Laufey Baldursdóttir er fædd 1953 og er því orðin sjötug. Hún lét það sannarlega ekki aftra sér frá því að taka þátt í þrautum Landvættanna. ,,Ég hef mikla trú á að margir jafnaldrar mínir gætu gert það sama og ég gerði,“ segir Laufey. ,,Galdurinn er að hafa trú á sjálfum sér og þá uppsker maður svo mikla gleði og ánægju,“ segir Laufey en viðurkennir að hún hafi nokkrum sinnum staðið frammi fyrir erfiðum áskorunum í ferlinu sem hafi verið svo gott að sigrast á.
Laufey starfaði um árabil sem yfirgeislafræðingur á sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem hún og Árni Óðinsson, eiginmaður hennar, búa en hann var tæknimaður á sjúkrahúsinu á Akureyri að starfslokum. Þau eiga gullbrúðkaupsafmæli eftir tvö ár en elsta barn þeirra var 5 ára þegar þau giftu sig en þá hafði Laufey náð 22 ára aldri. Konur máttu giftast 18 ára á þessum tíma. Árni vildi giftast strax en ég þurfti að vera viss um að hann væri sá rétti fyrir lífið,“ segir Laufey brosandi.
Árni er fæddur 1950 og náði að verða 19 ára þegar frumburðurinn fæddist á meðan Laufey var rétt orðin 17 ára. Elsti sonur þeirra sagði í tækifærisræðu þegar Laufey varð fimmtug: ,,Við mamma ólumst nefnilega upp saman því hún er ekki svo mikið eldri en ég,“ segir Laufey og hlær. Í hóp þeirra bættust síðar við tvö börn og nú eru barnabörnin orðin sjö talsins.
Lenti í kulnun
Laufey er geislafræðingur að mennt en hún var yfirgeislafræðingur á sjúkrahúsinu á Akureyri um langt árabil. Hún fór svo í fjarnám í
Stjórnun- og rekstri á heilbrigðissviði í HÍ með fullri vinnu á árunum 2001 til 2003. Hún segist núna vera búnin að átta sig á að hún hafi á þessum tíma farið í kulnun í starfi. ,,Þegar þarna var komið sögu var ekki búið að finna upp þetta hugtak ,,kulnun í starfi“ sem nú er orðið viðurkennt. Kulnun er auðvitað grafalvarlegt mál og eins gott að gera sér grein fyrir ástandinu ef ekki á illa að fara. Ég tæklaði þetta á minn hátt á þessum tíma og þótt það hafi verið erfitt var endirinn góður, vonandi fyrir alla,“ segir Laufey.
Söðlaði um og fór í tækniteiknun
Eftir erfitt tímabil ákvað Laufey að hætta í starfi geislafræðings og fór í Iðnskólann í Hafnarfirði þar sem hún lærði tækniteiknun, þá 53 ára. ,,Mér líkað alltaf mjög vel í geislafræðinni og vann með mörgu góðu fólki en á þessum tíma var ég búin að vinna á sjúkrahúsinu á Akureyri í 25 ár og því alveg kominn tími til að prófa eitthvað nýtt. Ákvörðunin var erfið en mjög góð þegar upp var staðið. Ég hef alltaf haft áhuga á teikningu og híbýlum og þá lá tækniteiknunin vel við. Ég var búin að fá vilyrði fyrir starfi á arkitektastofu en þá kom hrunið og allt fór í vaskinn. En þá fékk ég vinnu á verkfræðistofu þar sem ég starfaði í 13 ár eða þangað til ég hætti að vinna 68 ára. Það var rosalega góður tími og vinnan skemmtileg.“
Var viðbrigði að hætta að vinna?
Auðvitað voru viðbrigði að hætta að vinna en minni en ég bjóst við. Ég hafði ætlað mér að taka að mér verkefni og vera til ráðgjafar en hef ekki haft neinn tíma til þess,“ segir Laufey og hlær. ,,Það er búið að vera svo mikið að gera hjá okkur. Tvö af þremur börnum okkar búa líka á Akureyri og það fer mikill tími í að snúast í kringum fólkið okkar og við höfum mikla ánægju af því. Annar sonur okkar býr með fjölskyldu sína í Grindavík en þau koma oft í heimsókn.“
Öll hreyfing leggur inn fyrir efri árin
Laufey hefur alltaf hreyft sig eitthvað en ekki verið í keppnisíþróttum. Hún segist hafa farið að hreyfa sig meira eftir að börnin voru orðin stálpuð og þurftu minna á henni að halda. Hún segir Árna hafi stundað íþróttir frá blautu barnsbeini og alltaf haldið sér við. Hann hafi verið keppnismaður á skíðum sem ungur maður og meira að segja farið á Ólympíuleikana. ,,Árni stundaði skíðakennslu bæði hér og í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði um tíma á Sun Valley skíðasvæðinu.“ Laufey segir að allir í fjölskyldunni kunni á skíði og Árni kenni ungviðinu að skíða þegar þau hafi náð þriðja aldursári. Börn séu ótrúlega fljót að ná tökum á íþróttinni og nú geti allir farið með í skíðaferðir sem þau geri mikið af.
