Þriðjudaginn 4. febrúar kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu hádegistónleika ársins 2025 í Hafnarborg en þá verður Guðmundur Karl Eiríksson gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á efnisskrá tónleikanna, sem bera yfirskriftina „Gullhjarta og fjandsemi“, verða vel valdar aríur úr óperum eftir ítölsku tónskáldin Donizetti og Verdi.
Guðmundur Karl Eiríksson lauk framhaldsprófi í söng frá Söngskóla Reykjavíkur þar sem hann lærði hjá Garðari Thor Cortes. Einnig stundaði hann nám við Söngskóla Sigurðar Demetz undir leiðsögn Kristjáns Jóhannssonar. Hann lauk svo diplómanámi á meistarastigi á Ítalíu undir leiðsögn barítónsins Renato Bruson frá Accademia Renato Bruson. Guðmundur hefur komið fram á fjölda tónleika hérlendis sem og á Ítalíu. Þá hefur hann einnig tekið þátt í óperuuppfærslum en hann fór til að mynda með hlutverk Schaunard úr La bohéme á Rimini, Ítalíu, undir stjórn Joseph Rescigno. Einnig fór hann með hlutverk Þórs í Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson á Óperudögum í Reykjavík árið 2018.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.