Nokkur ráð til að forðast að staðna í vinnunni

Að brenna út í starfi er algengt vandamál meðal eldri starfsmann. Kulnun í starfi er aðalástæða þess að fólk hættir fyrr á vinnumarkaði heldur en það hafði ætlað sér, segir í grein sem Kerry Hannon skrifar á aarp.org. Hannon segir að árin eftir miðjan aldur ár séu  það tímabil starfsævinnar sem skili fólki mestum fjárhagslegum hagnaði.  Fólk haldi áfram að greiða í lífeyrissjóð sem hækkar greiðslur þegar taka eftirlauna hefst. Á meðan fleira fólk á miðjum aldri og eldra vill eða þarf að vinna er nauðsynlegt að auka áhuga og starfsánægju. „Við erum að endurskrifa lífsbókina“ segir Marc Freedman, stjórnandi Encore.org sem eru samtök sem einbeita sér að því að auka almennan áhuga á því að nýta reynslu og þekkingu þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur. „Hér áður var fólk á aldrinum 56 til 57 ára farið að huga að starfslokum en nú hefur þetta færst til um 10 til 15 ár og það breytir öllum útreikningum,“ segir hann. En hvað er til ráða ef fólki finnst það vera farið að kulna í starfi.

Svona kemurðu þér aftur í gang í vinnunni:

  1. Finndu ný verkefni. Ef þú ert alltaf að gera það sama er hætt við að einhæfnin valdi leiða. Hristu upp í hlutunum. Skoðaðu vandlega það sem þú ert að gera núna til að finna eitthvað sem mætti bæta við núverandi verkefni. Slíkt eykur einbeitingu í starfinu og gæti valdið smávægilegum ótta. Bjóddu fram krafta þína í ný hlutverk eða biddu um að fá að takast á við verkefni sem þig hefur lengi langað til að vinna að. Á þessu stigi er auðvelt að halda bara áfram að gera það sama, en þetta er samt líka tíminn til að reyna eitthvað nýtt. Er eitthvað sem enginn vill takast á við? Réttu upp hönd. Kannski er mögulegt að þú getir fengið að vinna í annari deild í fáeina mánuði. Þá opnast sá möguleiki að einhver sé að fara í lengra leyfi og að þú sért sá eða sú sem getur leyst hann eða hana af.
  2. Fylgstu með því sem er að gerast. Það er auðvelt að staðna í vinnunni. Fylgstu með í þínu fagi eða því sem þú starfar við. Lestu bloggsíður sem fjalla um þitt fag og skráðu þig í stafstengda hópa á netinu eins og á LinkedIn og taktu þátt í umræðum þar.
  3. Bættu sambandið við vinnufélagana. Smávægilegar breytingar á framkomu þinni við vinnufélaga þína geta haft mjög góð áhrif. Vendu þig á að hlusta á samstarfsfólk þitt og sýndu því stuðning í verki. Fagnaðu þegar þeim gengur vel. Það eykur þína ánægju og bætir andann í hópnum. Ræddu við vinnufélaga þína um hluti sem tegngjast starfinu ekki og talaðu reglulega við fólk augliti til auglitis frekar en að senda alltaf tölvupóst.
  4. Gerðu erfiðum yfirmanni lífið léttara. Margir gefast upp á yfirmönnum sínum frekar en starfinu sjálfu. Reyndu ávallt að hafa allt þitt á hreinu í vinnunni óháð því hversu ómögulegur yfirmaður þinn er. Ef óánægja þín með yfirmanninn fer að hafa neikvæð áhrif á störf þín mun það frekar koma niður á þér en honum. Flestir yfirmenn vilja að starfsmönnum þeirra gangi vel, það lítur einnig vel úr fyrir þá. Þegar um erfiðan yfirmann er að ræða er best að reyna að koma honum mjúklega í skilning um að það sé hans hagur að þér líði vel á vinnustað.
  5. Ánægja á jaðrinum. Margar stofnanir og fyrirtæki bjóða upp á ýmiss konar félagsstarf fyrir starfsmenn. Taktu þátt í því og kynnstu fólki sem þú vinnur ekki með daglega. Farðu á námskeið sem fyrirtækið býður uppá eða kenndu á námskeiði. Stofnaðu hóp um göngur eða aðrar íþróttir.
  6. Taktu til. Þegar fólk er alveg orkulaust nær það ekki að komast yfir neitt. Innhólfið í póstinum er fullt, skrifborðið minnir á náttúruhamfarir og skjalaskápar eru við það að springa. Það að grynnka á draslinu frelsar og eflir. Tiltektin hjálpar þér að taka ákvarðanir um líf þitt, hvað þú villt gera og hvað ekki.
  7. Vertu ánægð/ur í vinnunni. Samkvæmt nýlegri Gallup könnun kom í ljós að starfsmenn sem beita hæfileikum sínum í vinnu og eru áhugasamir um starfið eru jafnframt ánægðir í vinnunni. Þú finnur að áhugi á verkinu kemur fram í gæðum og um leið finna aðrir hjá sér að þú hefur eitthvað sem þeir vilja líka. Allir munu vilja hafa þig í sínu teymi. Eða svo vitnað sé til Mayu Angelou: „Ef þér líkar ekki við eitthvað skaltu breyta því en sé það ógerlegt skaltu breyta viðhorfi þínu“.
  8. Haltu þekkingu þinni við. Þetta skiptir afar miklu máli þegar um nýja tækni er að ræða. Lærðu á þau tölvuforrit sem vinnuveitandi þinn telur mikilvæg og sæktu endurmenntunarnámskeið í greininni. Ýmsir framhalds- og háskólar bjóða uppá námskeið sem gætu nýst þér að þessu leyti. Spyrðu atvinnuveitanda þinn um námskeið eða aðra þjálfun sem gæti verið í boði hjá fyrirtækinu eða stofnuninni. Slík háttsemi gæti leitt til stöðuhækkunar eða tifærslu í betra starf síðar. En það sem skiptir meira máli er að viðhald þekkingar getur aukið áhuga þinn á stafinu og þar með á ánægju. Leiðindi eru algeng orsök óánægju í starfi en ef þú leggur þig stöðugt fram við að bæta við það sem þú leggur til vinnunnar er líklegt að eftir því verði tekið, þér verði umbunað og að viðhorf þitt breytist verulega til batnaðar.
Ritstjórn janúar 5, 2016 17:00