Gagnaðist ekkert að leggjast niður og grenja

Elspa Sigríður Salberg Olsen segir frá ævi sinni í bókinni Elspa – saga konu, eftir Guðrúnu Frímannsdóttir. Sagan er dapurleg lýsing á uppvexti og lífi Elspu, sem ólst upp á Akureyri við fátækt, alkóhólisma, ofbeldi og kynferðislega misnotkun. Elspa er í fjórða sæti yfir þær bækur sem mest hefur verið hlustað á hjá Storytel hér á landi. Margir ættingjar hafa glaðst yfir bókinni með Elspu en nokkrir aðstandendur hafa andmælt útgáfu hennar.  Strax í upphafssetningu bókarinnar segir Elspa:

Ég heiti Elspa Sigríður Salberg Olsen og hef ákveðið að segja sögu mína þrátt fyrir að einstaka ættingjar mínir hafi hoppað hæð sína í loft upp og látið vel í sér heyra þegar sú ákvörðun barst þeim til eyrna. Mótmæli þeirra snerta mig ekki lengur enda er ég alvön því að margir innan fjölskyldu minnar telji sig vita best um allt það sem varðar velferð mína og annarra manna.

 

Caroline Rest.

Elspa sem átti færeyskan föður, bjó í æsku í húsi í eigu bæjarins sem hét Karólína Rest og stóð neðst í núverandi Listagili við hlið Hótel KEA. Hún var tekin úr skóla 13 ára og látin fara að vinna á verksmiðjunum, en foreldrar hennar fengu kaupið hennar afhent til að nota til framfærslu fjölskyldunnar. Líf hennar sem fullorðinnar manneskju markaðist af þessum aðstæðum með tilheyrandi hörmungum.  Við grípum hér niður í kafla í bókinni sem heitir Lygalíf fullorðinna.

Ég fékk að kenna á margvíslegu ofbeldi frá blautu barnsbeini og allt til fullorðinsaldurs. Sú reynsla mótaði hegðun mína og líðan frá því er ég var lítið kornabarn og orgaði „pela kodda, sæng“ undir súðinni í Laxdalshúsi. Ég var ung að árum þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki marga valkosti. Aðstæðurnar á heimilinu voru óþolandi og óviðunandi með öllu og litla huggun að fá, það gagnaðist ekkert að leggjast niður og gráta. Mín leið varð sú að benda fingri eða steyta hnefann að foreldrum mínum, sérstaklega pabba, og þannig festist ég í einhvers konar vítahring hefndar.

Eftir því sem árin liðu varð ég verri og verri í skapinu, kolklikkuð er líklega rétta orðið. Ég fór óhikað inn í alls konar aðstæður sem voru alls ekki barnvænar, sumum þeirra segi ég frá hér, en öðrum ekki. Margsinnis fékk ég vilja mínum framgengt með hótunum og látum. Í örfá skipti fylltist ég botnlausri örvæntingu vegna aðstæðna minna.

Man ég sérstaklega eftir einu atviki, þegar ég var ellefu ára. Þá hafði ég verið úti við og kom heim á Restina fyrr en áætlað var. Kom þeim pabba og Eyju á óvart þar sem þau voru í ástarleik inni í herbergi Eyju. Það er skemmst frá því að segja að ég bilaðist, barðist um, orgaði og grenjaði þar til mamma kom heim frá vinnu. Eyja reyndi að róa mig niður en það var eins og að hella olíu á eld, ég varð bara enn vitlausari. Þegar mamma kom loks heim gerði hún máttlausar tilraunir til að róa mig en allt kom fyrir ekki. Ég fylltist ofsakenndri reiði gagnvart móður minni, fannst þetta allt vera henni að kenna og harðneitaði að tala við hana.

Þarna greip ég til þess verkfæris sem hafði fram að þessu dugað mér vel, að hóta:

„Nú er ég búin að fá nóg af ruglinu hér á þessu heimili. Endalaust peningaleysi, varla hægt að gefa okkur að éta, þó að alltaf séu til peningar fyrir brennivíni ofan í karlfíflið. Svo lætur þú hann berja þig eins og harðfisk mamma, og lofar honum að gera það sama við mig, hvers konar móðir ertu eiginlega? Og hvað er eiginlega að þér, Eyja, heldur við eiginmann þinnar eigin systur? Nú fer ég með þetta í blöðin, veit um mann sem vinnur á Degi og hjá Tímanum, ég er farin, ykkur er ekki viðbjargandi.“

Viðbrögð þeirra voru nákvæmlega þau sem ég óskaði mér. Þau urðu skíthrædd, vissu að þetta væru ekki innantómar hótanir, mér væri til alls trúandi.

Mamma skaust yfir á Hótel KEA og hringdi í prestinn sem hún þreif hjá og bað hann að koma til hjálpar, sem hann og gerði. Presturinn var mættur á Restina nokkrum mínútum síðar og reyndi að róa okkur niður. Hamagangurinn og lætin voru guðsmanninum hins vegar ofviða. Mamma, pabbi og Eyja töluðu í belg og biðu og ég hélt áfram að öskra allt þar til ég gat ekki meir og lét fallast niður í stól, algjörlega búin á því.

Fullorðna fólkið laug hægri vinstri að prestinum, reyndi að fegra aðstæður, sagði mig vera að ýkja og fara með rangt mál. Presturinn kokgleypti frásögn þeirra og ítrekaði við mig að sannleikurinn væri sagna bestur. Fjórir fullorðnir sameinuðust um að búa til lygavef sem þau vissu öll að var ekki sannur. Mér var lofað því að nú yrði annar bragur á heimilislífinu á Restinni, gleðin tæki völd og öll dýrin í skóginum yrðu vinir. Fundurinn með prestinum var mikil niðurlæging.

Guðrún Frímannsdóttir höfundur bókarinnar segir að saga Elspu sé einstök. „Mér finnst hún eiga erindi til okkar hinna, kannski sérstaklega til fagfólks innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Sagan sýnir ótrúlega vanrækslu foreldra, skólayfirvalda og félagsmálayfirvalda. Lögreglan vissi að ofbeldi viðgekkst á heimilinu en það var ekkert gert. Yfirmenn á verksmiðjunum taka 13 ára barn í vinnu og afhenda foreldrunum launin. Það er sama hvar borið er niður,  Elspa er vanrækt á öllum vígstöðvum.  Það er áhugavert fyrir fagfólk þessa lands að lesa söguna og spyrja sig, er svona í gangi í dag?“, segir hún.

 

Ritstjórn nóvember 10, 2022 13:00