Tengdar greinar

Fleiri og fleiri óska eftir ristilspeglun

„Samkvæmt þeim rannsóknum sem við höfum við að styðjast eru líkur að því að við gætum lækkað tíðni ristilkrabbameins um 70-80% ef mjög góð þátttaka fengist og skimað væri með fullri ristilspeglun“. Þetta segir Jón Örvar Kristinsson meltingarsérfræðingur. Hann segir að það sé líka hægt að nota næm hægðapróf, sem fólk geri árlega, til að skima fyrir sjúkdóminum, en með því er talið að lækka mætti tíðnina um 20-30%.

Þriðja algengasta krabbameinið

Hér á landi er ekki skimað fyrir ristilkrabbameini, sem er þriðja algengasta krabbameinið hjá bæði konum og körlum hér. Á árunum 2009-2013 greindust að meðaltali 135 tilfelli ristilkrabbameins árlega en 138 tilvik árlega á árunum 2004-2008. Þarna er um 7% aukningu að ræða milli tímabila, ef mannfjölgun þjóðarinnar er tekin með í reikninginn.

Tíðnin hefur minnkað í Bandaríkjunum

Jón Örvar segir að það hafi færst í vöxt að fólk leiti til læknis og óski eftir ristilspeglun í þeim tilgangi að skima fyrir krabbameini og forstigum þess, þ.e. sepum sem kallast adenoma. Hann segir að hér á landi hafi lengi verið skimað fyrir brjósta og leghálskrabbameini. Í Bandaríkjunum hafi hins vegar einnig verið skimað fyrir ristilkrabbameini í að minnsta kosti 20 ár og það sé talin ástæða þess að það er eina vestræna landið þar sem tíðni ristilkrabbameins hefur minnkað.

Nágrannaþjóðir að hefja skimun

Jón Örvar segir að aðrar nágrannaþjóðir okkar séu farnir af stað með skinum, eða séu í þann veginn að gera það. Hann nefnir þar Danmörku, Noreg, Svíþjóð, Holland og Pólland. Hér hafi stjórnvöld ekki skipulagt skimun ristilkrabbameins, þannig hafi það verið á hendi hvers og eins að fara í slíka skimun. „Þegar ristilspeglun er notuð sem skimunaraðferð er mælt með því að gera hana fyrst milli 50 og 55 ára aldurs og síðan á 10 ára fresti til 70-75 ára aldurs ef ekki finnast adenomasepar“, segir hann. „En í þeim tilfellum sem það gerist sem er í um 25% tilfella er yfirleitt mælt með speglun á 5 ára fresti“.

Konur fá sjúkdóminn jafnt og karlar

Hann segir að þetta eigi við um bæði karla og konur. Nú sé mottumars og vissulega verið að leggja áherslu á krabbamein í körlum. „Við verðum samt að muna,“ segir hann „að ristilkrabbamein er ekkert síður sjúkdómur sem konur fá en karlar. Tölur frá árunum 2008-20012 sýna að 55% þeirra sem fái sjúkdóminn eru karlar en 45% konur. Svo eru sumir í meiri áhættu en aðrir, einkum þeir sem eiga nána ættingja sem hafa greinst með krabbamein undir 55-60 ára aldri. Þeir ættu að láta skoða sig fyrr“. Jón Örvar segir að þeir sem hafa bólgusjúkdóm í ristli ættu líka að huga fyrr að skimun, en ráðfæra sig fyrst við sinn meltingarlækni um hvort þörf er á því .

 

Ritstjórn mars 5, 2015 11:34