Tengdar greinar

Fornbílaáhugamenn opna nýtt félagsheimili

Fornbílaklúbbur Íslands fagnaði í gær, fimmtudaginn 19. maí, merkum áfanga í sögu sinni. Á 45 ára afmæli klúbbsins var tekið í notkun nýtt félagsheimili við Ögurhvarf í Kópavogi. „Að hafa eignazt þetta húsnæði er gríðarmikill áfangi í sögu félagsstarfsins,“ segir Bjarni Þorgilsson, formaður Fornbílaklúbbsins, sem Lifðu núna hitti að máli rétt áður en nýja félagsheimilið fylltist af klúbbfélögum til að fagna áfanganum.

„Kófið“ reyndist bæði bölvun og blessun

Bjarni segir kórónuveirufaraldurstímann sl. tvö ár hafa bæði reynzt bölvun og blessun fyrir félagið. Rétt eins og öll önnur félagastarfsemi í landinu lá starf Fornbílaklúbbsins að mestu í dvala á þessu tímabili. Bölvunin fólst semsagt í að ekki mátti hittast og félagsheimilið stóð tómt. En blessunin fólst í því að það gafst næði til þess að selja og kaupa húsnæði án þess að það bitnaði beint á félagsstarfinu, enda mátti hvort eð er ekki hittast vegna samkomutakmarkana.

Í miðju „Kófi“ tókst að finna kaupanda að gamla félagsheimilinu við Hlíðarsmára í Kópavogi, sem að mörgu leyti hentaði illa. Félagsmenn samþykktu á síðasta ári að selja Hlíðarsmárahúsnæðið, og í framhaldi af því tókst að festa kaup á því húsnæði sem var vígt sem nýtt félagsheimili í gær. Það er á jarðhæð svo að hægt er að koma bílum fyrir þar inni sem ekki var hægt í fyrra húsnæði. Hátt er til lofts og stórir gluggar. Pláss fyrir um 100 manns í sæti, og skrifstofu- og veitingaaðstaða.

Auk þess kvað standa til að flytja framleiðslu steðjanúmeraplatna í Ögurhvarfið, en Fornbílaklúbburinn hefur sérstaka heimild frá Samgöngustofu til að annast það hlutverk. Steðjaplötur gamla númeraplötukerfisins, sem var í gildi til ársloka 1988, má setja á bíla eldri en árgerð 1989. Sjálfur segist Bjarni vera með númer afa síns á sínum fornbíl, gömlum Mercedes Benz, en afinn starfaði um áratugaskeið sem leigubílstjóri í Reykjavík, jafnan á Benz.

Eins og sjá má er hátt til lofts og vítt til veggja í nýja félagsheimilinu.

Langþráð lausn á húsnæðismálum klúbbsins

„Ég bauð mig fram til formanns á sínum tíma til að leysa úr húsnæðismálum klúbbsins. Og nú er það í höfn,“ segir Bjarni sýnilega ánægður með áfangann. En hann tekur fram að þennan árangur beri að þakka stórum hópi fólks sem hafi lagzt á árar með honum, sérstaklega vill hann þakka meðstjórnendum sínum í stjórn klúbbsins, en ekki síður öllu því fólki sem allt frá stofnun hefur unnið mikið sjálfboðastarf til að koma stoðum undir félagið. „Þetta ómælda sjálfboðastarf hefur verið klúbbnum ómetanlegt og gert okkur kleift að vera bæði sjálfstætt og sterkt félag,“ segir formaðurinn.

En Bjarni og hans fólk má sannarlega vera ánægt með áfangann – nýja félagsheimilið er glæsilegt í alla staði. Næst innganginum er búið að stilla upp þremur gríðarlega ólíkum fornbílum – einum Willys-herjeppa, einum Citroen „Bragga“ og einni Hondu árgerð 1978. Gömul uppgerð benzíndæla skapar stemmningu, og ekki sízt stóru svart-hvítu ljósmyndirnar sem prýða veggina. „Við völdum þessar myndir úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Það sjást allar mögulegar bíltegundir á þeim. Merking sá um að vinna þær, stækka og prenta. Þessir stóru myndarammar eru reyndar líka bergmálsgleypar sem gera hljóðvistina í þessu stóra rými mjög góða,“ segir Bjarni. Stærsta myndin, sem er tekin á Akureyri á sjöunda áratugnum, er reyndar úr safni Arnar Sigurðssonar, fyrrverandi formanns klúbbsins.

Virkir félagar um 1.100

Virkir félagar í Fornbílaklúbbnum eru nú um 1.100 að sögn Bjarna. Frá upphafi hafa alls um 4.400 nöfn verið skráð í félagaskrána, en margt af því fólki er ekki lengur meðal vor.

„Meðalaldur klúbbfélaga er vissulega frekar hár,“ segir Bjarni, „en hann hefur verið að lækka. Það er talsvert af ungu fólki að koma til liðs við okkur, sem kann að meta menninguna sem tengist gömlum bílum.“

Bjarni formaður með son sinn Höskuld Mána á armi ásamt þremur úr stjórn FBÍ, Stefáni Halldórssyni, Kristínu Sunnu Sigurðardóttur og Gunnari Erni Hjartarsyni.

Hann segir að núna, þegar Covid er að baki, standi til að keyra félagsstarfið í gang og það verði mjög virkt í sumar. Nýja félagsheimilið gegni þar auðvitað lykilhlutverki. Það standi líka opið fyrir aðra klúbba, sem geta leigt sig inn í húsið fyrir sína viðburði. „Ferguson-klúbburinn ætlar til dæmis að vera með fundi hérna,“ segir hann.

Þetta skipti máli ekki sízt vegna þess að Covid hafi stórminnkað framboð á húsnæði fyrir fundi félagasamtaka. Þeir sem ráku slíkt húsnæði hafi margir neyðst til að selja það í „Kófinu“. Nýja félagsheimili Fornbílaklúbbsins geti þannig reynzt lyftistöng fyrir starfsemi ýmissa minni klúbba, sem skiljanlega eiga ekki yfir eigin húsnæði að ráða.

„Næsta vetur verðum við síðan með reglulega fyrirlestra um allt mögulegt sem tengist áhugasviði klúbbfélaga,“ segir Bjarni.

Geymslur fyrir yfir 100 fornbíla

Fyrir utan félagsheimilið rekur klúbburinn líka 1.200 fermetra geymsluhúsnæði uppi á Esjumelum, en þar eru geymdir yfir 100 fornbílar yfir veturinn, og gefur klúbbnum jafnframt stöðugt tekjuflæði.

Bjarni segir það ekki sjálfsagt að félag af þessu tagi nái að fagna 45 ára afmæli. „Við höfum verið lánsöm með forystufólk í klúbbnum í gegnum tíðina, sem hafa haldið vel utan um fjárhaginn og aðra þætti starfseminnar,“ segir Bjarni. Í hruninu hafi skollið hurð nærri hælum, en það hafi tekist að sigla klúbbnum farsællega í gegnum þann ólgusjó. Og nú standi hann sterkar en nokkru sinni fyrr og muni án vafa fagna fimmtugsafmælinu með enn meiri glæsibrag en 45 ára afmælinu.

Margar bíltegundir og fleira forvitnilegt sést á þessari gömlu mynd frá Akureyri sem prýðir einn vegg nýs félagsheimilis FBÍ.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn maí 20, 2022 14:07