Frestað að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir sjúklinga

Taka átti upp nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar á morgun 1. febrúar. Alþingi hafði samþykkt lög þar að lútandi. Nú vilja stjórnvöld fresta gildistökunni til 1. maí næst komandi. Nýtt kerfi á að miða að því að sjúklingar þurfi ekki að greiða meira en nemur ákveðinni hámarksfjárhæð fyrir heilbrigðisþjónustu í hverjum mánuði sem ákvörðuð verður með reglugerð. Sett verður ákveðið mánaðarlegt greiðsluþak á greiðslur sjúkratryggðra og kostnaður umfram greiðsluþakið greiðist af sjúkratryggingum. Þannig er stefnt að því að verja sjúklinga fyrir mjög háum greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu. Í frumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi og kveður á um frestun gildistöku laganna segir:

„Síðustu mánuði hefur verið unnið að undirbúningi að innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis í ráðuneytinu og víðar. Til að tryggja farsæla innleiðingu kerfisins þarf að huga að mörgum þáttum, svo sem vinnu við tölvukerfi, forritun og tengingum á milli kerfa. Innan kerfisins þarf að miðla mikið af upplýsingum milli veitenda þjónustunnar og til Sjúkratrygginga Íslands. Við undirbúning á gildistöku laganna og í opnu samráðsferli um reglugerðir sem setja þarf til að innleiða kerfið hefur komið í ljós að undirstofnanir ráðuneytisins og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu þurfa lengri tíma til að undirbúa kerfisbreytinguna.  Því er talið nauðsynlegt að fresta gildistöku laganna fram til 1. maí 2017.“

Stjórnvöld telja að það kosti einn milljarð króna að innleiða nýtt kerfi og rúmist breytingin innan ramma fjárlaga þessa árs. Sjúkratryggingar Íslands skiluðu umsögn um  frumvarpið og þar er kostnaðurinn sagður vanmetinn stórlega. Sjúkratryggingar áætla að kostnaðurinn komi til með að nema þremur milljörðum króna: „SÍ vekja athygli á að fyrirhuguð reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur enn ekki verið sett. Síðustu drög að reglugerðinni, sem starfsmenn SÍ hafa undir höndum, eru dagsett 23. janúar sl. og voru þá enn „opin til nánari umræðu“. Framangreint kostnaðarmat er því með fyrirvara um mögulegar breytingar á útfærslunni eins og hún er í þessum drögum,“ segir  í greinargerð Sjúkratrygginga og þar segir ennfremur:„SÍ vekja athygli á að meginástæða þess að fresta þarf gildistöku nýja greiðsluþátttökukerfisins er að framangreind reglugerð hefur ekki verið sett. Ef vel á að vera þyrfti hún að vera frágengin amk. þremur mánuðum fyrir gildistöku.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 31, 2017 14:54