Gefandi orð – fimm áhugaverðar ljóðabækur

Ljóð snerta fólk á einhvern djúpstæðan og einstakan hátt. Samkvæmt vísindarannsóknum snerta þau sömu svæði heilans og tónlist og það gerir ljóðabækur persónulegustu og þýðingarmestu gjöf sem hægt er að gefa. Fimm ljóðabækur liggja um þessar mundir á náttborði undirritaðrar og hver og ein hefur sest að í sálinni.

Áhrifamikil, meitluð og undurfögur

Gerður Kristný er meðal bestu ljóðskálda þjóðarinnar. Ljóðabók hennar Blóðhófnir sat á metsölulista bókaverslana í Reykjavík þegar hún kom út og vakti það athygli, enda langt síðan ljóðabók hafði náð svo hátt á slíkum listum. Hún hefur síðan farið víða um heim, hlotið bókmenntaverðlaun og heillað fólk af öðrum þjóðernum jafn mikið og Íslendinga. Blóðhófnir er ein af þeim bókum sem vekja mann til umhugsunar, sitja í sálinni og krefjast þess að maður ígrundi boðskap hennar, byggingu og meitlaða frásögn. Gerður Kristný byggir ljóðabókina á sögu nöfnu sinnar Gymisdóttur úr Skírnismálum. Hér er varpað algjörlega nýju ljósi á aðferðir Skírnis við að útvega guðinum Frey kvonfang. Ljóðið talar beint inn í samtímann þar sem mansal og nauðungarflutningar kvenna milli landa eru alþekkt stærð. Höfundur dregur upp sterkar og lifandi myndir svo Gerður Gymisdóttir verður ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesandans. Ást jötnakonunnar á heimalandinu og sátt hennar við líf sitt er einnig svo skiljanleg sem og löngun hennar til að velja sér eigin örlög. Að lokum verður hún að láta undan ofbeldinu, hlutskipti margra kvenna í gegnum tíðina.

Orðsnilld, mennska og skilningur

Sigmundur Ernir Rúnarsson er einn okkar snjöllustu höfunda. Ljóðabók hans, Nokkur orð um notagildi lífsins og áður óbirt ljóð er safn knappra vel saminna ljóð. Sigmundur Ernir er að velta fyrir sér lífinu, veginum sem við fetum í átt til grafar, sársaukanum sem mætir okkur á leiðinni og hinu sem veitir fró, samskipti okkar við aðra og þroskinn sem flestir öðlast með aldrinum. Sigmundi er einstaklega lagið að snerta við tilfinningum fólks, hreyfa við lesandanum. Sum ljóðin eru hugljúf, full af gleði meðan önnur lýsa djúpri sorg, erfiðum sársauka sem aldrei er hægt að yfirvinna til fulls. Þetta dásamlega ljóðasafn er þess vegna án efa gjöfin sem unnendur góðs texta kjósa sér. Orðsnilld, mennska og skilningur á kjörum manna eru helstu höfundareinkennum Sigmundar Ernis og Nokkur orð um notagildi lífsins eru orð sem hafa vikt og maður vill helst njóta þeirra aftur og aftur.

Glíman við tilfinningarnar

Steindór Jóhann Erlingsson vísindasagnfræðingur hefur verið opinskár um glímu sína við geðræn vandamál. Hann gaf út árið 2023, Lífið er staður þar sem bannað er að lifa, en þar lýsti hann baráttu sinni við þunglyndi og kvíða. Í ár sendir hann frá sér bókina, Hreinsunareldur. Þar teflir hann saman sköpun jarðar, sögu mannanna og vísindin við eigin persónulegu glímu við erfiðar tilfinningar. Ljóðin urðu til á mánaðartímabili og í formála lýsir hann hvernig hann var þurrausinn að honum loknum. Vonandi fyllist brunnurinn aftur því þetta eru sérlega vel unnin og áhugaverð ljóð ekki hvað síst vegna þess að vísindabakgrunnur höfundar gefur honum færi á að skapa mjög áhugavert og nýstárlegt myndmál.

Hvalbak á landi

Maó Alheimsdóttir fæddist í Póllandi og ólst þar upp. Hún hóf nám í norrænum fræðum við Sorbonne-háskóla árið en fluttist til Íslands árið 2006. Hvalbak er hennar þriðja bók en hún hefur sent frá skáldsögu, ljóðabókina Ljóðatal en einnig á hún ljóð í tveimur ljóðasöfnum og hefur birt bæði pistla og greinar víða. Hún er hæfileikarík og hefur tekið þátt í margskonar annarri listsköpun. Í Hvalbak er áberandi hvílík snilldartök Maó hefur á íslensku máli en einnig hversu næma tilfinningu hún hefur fyrir íslenskri náttúru. Það er vel til alls vandað í þessari bók og Maó leitast við að opna augu okkar fyrir þeirri vá sem vofir yfir náttúrunni, hörfandi jöklar sem eru að missa tign sína og auðnir að myndast vegna kæruleysis mannanna. Tvímælalaust frábær bók og þörf lesning fyrir alla sem unna íslenskri náttúru.

Komið, verið, blómstrið

Allar mannlegar tilfinningar eru undir í bók Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Lífið er undantekning. Þráin eftir rótfestu, ástin, depurð, efinn, ergelsi og forvitni. Lífsnautnirnar hanga þarna út við spássíur, góður matur, gredda og skynjun fegurðar. Hún leikur sér skemmtilega að orðum og kýs að nota sagnir í boðhætti, eins og hún sé að hvetja fólk til athafna. Gera nú eitthvað í stað þess að sitja inn og láta lífið líða framhjá. Sigurlín er áhugaverður og frumlegur höfundur sem gaman er að kynnast.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.