Fullorðnir skapa jólaminningar fyrir þá sem yngri eru

Eitt sinn hlökkuðu menn til jólanna vegna þess að þá fékkst meiri og betri matur en alla jafna. Nú á dögum snýst tilhlökkunin meira um að fylgja þeirri hefð sem menn ólust upp við og víða eru tilteknir réttir eingöngu á borðum á aðfangadag þótt þeir teljist ekki endilega það dýrasta sem menn leyfa sér í mat og drykk. Ein nýung á borðum margra er forréttur. Albert Eiríksson hjá Albert eldar var tekinn tali um hefðina á hans heimili.

Þegar við náðum í Albert var hann nýkominn úr kaffisamsæti enda mikið að gera hjá honum á aðventunni að ferðast milli vinafólks og gera úttekt á jólabakstrinum því eins hann benti á: „Þetta borðar sig ekki sjálft.“ Forréttir voru hins vegar ekki algengir á borðum meðalfjölskyldunnar á Íslandi á aðfangadagskvöld hér á árum áður. Þeir hafa þó verið að koma sterkir inn undanfarið. Finnst þér nauðsynlegt að vera með forrétt?

„Já og nei,“ segir hann. „Hver fjölskylda verður svolítið að meta hvað hentar. Ég hef gaman af að vera í eldhúsinu á aðfangadag og þá finnst mér viðeigandi að vera líka að stússast í forrétti. Fyrir mér er hann svolítið mál og fyrir marga þarf að vera einhver tiltekin súpa eða eitthvað álíka. Hver fjölskylda verður þó að sníða sér stakk eftir vexti.“

Grafin rjúpa í forrétt

Rjúpur eru jólamatur hjá mörgum og hefð er fyrir því að gera rjúpusúpu í forrétt þegar svo er. Hefur þú einhvern tíma gert hana?

„Ég hef aldrei verið með rjúpur á jólum. Ég er ekki alinn upp við rjúpur en ég hef borðað í forrétt grafna rjúpu sem er sjúklega góð. Þegar maður grefur rjúpu er algjört aðalatriði að taka beinin og annað hvort að sjóða upp á þeim eða nota þau í súpu seinna. Fyrir marga eru rjúpur jólin og ég skil það svo vel. En hvað sem það er, forréttur eða aðalréttur er aðalatriðið að hver fjölskylda reisi sér ekki hurðarás um öxl og flæki jólalífið ekki of mikið. Þannig að þeir sem bera ábyrgð á matnum og eldhússtússinu séu ekki aðframkomnir af þreytu á aðfangadagskvöld.“

Er einhver föst hefð hjá þér hvað varðar jólamatinn?

„Segja má að hefðin hjá okkur sé að maturinn sé breytilegur bæði hvað varðar forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Það eina sem er fast er að það er alltaf möndlugrautur í hádeginu á aðfangadag. Ég er alinn upp við það og þetta er ótrúlega góður siður, sérstaklega þar sem eru mörg börn, vegna þess að þá eru allir saddir frameftir degi vegna þess að það þurfa allir að klára af disknum sínum og sá sem er með möndluna að fela hana upp í sér þar til allir eru búnir að borða. Snilldin við möndlugraut er að fólk fær næringu og er mett fram að kvöldmat.“

Hvað verður svo í forrétt núna?

„Í ár verða grafnar rjúpur en til dæmis er einfaldast af öllu að kaupa grafinn lax eða grafa hann sjálfur og búa til góða graflax sósu og bera fram með ristuðu brauði, mjög þægilegt. Gamli góði rækjukokteillinn hefur svo aldeilis verið að koma sterkur inn á jólum, enda klassískur.“

Jólin meiri samvera nú en áður

Sumir geta ekki hugsað sér jólin án möndlugrautsins.

„Og ég skil það vel og í raun hvað sem það er, aspassúpan, rjúpur eða annað sem menn borða bara einu sinni á ári. Það er ákveðin stemning og eftirvænting og tilhlökkun eftir jólamatnum hver sem hann er. Við megum svo ekki gleyma því að við sem eldri erum búum til minningar fyrir hina yngri. Við eigum að vera meðvituð um það. Okkar kynslóð á minningar um hundrað og fimmtíu jólakort sem þurfti að lesa hægt, velta fyrir sér hver væri að senda og fyrir hvað væri verið að þakka. Eftir að maður varð fullorðinn varð þetta fyndið en manni fannst lítið skemmtilegt við hefðina þegar maður var barn. Hann tók óratíma þessi lestur. Við fullorðna fólkið erum ábyrgð fyrir að búa til jólaminningar fyrir næstu kynslóð. Hún getur falist í því að skreyta, stússast í eldhúsinu, leggja á borðið, fara yfir borðsiðina eða spila.

Nú er allt svo breytt. Jólin eru mun meiri samvera en þau voru áður. Þau eru kósýstund eins og sagt er og það er gott, hvort sem fólk er í náttfötum eða ekki náttfötum því það eru notalegheit,“ segir Albert og þetta eru fín lokaorð. Hann féllst svo á að gefa okkur uppskrift að gröfnu rjúpunni sem hann hefur í forrétt og er algjört sælgæti.

Grafin rjúpa með bláberjasultu

3 rjúpur

Úrbeinið rjúpurnar. Bringunar fara í marineringu en beinin er upplagt að frysta til betri tíma og útbúa soð í súpu eða sósu. 

Kryddblanda fyrir marineringu:

Hálft glas villkrydd frá pottagöldrum

1 ½ msk maldon salt

½  msk sykur

8-10 einiber grófsöxuð

Blandið öllu saman og þekið bringurnar á báðum hliðum. Vefjið þeim inn í plast eða álpappír og látið farg á þær. Geymið í ísskáp í 24 klst. og snúið þeim við um miðbik tímans eða eftir  12 tíma. Skerið rjúpurnar niður í þunnar sneiðar og berið fram með teskeið af bláberjasultu.

Möndlugrauturinn og möndlugjöfin

Í mínu ungdæmi var möndlugrauturinn í hádeginu á aðfangadag. Sem er fínn tími. Allir taka hraustlega til matar síns og klára örugglega af diskunum í von um að finna möndluna. Síðan er fólk ekki orðið svangt aftur fyrr en verður heilagt.

Það er ágæt þumalputtaragla að hugsa möndlugjöfina þannig að sá sem hana fær deili gjöfinni með öllum strax að lokinni máltíð.

Aðferðirnar við að elda góðan graut eru margar og engin ein réttust. Þessa aðferð má rekja til Þýskalands. Hún er sú að setja allt í pott, láta suðuna koma upp á lágum hita á 45-60 mín. Þá er slökkt undir, pottinn einangraður mjög vel með handklæðum, svuntum eða öðru og hann látinn standa þannig í a.m.k. þrjár klst.(moðsuða). Rétt áður en grauturinn er borinn á borð er hrært í.  Það er lítil hætta á að grauturinn brenni við, það þarf ekki að standa yfir honum og hræra stöðugt í. Og síðast en ekki síst, þarf mun minna af grjónum – aðeins einn dl. á móti lítra af mjólk.  ATH. að ekki þarf að sjóða grjónin fyrst í vatni áður en mjólkin fer saman við.

Ef ekki eru til afhýddar möndlur í grautinn er hér tvær aðferðir til að afhýða þær

„Ég hvet ykkur til að prófa þessa aðferð við möndlugrautinn og næst þegar þið eldið hrísgrjónagraut,“ segir Albert. 

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 21, 2023 16:00