Gaman að þroskast með bókaklúbbnum

Anna Kristine Magnúsdóttir talaði við Maríönnu Traustadóttur.

Maríanna Traustadóttir er glaðlynd kona sem fagnar 66 ára afmæli sínu á jóladag. Hún er mannfræðingur að mennt, gift og á 32 ára tvíburadætur. Hún hefur verið í sama bókaklúbbnum í 13 ár og okkur lék forvitni á hvernig slíkir klúbbar starfa, en við kynnumst líka Maríönnu smávegis.

Já, ég er mannfræðingur, með BA frá Háskóla Íslands og master gráðu í félagsmannfræði frá háskólanum í Árósum, Danmörku. Ég starfa á skrifstofu Alþýðusambands Íslands sem sérfræðingur og eru jafnréttismál á minni könnu ásamt umhverfismálum, en síðari málaflokkurinn hefur tekið meira af mínum tíma undanfarin ár. Ég hef unnið fyrir verkalýðshreyfinguna allt frá árinu 2000 og líkar það mjög vel.

Hefurðu alltaf verið lestrarhestur?

Já, ég hef alltaf lesið mikið, ég var snemma læs og las allt sem ég náði í. Bókaskápur ömmu minnar í Múnkaþverárstræti á Akureyri var heimur sem ég hvarf inn í. Kringum 10-13 ára aldur var ég búin að lesa meðal annars 1001 nótt, margar sögurnar oftar en einu sinni, Höllu og Heiðarbýlið eftr Jón Trausta, Guðrúnu frá Lundi, bækur eftir hana voru í skápnum, ævintýri Múnkhásens, Ingibjörgu Sigurðardóttur, skáldkonu sem skrifaði ljúfar ástarsögur, amma átti nokkrar bækur eftir hana í skápnum góða og margar fleiri bækur drakk ég í mig í stofunni hjá ömmu.

Og hún lét einskis ófrestað til að næla sér í þá bók sem hún vildi lesa.

Þegar ég var að alast upp á Akureyri var Amtsbókasafnið til húsa við Hafnarstræti í þröngu húsnæði og barna- og unglingabókadeildin lítil eftir því. Þá máttum við börnin ekki fara inn í bókadeildina sem ætluð var fullorðnum fyrr en um fermingu og man ég eftir að hafa skriðið eftir gólfinu þangað inn til að ná í bókina sem ég vildi lesa, falið mig úti í horni og lesið. Ég man eftir að hjartað hamaðist í brjósti mér því ég var svo stressuð að vera að stelast þetta og því miður þá man ég ekki hvaða bækur það voru sem mér lá svona á að lesa.

Gat í þekkingu á íslensku samfélagi

Vegna starfa föður míns fyrir Sameinuðu þjóðirnar þá fór ég frekar ung frá Íslandi eða 16 ára gömul (í janúar 1970) og kom ekki aftur til Íslands, fyrir utan mislangar heimsóknir, fyrr en 9 árum síðar. Þegar ég kom heim til að setjast að þá fannst mér ákveðið „gat“ vera í þekkingu minni á íslensku samfélagi og einnig að blæbrigði íslenskrar tungu var mér ekki tamt. Því tók ég mig til og fór að lesa bækurnar sem flestir vinir mínir voru búnir að lesa eins og t.d. Laxness, Þórberg og Íslendingasögurnar. Ég hafði reyndar lesið Njálssögu á frönsku en ég viðurkenni að það er ekki það sama og lesa söguna á íslensku.

Víxla-rað í bókakaupum

Á þessum árum bjó ég í Þingholtunum í Reykjavik og þá voru bókasölumenn sem bönkuðu upp á og buðu menningu til sölu á víxla-rað greiðslum. Grunnurinn að mínu bókasafni er þannig tilkomin, reyndar lét ég aldrei glepjast af alfræðibókunum! Ég held að síðasta bókin sem ég keypti á víxla-rað greiðslu hafi verið Ensk- íslensk orðabók gefin út af Erni og Örlygi árið 1984, það voru góð kaup því sú bók er ennþá í notkun á mínu heimili.