Þau Laufey og Árni hafa gengið mikið á fjöll, bæði hér heima og erlendis, hér heima á Hvannadalshnjúk, Laugaveginn og Víknaslóðir auk
fjallanna í heimabyggð þeirra. Þau eru í gönguhópi með vinum sínum og þegar einn úr hópnum varð sextugur vildi hann fagna því með íþróttaviðburði. ,,Þetta var 2011 en þá vorum við sitt hvorum megin við sextugt,“ segir Laufey. ,,Þessi vinur okkar bauð okkur í afmælið og sagði okkur að það yrði skálað uppi á Kilimanjaro og við slógum til,“ segir Laufey og hlær. ,,Við erum líka búin að ganga um Atlasfjöllin og fara á Toubkal í Marokkó með gönguhópnum okkar. Þetta er okkar skemmtun í lífinu og við erum endalaust þakklát fyrir að geta þetta enn þá því það er ekki sjálfgefið,“ segir Laufey. Nú hafa þau hjónin tekið upp gönguskíði en þau segjast fá meiri alhliðahreyfingu út úr þeim núna en svigskíðunum. ,,Ég er engin keppnismanneskja og fer ekki hratt yfir en er seig. Árni segir að ég fari þetta á seiglunni,“ segir Laufey og brosir.
Sjötugsafmælinu fagnað með Landvættum
Þegar Árni varð sjötugur 2020 ætlaði hann að halda upp á tímamótin með því að taka þátt í Landvættunum en þá skall covid á með látum og allt féll niður. Sonur þeirra og tengdadóttir ætluðu með Árna í þessa áskorun svo nú þegar Laufey varð sjötug fékk tengdadóttir þeirra þá hugmynd að þau héldu öll upp á það með þátttöku í Landvættunum. ,,Það var hægt að fara í svokallaðan ,,hálfvætt“ og þá sló ég til og ákvað að vera með. Við Katrín gengum saman Jakobsveginn í fyrrasumar og það gekk mjög vel svo ég hafði fulla trú á mér í þetta verkefni og sé ekki eftir því,“ segir Laufey og brosir. ,,Landvættirnir ganga úr á að sigrast á nokkrum þrautum sem eru skíðaganga, hlaup/skokk, sund og hjól. Ég fór alltaf helming vegalengdar hinna sem var alveg hæfilegt fyrir mig. Þetta var 25 km skíðaganga, 30 km fjallahjólreiðar, 16 km utanvegaskokk og svo 1.7 km sund í stöðuvatni. Þetta var allt mikil áskorun og ég viðurkenni að mér fannst stundum að þetta væri of mikið því ég fór sannarlega út fyrir þægindaramma minn. En þegar ég fór að æfa sá ég fljótlega að þetta var alveg gerlegt og að ég gæti gert þetta og sé sannarlega ekki eftir því. Þátttaka í Landvættunum var ótrúlega skemmtileg og gefandi reynsla um leið og ég var að sigrast á áskorunum sem mér þóttu í byrjun óyfirstíganlegar. Til þess að geta þetta þarf maður bara að hafa hreyft sig hæfilega um ævina og ég hef trú á svo mörgum á mínum aldri sem gætu gert þetta. Ég vil sannarlega hvetja aðra til að takast á við þessa skemmtun. Nú eru svo margir á okkar aldri frískir ólíkt því sem áður var. Okkur þótti forfeður okkar orðin ansi framlágir þegar þeir voru orðnir sjötugir en nú er öldin allt önnur.“
Íþróttaviðburð á gullbrúðkaupsafmælinu
Laufey og Árni eru búin að skrá sig í heilsueflingu Janusar og ætla að taka þátt í því verkefni í vetur. Svo eru þau með á stefnuskránni að búa til einhvern íþróttaviðburð þegar þau eiga gullbrúðkaup eftir tvö ár og hlakka mikið til.
Aðspurð segist Laufey halda að ákvörðunin, sem þau Árni tóku snemma á lífsleiðinni, og snerist um að leitast við að vera yfirleitt bjartsýn og glöð, hafi mikið með það gera að líf þeirra sé enn skemmtilegt, öllum þessum árum seinna. ,,Það er kúnst að leiða hjá sér neikvæðni sem er nóg af og það skiptir máli að vera góð fyrirmynd fyrir börnin okkar,“ segir Laufey. ,,Svo höfum við gætt þess að hefta ekki hvort annað. Ég kem frá brotnu heimili og það hafði mikil áhrif á mig. Svo eignaðist ég barn svona snemma og vildi ekki láta það stoppa mig og ekki Árna heldur. Hann var byrjaður í sínum íþróttaferli og kláraði hann og ég kláraði mitt og þannig studdum við hvort annað vel. Strákurinn fór fljótlega á dagheimili og svo á leikskóla og var að öðru leyti alltaf með mér því Árni fór til Sun Valley eftir að hann fæddist. Ég ákvað mjög snemma að ég yrði að læra og þetta gekk allt upp. Börnin okkar þrjú voru öll fædd þegar ég varð þrítug svo við upplifðum frelsi frá barnastússi tiltölulega ung,“ segir Laufey og brosir.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.