Fögnum öllu sem er til bóta

Helgi Pétursson, formaður Samtaka eldri borgara, segir ástæðu til að „fagna öllu sem er til bóta“, spurður um viðbrögð við þeim gjaldskrárbreytingum í heilsugæslu og annarri heilbrigðisþjónustu, sem Heilbrigðisráðuneytið birti tilkynningu um í gær.

Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins urðu engar hækkanir á komugjöldum í heilsugæslu um áramótin, greiðsluþátttaka lífeyrisþega vegna tannlæknaþjónustu lækkaði, en viðmiðunarfjárhæðir vegna greiðsluþátttöku aldraðra fyrir stofnanaþjónustu hækkuðu um 4,6 prósent, svo og fjárhæðir bóta slysatrygginga almannatrygginga og sjúkradagpeningar.

Helgi segir þetta vissulega vera til bóta, en undrast megi hve mikill seinagangurinn í kerfinu er þegar kemur að þessum málum – það hafi t.d. tekið mörg ár að koma í gegn lækkunum á greiðsluþátttöku aldraðra í tannlæknaþjónustu. Helgi ítrekar einnig

Helgi Pétursson

að það sé álit LEB að Alþingi sé að brjóta lög á eldri borgurum með því að miða hækkun ellilífeyris við neysluvísitölu en ekki launaþróun viðmiðunarhópa – sbr. umsögn LEB um fjárlagafrumvarpið og áskorun samtakanna til Alþingis. Þetta gildi líka um hækkun bóta slysatrygginga almannatrygginga og sjúkradagpeninga, greiðsluþátttöku aldraðra í stofnanaþjónustu o.s.frv.

Helgir bætir við að það muni samt ekki miklu um þessar breytingar, útgjaldaaukningin sem þær valdi ríkinu séu í raun „smáaurar“. Það sem myndi muna eldri borgara meira um – lækkun skerðinga ellilífeyris vegna annarra lífeyrisgreiðslna – væri eftir sem áður aðalbaráttumálið. Það sé auðvitað jákvætt að ríkisstjórnin hafi ákveðið í fjárlögunum að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna, en sú ráðstöfun gagnist því miður aðeins litlum minnihluta ellilífeyrisþega.

Almenn komugjöld lækka

Í tilkynningu gærdagsins frá Heilbrigðisráðuneytinu segir ennfremur, að almenn komugjöld lækkuðu 1. janúar 2021 úr 700 krónum í 500 krónur. Þessi gjöld eru óbreytt og sem fyrr greiða börn, öryrkjar og aldraðir ekkert komugjald. Gjöld sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu að öðru leyti hækka um 2,5% frá 1. janúar sl. í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Eins og búið var að rekja hér að framan munu á sama tíma fjárhæðir bóta slysatrygginga almannatrygginga og sjúkradagpeningar hækka um 4,6% og sömuleiðis viðmiðunarfjárhæðir vegna greiðsluþátttöku aldraðra fyrir stofnanaþjónustu. Frá og með 1. janúar sl. eykst líka greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í almennum tannlæknakostnaði öryrkja og aldraðra úr 57% í 63% og kostnaður þeirra lækkar að sama skapi. Áætlaður útgjaldaauki sjúkratrygginga vegna þessa nemur um 200 milljónum króna á ári.

Sjá nánar í frétt á vef LEB.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn janúar 7, 2022 11:17