Fley og fagrar árar

Það er vinna að pakka niður og pakka svo upp aftur

Hlín Agnarsdóttir rithöfundur og leikstjóri skrifar

Ég seldi litlu 48 fermetra íbúðina mína í haust, sextán ára gamla bílinn og flutti úr landi. Eftir margra ára umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að mér myndi vegna betur í þessu landi þar sem ég bý núna en því Íslandi sem ól mig.

Ástæðurnar eru margar og ein er sú að hér gengur mér betur að lifa af eftirlaununum mínum, þessum 250.000 kr. á mánuði eftir skatt. En þær eru fleiri og alls ekkert flóknar. Hér líður mér einfaldlega betur á allan hátt og get leyft mér að hefja mína síðustu ferð um tilveruna tiltölulega áhyggjulaus þrátt fyrir verðbólgu, rafmagns- og vaxtahækkanir.

Hvílíkt hugrekki segir fólk við mig að flytja úr landi komin á þennan aldur. Jú, jú, ég er komin á þennan aldur þar sem fólk á víst að setjast í helgan stein, draga saman seglin, njóta efri áranna, fá sér lazy boy. En ég get ekki hugsað mér að setjast í helgan stein hvað sem það þýðir og reyndar hef ég sjaldan þurft að draga saman seglin því þau hafa aldrei verið stór.

Ég hef reynt að sigla mínu litla fleyi eftir veðri og vindum en stundum hefur þó óvæntur stormur kollsiglt mínu skipi og ég svona rétt komist lífs af. Snemma lærði ég að bjarga mér sjálf. Fyrir það ber að þakka foreldrum mínum eða guði. Og mér skilst að guð hjálpi aðeins þeim sem hjálpa sér sjálfir. En nú seldi ég semsagt seglin mín og er að leita mér að nýjum sem eiga að endast mér langt inn í þessa síðustu siglingu.

Segl eru líka vængir og aðalatriðið er að þeir geti borið mig og mitt litla hafurtask það sem eftir er um innhöf sálarlífsins. Ég hirði ekki lengur um úthöfin og undiröldurnar, þær mega eiga sig úr þessu, ég er nefnilega á leiðinni inn á við, á vit ævintýranna sem ég rataði aldrei almennilega í.  Ég var allt of upptekin við að halda kúrs á úthafinu, að farast ekki.

Fátt færir mér jafnmikla hamingju og einmitt þessi leiðangur inn á við, að gera nýjar uppgötvanir, að sjá meira og meira. Að vera samt á sömu slóðum og áður, slóðum sem maður hélt sig þekkja en þekkti ekki, að hnita sama hringinn kringum sólu eins og jörðin sjálf en ekki endilega á sama sporbaug, ekki um sömu sveitina eða hverfið.

Í þessum nýja leiðangri hef ég komist að því að ég hef aldrei átt heima í einni sveit eða einu hverfi.  Fólkið sem ég kynntist þekkti mig ekki þegar á reyndi og ég ekki það. Minn innri maður var oftast undir þiljum og einhver annar sem hélt um stýrið og gætti þess að sá sem lá í kojunni drukknaði ekki í úthafsöldunni.

En nú er þessi annar maður orðinn þreyttur og nennir ekki að stýra lengur, hann er lagstur til hvílu við hliðina á stýrinu. Ég vek hann samt af og til og gef honum að borða, spjalla við hann og rek hann stundum á lappir til að sinna nauðsynlegum erindum eins og fara með mér í seglagerðina í leit að nýju segli. Við erum ekki enn búin að finna rétta stærð og lögun og á meðan liggur fleyið við bryggju í vetrarmyrkrinu og bíður örlaga sinna.

Það eru heilmiklar líkur á að ég lendi á Egilsgötunni þegar birta tekur á ný. Ekki þessari í Reykjavík, heldur í borginni sem ég dvel í núna. Ekki svo slæm adressa fyrir konu sem nú fetar í spor Mr. Skallagrímsson þótt hún ætli sér ekki að höggva mann og annan í sínum víking. En hún er að minnsta kosti komin í heila höfn og hafurtaskið bíður þess að fá sína aðstöðu á nýjum slóðum.

Minn innri maður hlakkar til að fá að leika innanhúsarkitekt, raða húsgögnum, taka upp úr kössum, hengja málverk á vegg. Endurnýja kynnin við eldhúsdótið og bókasafnið, bjóða fólki í mat. Hlæja við kertaljós og vínglas og slúðra smá. Sofna vært í nýju draumaherbergi. Reyna að skilja heiminn með fyrsta kaffibolla dagsins.

Verst hvað grái liturinn tröllríður öllum hýbýlum þessa dagana og ef ekki hann, þá sá hvíti og svarti. Þessi hvíthvítu háglansandi eldhús sem minna meir á krufningsherbergi en rauðan eld. Kannski eru allir hættir að elda, kannski er eldhúsið bara upp á punt, stöðutákn.

En ég kem með litina með mér, vil dvelja í grænni stofu, appelsínugulu eldhúsi og bláu svefnherbergi. Hvíta krufningsherbergið má bíða þar til allt er yfirstaðið, þegar litirnir hverfa af sjónhimnunni fyrir fullt og allt, þegar allt verður svart að eilífu.

Hinsvegar ætla ég að halda áfram að kryfja eins langt og djúpt og ég þori að fara. Lesa meira af ljóðum því við vitum mjög fátt „nema bráðum fer að dimma, nýtt tungl, nýtt glas af víni, novissima verba“ eins og Sigfús Daðason segir í ljóði sínu um orðin sem geta jafnvel sprungið ef við förum ekki varlega með þau.

Það eru ný orð í uppsiglingu, nýir tímar, fley og fagrar árar.

Sjá hugleiðingar Hlínar um ýmis málefni með því að smella á síðuna hennar hér.

Hlín Agnarsdóttir desember 29, 2022 07:00