Bíður spennt eftir næstu ferð með 60 plús

Hjartans þakkir öll fyrir ljúfa og skemmtilega samveru í Strút og gaman var að þekkja flesta göngufélagana frá því í fyrra!

Frábær fararstjórn, öruggur bílstjóri, dýrindis matur og góður kofi að dvelja í!

Hvað getur það verið betra?

Jú, við pöntum betra veður næst!

Furðu gott getur þó verið að ganga í rigningar sudda og þoku og margt getur t.d leynst í þokunni 

Ég bíð spennt eftir næstu ferð með 60 +

„Þannig komst Júlía Björnsdóttir að orði á sameiginlegri fésbókar síðu hóps 60+ sem fór nýverið í þriggja daga bækistöðvaferð í Strút að Fjallabaki með ferðafélaginu Útivist“, segir Guðrún Frímannsdóttir, en hún skrifar þessa grein um sumarferð Útivistar með sextíu plús.

Í Strútsveri

Eins og greint var frá hér á síðunni fyrir rúmu ári bauð Ferðafélagið Útivist uppá bækistöðvaferð í Bása fyrir 60+sumarið 2022.  Ferðin bókaðist upp á skömmum tíma og biðlisti var fram á síðasta dag. Leikurinn var því endurtekinn og fyrr í sumar fór á fimmta tug fólks 60+ á ný  í Bása. Eins og þeir vita sem heimsótt hafa Bása á Goðalandi er náttúrfegurð þar með eindæmum og fjölmargir möguleikar á stuttum og lengri gönguferðum. Þátttakendur komu á framfæri óskum um að heimsækja fleiri náttúruperlur undir leiðsögn kunnugra og því varð úr að nú í sumar var einnig boðið uppá bækistöðvaferð í skála Útivistar við Strút að Fjallabaki, færri komust að en vildu, uppselt var í ferðina.

Það var hress og skemmtilegur hópur sem hossaðist með rútu í rúma fimm tíma í blíðskapar veðri inn á hálendið, stefnan tekin á Strút. Fjallasýn var stórbrotin og gaman að sjá kunnuglega jökla og fjöll frá nýju sjónarhorni. Fylgdumst einnig með göngugörpum á leið sinni um Laugaveginn.

Þær nutu rigningarinnar

Eftir að hafa komið okkur fyrir í fjallaskála Útivistar skellti hópurinn sér í göngu inn í Krókagil þar sem sjá má hvernig tröll og aðrar vættir hafa orðið af steini og mynda ótrúlegt landslag. Gengnir voru rúmir fimm kílómetrar í dásamlegu veðri áður en haldið var á ný í skálann þar sem sameiginlegur kvöldmatur var á borðum.

Eftir góðan nætursvefn voru regnfötin tekin fram og gengið í hressilegri rigningu og þoku umhverfis Strút, rétt um 12 km ganga, en hluti hópsins fór styttri göngu. Ansi notalegt að koma í skála, að göngu lokinni og fá þar heitt súkkulaði, lummur og þeyttan rjóma.

Skálinn við Strút er alvöru fjallaskáli, hvorki rafmagn né nettenging, eldað á gasi og olíukynding. Spil, bækur og prjónar voru dregin fram og mikið spjallað.

Karlarnir á grillinu

Það sem einkennt hefur þessar ferðir Útivistar fyrir 60+, tvær í Bása og nú síðast í Strút er einlæg gleði, jákvæðni og samheldni. Ekkert vesen á nokkrum manni, hópur af skemmtilegu fólki. Þátttakendur eru frá sextugu og þeir elstu vel á tíræðisaldri. En aldurinn segir ekki allt; einn þátttakandi á tíræðisaldri rétt komst með okkur í sumar því viðkomandi var að koma úr nokkurra daga Hornstrandagöngu á meðan annar hafði nýverð gengið á Kilimanjaro í tilefni af áttræðisafmæli sínu.

Það hefur verð einstakleg ánægjulegt að taka þátt í skipulagi og þátttöku í þessum ferðum með 60+. Þarna er að finna mikla visku, þroska og heilbrigt viðhorf til lífsins. Forréttindi að eyða tíma sínum í slíkum félagsskap.

Krókagil

Ritstjórn september 5, 2023 07:00