Bókasöfn og ekki síður bókabúðir hafa ætíð heillað mig. Þegar ég ferðast fer ég alltaf í bókabúð til að skoða bækur og ekki síður til að skoða bókabúðina sjálfa. Hvar er hún staðsett, hvernig er hún skipulögð, hvaða bækur eru á boðstólnum, hvernig eru bækurnar flokkaðar? Ég fer inn í bókabúð til að slaka á, skoða og íhuga. Að handfjatla bók veitir mér hugarró, ég á bók sem ég keypti í ferð minni til Kína fyrir nokkrum árum, ég skil ekki eitt einasta orð, eða staf, sem þar er ritaður, en hvernig bókin er innbundin og allt útlit er svo fallegt að hún er ómótstæðileg.

Segðu okkur frá bókaklúbbnum.

Bókaklúbburinn kom saman í vikunni. Fremst á myndinni sést aftan á gráan koll Eddu Guðmundsdóttur, en frá vinstri til hægri koma í þessari röð: Guðrún Kristinsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Birna Gunnlaugsdóttir, Lilja Hjartardóttir, Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, Ólöf Garðarsdóttir, við hlið hennar er Unnur Dís Skaptadóttir sem hélt klúbbinn og síðan Maríanna Traustadóttir í forgrunni

Bókaklúbburinn Víðsýnar og vellesnar konur var stofnaður 2006 en hugmyndina átti Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur. Við vorum nokkrar konur sem annað hvort höfðu verið nemar í mannfræði við HÍ, stundakennarar eða kennarar og hist nokkru sinnum í gegnum árin hjá Hallfríði og það fór vel á með okkur. Við ræddum bækur meðal annars og eitt leiddi af öðru, fyrr en varði boðaði hún okkur á fyrsta formlega bókaklúbbskvöldið í október 2006.

Sem sannar fræðikonur þá er að sjálfsögðu til excel skjal þar sem staðreyndir eru skráðar. Það var Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikkona sem kom til okkar til að ræða bók sína „Reisubók Guðríðar Símonardóttur“ og heimildarvinnuna við gerð bókarinnar.  Í upphafi vorum við ekki margar og allar tengdar mannfræðinni á einn eða annan hátt og þar kom að  okkur fannst við þurfa að stækka hópinn. Bókaval og umræður lituðust af bakgrunni okkar, við vildum fjölbreyttara bókaval og sjónarhorn.

Buðu vinkonum í klúbbinn

Því var ákveðið að hver og ein mundi bjóða 1-3 konum úr sínum vinkvennahóp í bókaklúbbinn. Þetta ferli tók 1-2 ár, það voru konur sem komu í nokkur skipti en hurfu síðan á braut, var það bæði vegna anna og fjölskylduástæðna og vafalaust einnig einhverjar sem ekki höfðu áhuga. En, ákveðinn kjarni myndaðist sem hefur í langan tíma haldið hópinn og eru nokkuð mörg ár síðan að ný kona hefur bæst við. Kjarninn er 11 konur en sjaldnast erum við allar, margar í hópnum vinna þannig vinnu að það er mikið um ferðir erlendis og því yfirleitt alltaf 1-3 sem eru fjarverandi.

Við komum okkur upp FB síðu fyrir nokkrum árum og þá kom þetta nafn á bókaklúbbinn sem nú er. Við hittumst alltaf síðasta þriðjudagskvöld í mánuði. Við skiptumst á að halda bókakvöldið, bjóðum upp á veitingar, alltaf veglegar og ef hnallþóra er í boði erum við nú aldeilis kátar! Sú kona sem heldur klúbbinn ákveður einnig hvaða bók á að lesa. Síðasta verk kvöldsins er að ákveða hver heldur næsta klúbb og þá hvaða bók á að lesa.

