Reglurnar hans pabba

Hlín Agnarsdóttir

 Hlín Agnarsdóttir sjálfstætt starfandi listamaður skrifar

“I like living in one room and have never known what people do with the room they are not in.” Quentin Crisp.

Faðir minn var ákaflega sterk og áhrifamikil rödd í allri minni tilveru, allt frá bernsku og langt fram á fullorðinsár. Honum mislíkaði við flest það sem ég tók mér fyrir hendur og þótti ekki mikið til mín koma, var sparsamur á hrós og aðdáun. Hinsvegar var hann óspar á hrós þegar aðrir en hans eigin börn áttu í hlut. Var það sem Halldór Laxness kallaði hlaðhlýr, fyndinn og skemmtilegur úti á stétt, já, jafnvel hvers manns hugljúfi en baðstofukaldur heimafyrir og oft ansi miskunnarlaus í samskiptum.

En þrátt fyrir hryssingslega framkomu gagnvart okkur börnunum og jafnvel niðrandi athugasemdir um getu okkar til þess að verða að dugandi þjóðfélagsþegnum, rataðist honum stundum satt orð á munn. Og þá allra helst þegar kom að fjármálum. Hann rak okkur snemma út að vinna, því fyrir honum var vinnan æðsta dyggð mannsins; að vera duglegur að afla peninga gerði mann frjálsan og óháðan. Já, ætli einhverjir kannist ekki við slagorðið sem dylst þarna bakvið orðin, vinnan gerir yður frjálsan og allt það vafasama kjaftæði sem heilu einræðisríkin notuðu sem dulbúinn áróður í þrælkunarbúðunum alræmdu.

En ég ætla ekki að fara að líkja honum pabba við leiðtoga einræðisríkja, þótt hann hafi verið einræðisherra á sínu heimili og trúað því að vinnan gerði okkur frjáls, heldur aðeins árétta, að hann hafði nú stundum rétt fyrir sér þegar kom að fjármálum. Hann innprentaði okkur nefnilega einni einfaldri en afar mikilvægri reglu sem allir þekkja; regluna um að eyða ekki meiru en þú aflar. Jú og svo var það hin reglan; að skulda aldrei neinum neitt.

Ég fór snemma í gasalega uppreisn gegn þessum FÖÐUR og hlustaði ekki á kjaftæðið í honum og allra síst þegar kom að því að fjárfesta í fyrstu íbúðinni minni. Hann vildi að ég keypti mér eitt herbergi í kjallara með aðgang að salerni í miðbænum á meðan ég vildi þriggja herbergja íbúð með útsýni við eina af fínustu götum borgarinnar. Hann var tilbúinn að styðja mig til að kaupa þetta eina herbergi, sagði að það væri alveg nóg fyrir mig nýkomna úr námi erlendis frá, nota bene, afar gagnslitlu ef ekki alveg gagnslausu námi að hans mati. Ég gæti seinna með dugnaði, aðhaldssemi og sparnaði eignast eitthvað stærra.

Ég hefði kannski betur hlustað á hann þarna fyrir rúmum þrjátíu árum, því auðvitað hef ég aldrei haft raunveruleg efni á að búa í þeim híbýlum sem ég hef valið mér, einfaldlega vegna þess að ég átti aldrei fyrir þeim, þurfti jafnvel að fá lánað fyrir fyrstu útborgun. Ég vildi ekki leggja það á mig að spara fyrir stærri íbúð og lagði ekki fyrir í neina sjóði, vildi ekki vera þræll steinsteypunnar, alls ekki gegna íslensku herskyldunni eins og það hét í þá daga hjá okkur róttæklingunum, þ.e. stefna stjórnvalda sem allt að því skylduðu þegnana að eignast sitt eigið. Enginn var maður með mönnum nema eiga sitt eigið húsnæði. Það var engum skipulögðum leigumarkaði fyrir að fara, ekkert frekar en á okkar dögum. Eina leiðin þó til að ,,eignast“ sitt eigið var að taka lán annaðhvort frá fjölskyldu eða lánastofnunum og bönkum með tilheyrandi kostnaði.

Á þessum þrjátíu árum hef ég líklega borgað lánastofnunum og íslensku bönkunum meira en tífalt andvirði íbúðarinnar sem pabbi vildi ekki að ég keypti sem mína fyrstu eign og ég fjármagnaði með lánum að mestu. Stundum langar mig til að reikna út hversu mikið ég hef borgað í lántökukostnað, skjalakostnað, verðtryggingu, vexti og dráttarvexti, fitkostnað, kortafærslur og aðra sjálfsagða þjónustu sem við viðskiptavinir bankanna ættum ekki að þurfa að greiða fyrir þegar lagt er út í lántökur. Mér finnst eins og bankarnir hafi haft mig að fífli og stundað skipulegt bankarán á okkur almenningi. Og nú þykjast stjórnvöld ætla að bæta fyrir ránið með því að stofna til þátttökuleikhúss og setja þar á svið einhverja stærstu framúrstefnuleiksýningu á öllum lýðveldistímanum með sósíalrealistíska titlinum Leiðréttingin.

Ég taldi mér trú um að ég gæti ,,eignast“ fasteign með lántökum, gæti tryggt framtíð mína og öryggi og átt skuldlaust ævikvöld en lifði í fullkominni fjármálablekkingu sem hefti frelsi mitt og sjálfstæði þar til alveg nýverið. Pabbi hafði nefnilega rétt fyrir sér þegar allt kom til alls. Nú er ég loksins flutt í þetta eina herbergi sem er reyndar nokkuð stórt, seldi draumaíbúðina í miðbænum, þar sem flest herbergin biðu eftir lífi sem aldrei kom því það var alltaf verið að vinna fyrir skuldunum.

Í fyrsta skipti í þrjátíu ár er ég í plús og ég á heimili en ekki fasteign. Ég eyði ekki meiru en ég afla, ég skulda engum neitt. Pabbi hefur fengið uppreisn æru hjá mér. Eini gallinn við þetta skuldlausa ástand er skuldabitið. Mér finnst alltaf um hver mánaðarmót eins og skuldi einhverjum eitthvað. Þetta eru víst svokölluð skuldafráhvörf. Vona bara að ég fari ekki að steypa mér í skuldir til að losna við þau. Héreftir ætla ég nefnilega að reyna að fara eftir reglunum hans pabba. Ef mér tekst að beita þeim tekst mér kannski líka að stunda þann lífsstíl sem ég tel eftirsóknarverðan, lífstíl gleði og nægjusemi.

 

Hlín Agnarsdóttir september 24, 2014 15:52