Liggja í sólinni á Tenerife og tala saman

Guðný Jónsdóttir og Óskar Sigurpálsson búa í Kópavogi á jarðhæð, með garð og heitan pott. Þau tóku saman fyrir 20 árum og eiga samanlagt 7 börn og 10 barnabörn. Óskar á auk þess fjögur langafabörn. Þau kunna að njóta lífsins, brugðu sér til Tenerife eftir áramótin og ekki í fyrsta sinn. Þangað hafa þau farið fjórum sinnum og tvisvar til Grand Canary eyjunnar.  Guðný vinnur í 60% starfi í Rjóðrinu sem er heimili fyrir langveik börn, en Óskar starfar í fyrirtæki sem heitir Íshúsið. Áður var hann lögreglumaður í áratugi og keppti í kraftlyftingum, fór meðal annars á tvenna Ólympíuleika.

Það er ekki amalegt að vera ferðamaður á Tenerife, geta kúpplað sig út og skellt sér á ströndina

Gott að kúppla sig út í viku

„Það er náttúrulega sólinn og hitinn og það að stytta veturinn“, segir Óskar þegar þau eru spurð hvers vegna þau fari reglulega til Tenerife. „Og bara afslöppunin“, bætir Guðný við. Henni finnst gott að fara í burtu til að slaka á. „Yngsta dóttir mín á tvær litlar stelpur og eiginmann á sjó. Þegar hún tók uppá að fara í háskólann vorum við í barnagæslu, og það er mjög gott að kúppla sig út með því að fara burt í viku“, segir hún „líka fyrir fólk sem vinnur í umönnunargeiranum, því það tekur auðvitað stundum á að sinna veikum börnum“, bætir hún við.

Tala saman og skoða sig um

Þau segjast liggja í sólinni á Tenrife, tala saman, drekka bjór og borða góðan mat. Þau skoða sig líka um og leigðu sér hjól í nokkra daga í þessari ferð og hjóluðu um.  Eyjan Tenerife er eins og Reykjanesið að stærð og þeim gekk ágætlega að hjóla. „Nema þegar fólk fór að flækjast fyrir okkur á ströndinni“, segja þau og hlæja. Það hafi verið svolítið bratt að hjóla þar sem þau dvöldu núna, en þau voru á Hótelinu Jakaranda á Adeje ströndinni. Það hafi verið betra að hjóla í Los Christianos sem er lítill bær þar skammt frá.

Þarf ekki að fara útaf hótelinu

Þeim finnst skemmtilegt að vera á ströndinni og horfa á fólkið og mannlífið. Þarna séu allir komnir með sama hugarfari, því að njóta sólar og þess sem staðurinn hefur uppá að bjóða. „Það er gott að koma til Tenerife í stuttan tíma en ég er ekki viss um að ég myndi vilja búa þarna“, segir Guðný.  Hún segir að hótelið hafi verið fínt. Þar hafi verið sundlaug og all til alls. „Maður þarf í raun ekki að fara útaf hótelinu til að njóta sólar og synda“, segir hún.

Stökkva á tilboð sem koma

Það er fallegt að horfa frá Gomera eyjunni yfir til Tenerife þar sem eldfjallið El Teide gnæfir yfir

Þau hafa alltaf farið í hópferð með íslensku ferðaskrifstofunum þegar þau hafa farið til Tenerife, segjast reyna að stökkva á tilboð sem komi.  „Þegar maður er kominn á þennan aldur er gott að hafa öryggið sem ferðaskrifstofurnar bjóða uppá“, segir Guðný.  Óskar segir gaman að sjá eitthvað nýtt. Honum hafi til dæmis þótt skemmtilegt að skoða regnskóginn á Gomera eyjunni, en hann sé eini regnskógurinn í Evrópu.  „Hann var minni en ég bjóst við og við lentum þarna í rigningu“, segir hann.  Þeim þótti líka merkilegt að á staðnum þar sem stoppað var til að borða í hádeginu, hafði þróast sérstakt flautumál, sem íbúar notuðu sín á milli hér áður fyrr, enda hægt að blístra hátt og ná þannig sambandi við fólk í grenndinni. Þetta forna mál hefur varðveist og fengu gestirnir sýnishorn af því á meðan þeir snæddu hádegisverðinn.

Voru náttúrulega gamlingjar

Þau veittu því athygli að margir ferðamannanna í kringum þau var fólk komið á efri ár. „Þetta voru náttúrulega gamlingjar má segja“, segir Óskar.  Þau segja að fólk sem sé hætt að vinna eigi auðveldara með að stökkva í svona ferðir en þeir sem enn séu í starfi.  Fólk sem er með börn í skóla eigi líka erfiðara með það og líklega sé það helsta skýringin á því að ferðamenn í eldri kantinum flykkist til Tenerife á þessum árstíma.  „Ég held að hitinn og sólin fari vel með kroppa sem eru farnir að eldast“, segir Guðný og brosir. Hún segir loftslagið á Tenerife betra en á Canary.  „Fullorðið fólk gerir mikið af þessu“, segir Óskar og finnst það segja sína sögu, að það fari margar flugvélar frá Íslandi til Tenerife í hverri viku. Stundum fari heilu fjölskyldurnar líka saman, svo sem um jól og áramót.

Höfum það afar gott hér á Íslandi

Þau Óskar og Guðný fara ekki bara til sólarlanda, því þau ferðast líka mikið um Ísland, eiga húsbíl sem þau nota til að fara um landið á sumrin.  Óskar segir að þau hafi það gott. „Ég held að við höfum það afar gott hér á Íslandi. Ef þú horfir í kringum þig sérðu að stærsti hluti heimsins hefur það verra en við. Maður forðast að hugsa um það. Foreldrar okkar höfðu það ekki jafn gott og við, það voru sárafáir sem komust í sumarfrí á þeim tímum. – En það er svo sem engin skemmtiferð að aka malarvegina á Snæfellsnesinu“, segir Óskar kankvíslega að lokum.

Ritstjórn mars 22, 2017 15:48