Val á bókum er mjög fjölbreytt, við erum „alætur“, nema ef til vill  höfum við ekki lagt mikla áherslu á glæpasögur. Við lesum jafnt nýjar bækur og gamlar, íslenska höfunda og erlenda og bækur á öðrum tungumálum. Við höfum tekið fyrir ljóðabækur og einnig sagt frá fræðibókum. Að næsti húsráðandi velji bók er skemmtilegt því smekkur okkar er mjög mismunandi og því hefur maður lesið bækur sem manni hefði aldrei dottið í hug að lesa. Þetta er hluti af sjarmanum við að vera í bókaklúbbi.

Þetta gerist i bókaklúbbnum…

Venjulega hefst kvöldið á almennu spjalli, þar er allt undir; stjórnmál, dægurmenning, bókmenntir, prjónauppskriftir, ferðasögur, allt eftir hvað brennur á okkur í hvert skiptið. Því næst er hafist handa við að greina bókina sem er til umfjöllunar. Húsráðandi stýrir því, farið er hringurinn, hver kona fær athygli og hljóð (oftast!) til að segja frá sinni greiningu á viðkomandi verki. Það eru leyfðar umræður/athugasemdir inn á milli þess að hringurinn er farinn. Í lokin eru almennar umræður um bókina og þá gerist það oft að aðrar bækur koma upp í umræðuna sem að efni til tengjast til dæmis viðkomandi verki. Stundum koma konur með aðra bók eftir þann höfund sem verið er að lesa til að segja frá fleiri verkum. Í lok kvölds fara allar konur heim með meiri vitneskju en þegar komið var, bæði fjölbreyttari sýn á verkið sem var til umfjöllunar auk þess hugmyndir að bókum að lesa. Og ekki síst, lausn á ráðgátum lífsins!

Við erum með gott tengslanet þannig að nokkru sinnum höfum við fengið höfunda til okkar til að ræða verk sín og einnig hafa komið til okkar þýðendur erlendra bóka sem við höfum tekið til umfjöllunar. Það er alltaf einstök upplifun að geta rætt við höfundinn um verkið og ekki síður þýðendur erlendra bóka.

Við hittumst ekki í desember, en janúar bókaklúbburinn er alltaf helgaður íslenskum jólabókum. Undanfarin ár höfum við haft þann háttinn á að hver og ein segir frá þeim bókum sem hún hefur lesið um jólin, við erum ekki að taka fyrir eina ákveðna bók. Bæði að smekkur okkar er misjafn og það er ekki auðvelt að nálgast nýja bók á bókasafni á þessum árstíma. Á síðari árum höfum við einnig hist yfir sumarmánuðina og fyrsti klúbbur haustsins, þá  líkt og janúarklúbburinn,  er að við segjum frá hvaða bækur við höfum lesið yfir sumartímann.

Að vera þátttakandi í þessu magnaða fyrirbæri sem bókaklúbbur er, er stórkostlegt. Ekki aðeins að hitta flottar konur mánaðarlega og ræða bækur, heldur að tengjast þeim, virðingin og væntumþykjan sem er okkar á milli er mjög dýrmæt að mínu mati. Við komum úr ólíkum áttum og erum í mismiklum samskiptum á milli klúbba, en tengslanetið okkar er sterkt og getum við nýtt okkur það í starfi sem er ómetanlegt.

Við höfum ekki farið saman til útlanda eða í helgarferð í sumarbústað, eins og ég veit að sumir kvennaklúbbar gera. Margar okkar eru í öðrum kvennaklúbbum þar sem slíkt er í gangi, þó má geta þess að við höfum rætt það að fara saman um helgi í bústað og ræða bækur, þannig að það er aldrei að vita nema við látum verða af því.

Það er gaman að þroskast með bókaklúbbnum, sumar eru hættar að vinna, aðrar að huga að starfslokum og enn aðrar á fullu í starfi. Við höfum fylgst með hvor annarri í leik og starfi í langan tíma, tekið þátt í gleði og verið til staðar í áföllum sem við allar höfum þurft að takast á við. Það er góð tilfinning að vita til þess að síðasta þriðjudagskvöld í mánuði þá hitti ég hóp víðsýnna og vellesinna kvenna og ég vona að ég eigi eftir að hitta þær áfram um ókomna tíð.

Ritstjórn nóvember 29, 2019 08:34