sunnudagsmáltíð, lambahrygg með öllu tilheyrandi. Gestirnir voru mjög hrifnir, en eins og þeir sögðu þá er þetta ekki á matseðlum veitingastaða.“
Albert segir að fólkið taki þátt í að koma með matföng sem því finnst afar ánægjulegt og gefandi. „Í göngunum fær fólkið verkefni, annars vegar að tína sveppi, sem ég steiki með eplum og balsamikediki eða geri sveppa-paté og hins vegar að tína fjallagrös sem ég nota í brauð. Einn daginn urðu hjón eftir heima vegna þess að þau voru þreytt og treystu sér ekki með í göngu. Ég bauð þeim með að vitja um net og þau þáðu það. Ég kenndi konunni, sem er á áttræðisaldri, að róa og draga í net. Þetta fannst hjónunum standa upp úr í ferðinni og var alveg nýtt fyrir þeim. Fólkinu finnst frábært að taka með þessum hætti þátt í matargerðinni og vera með ákveðið framlag en við reynum að gera allt frá grunni.“
Langar að gera eitthvað sem tengir við náttúruna og kyrrðina

Tertan sem uppskrift er að í bókinni er bæði góð og falleg.
Albert segir að fólkið nái vel saman og finnist mikið frjálsræði að koma til Íslands. „Þau komu í eldhúsið til okkar og við leyfðum þeim að smakka matinn sem verið var að elda sem þeim fannst voða heimilislegt. Þetta fólk er búið að upplifa allt og langar að gera eitthvað sem tengir það við meira náttúruna og kyrrðina.“
Bergþór bakaði daglega súrdeigsbrauð fyrir austan sem sló heldur betur í gegn. „Ég komst upp á lagið fyrir austan að baka súrdeigsbrauð, mér hefur fundist erfitt að fullkomna það heima, en þarna hafði ég tækifæri til að æfa mig á hverjum degi. Það er svo gaman að gefa þessu fólki að borða. Það kom heim svangt eftir fjallgöngur og svo eru Ameríkanar svo skemmtilegir, þeir láta í ljós ef þeim finnst eitthvað gott. „I love it“, var mikið sagt með áherslu. Þeir bræða mann, sumum finnst þetta tilgerð en ég held að svo sé ekki, við erum bara óvön svona jákvæðni, þeir kunna þessa list að vera jákvæðir og móttækilegir,“ segir Bergþór.
Flestir kannast við uppskriftarvefinn sem Albert heldur úti en upphaflega var ástæðan fyrir honum sú að þá Bergþór langaði að halda utan um uppskriftir heimilisins. „Svo fór þetta að vinda upp á sig og fólk spurði gjarnan hvort þetta eða hitt mætti ekki finna á vefnum og víða þar sem við komum vorum við spurðir hvort það mætti setja uppskriftir að því sem var borðað á vefinn og þannig varð hann góð heimild um matinn sem borðaður er á landinu,“ segir Albert.

Ein úr hópnum fyrir austan kampakát með bók Alberts.
Markaðsöfl vilja ráða mataræðinu
Albert hefur vissar áhyggjur af matarvenjum okkar Íslendinga í dag. „Í tímahraki nútímans fer það minnkandi að fólk búi til mat og þess vegna sér maður tilbúna rétti í búðum í hillumetrum. Þetta er þægilegt en fyrir vikið verður yngri kynslóðin kannski óörugg í eldhúsinu. Þetta er svolítið skrítinn tími sem við erum á og ég held að við þurfum að bretta upp ermar. Það kemur alltaf einhver matur í tísku, samanber þegar engiferæðið rann á okkur og átti að bjarga öllu, þetta er allt í lagi í hófi en best er ef fólk borðar mat og fær næringuna úr honum. Þá er skilgreiningaratriði hvað er matur en ef við reynum að minnka unninn mat og gjörunninn mat eins og við getum þá væri það mjög æskilegt.“

Albert með rétti úr bókinni.
„Ég spurði konuna sem á þetta fyrirtæki sem við eldum fyrir: Finnst þér ekki skrýtið að það eru alltaf nokkrir sem eru með ofnæmi fyrir einhverju í hverjum einasta hópi, þetta var ekki svona? Og hún svaraði: Maturinn er bara ekki eins hreinn í dag og áður. Þannig að fólk ávinnur sér alls konar óþol og ofnæmi. Þegar maður fer 100-150 aftur í tímann var ekki mikið um grænmeti en fólk borðaði hreinan mat beint úr náttúrunni,“ segir Bergþór. „Hveitið í nútímanum er til dæmis ekki eins gott og það var. Svo er verið að bæta sykri og alls konar sætuefnum við matinn. Við megum ekki láta selja okkur hvað sem er og borða í óhófi af því einhver segir okkur að það sé matur, markaðsöflin eru svo sterk. Þetta snýst um að vera meðvitaður um hvað maður borðar en leyfa sér stöku sinnum. Það flæða inn alls konar upplýsingar sem ekki eru allar hárréttar. Núna er því mikið haldið á lofti að fólk vanti prótín, því er bætt hingað og þangað til að selja en það eru engin dæmi um prótínskort á Vesturlöndum. Fólk getur borðað kjöt, fisk, grænmeti, egg og baunir til að fá prótín, en það er enginn vandi að fá næg prótín úr veganfæði. Í bókinni er til dæmis uppskrift að rétti með linsubaunum en þær eru mjög prótínríkar og ódýrar,“ segir Albert og bætir við að það að skapa stemningu og að leggja fallega á borð hafi líka mikið að segja við borðhald en réttirnir í bókinni er sannarlega ekki bara hollir og góðir heldur líka margvíslegir, litríkir og fallegir sem gaman er að bera á borð og ætti þessi góða og aðgengilega matreiðslubók að vera til á hverju heimili.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna