Ekki bann við aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði

Eygló Harðardóttir Félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra mun ekki leggja fram frumvarp um bann við aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði líkt og ráðherrann hafði sagt á síðasta ári að hann myndi gera. Í svari við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur, Bjartri framtíð, um hvort ráðherrann ætli að leggja fram frumvarp til laga á yfirstandandi þingi um jafna meðferð á vinnumarkaði segir að vegna anna í velferðarráðuneytinu hafi ekki náðst að ljúka vinnu við smíði frumvarpsins. Ráðherrann segir nú að hann stefni að því að leggja frumvarpið fram næsta haust, á 145. löggjafarþingunu.

Í kjölfar frétta af atvinnuleysi fólks á miðjum aldri einkum kvenna í Fréttablaðinu og Stöð 2 sagði félagsmálaráðherra 22.júlí síðst liðinn. „Ég hef sérstakar áhyggjur af því að þetta sé einkenni á vinnumarkaðnum, ákveðin aldursmismunun á vinnumarkaði. Það hefur sýnt sig hjá hinum Evrópuþjóðunum að ein helsta ástæðan fyrir því að fólki er mismunað á vinnumarkaði fyrir utan kyn er aldur,“ sagði ráðherrann þá og boðaði aðgerðir.

Á ráðstefnu um sveigjanleg starfslok í lok nóvember sagði ráðherrann meðal annars að erlendar rannsóknir og kannanir hefðu leitt í ljós að aldurstengd mismunun viðgangist á vinnumarkaði, þó ekki hafi verið hægt að sýna fram á slíkt hér á landi með óyggjandi hætti, vísbendingar séu þó fyrir hendi.„Það er ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á að það verði innleitt hér í lög bann við mismunun á meðal annars á grundvelli aldurs,“ sagði Eygló.

 

Ritstjórn apríl 20, 2015 11:56