Fornbílar í Árbæjarsafni og skák í Viðey

Borgarsögusafn sendi frá sér fréttatilkynningu til að vekja athygli á spennandi viðburðum á höfuðborgarsvæðinu næstkomandi sunnudag. Í tilkynningunni segir:

„Borgarsögusafn býður gestum safnsins upp á tvo spennandi viðburði sunnudaginn 7. júlí. Fyrst ber að nefna hina árlegu og sívinsælu fornbílasýningu á Árbæjarsafni og síðan skákmót Taflfélags Reykjavíkur í Viðey.

Hin árvissa og sívinsæla fornbílasýning verður haldin á Árbæjarsafni sunnudaginn 7. júlí kl. 13-16. Fornbílaklúbbur Íslands sýnir ýmsa merka bíla í eigu félagsmanna á safnsvæðinu. Félagsmenn verða á staðnum og spjalla við gesti. Dagskráin stendur frá klukkan 13-16 en safnið er opið 10-17. Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa.

Taflfélag Reykjavíkur heldur skákmót í Viðeyjarstofu  í samstarfi við Eldingu og Borgarsögusafn sunnudaginn 7. júlí. Mótið er opið öllum áhugasömum og þátttaka er ókeypis en greiða þarf í ferjuna sem leggur af stað frá Skarfabakka kl. 12:15. En athugið mótið hefst kl. 13.

Tefldar verða níu umferðir með tímamörkunum 3+2  (3 mínútur á mann og 2 sekúndur á leik). Teflt verður í hlýlegu umhverfi á efri hæð Viðeyjarstofu en þar má kaupa ljúffengar veitingar á meðan á móti stendur. Gestir eru hvattir til að skrá sig á vef Taflfélags Reykjavíkur og kaupa sér miða í ferjuna á elding.is. Hámarks fjöldi keppenda er 50. Fyrstu verðlaun eru 15 þús. kr. önnur verðlaun 10 þús. kr. og þriðju verðlaun 5 þús. kr.“

Áhugasamir ættu endilega að tryggja sér far með Viðeyjarferðinni og rifja upp taflkunnáttuna áður en haldið verður í Árbæjarsafn.

Ritstjórn júlí 4, 2024 07:02