Leiðin frá því að hafa verið í 40 ár starfandi í íslenska heilbrigðiskerfinu sem geislafræðingur yfir í vinnu á leikskóla hlýtur að vera söguleg. Nú fer Sigrún Bjarnadóttir áhyggjulaus í vinnuna, mætir þar glöðum börnum sem gaman er að vinna með og fylgjast með þroskast og eflast og í lok dags fer hún áhyggjulaus heim. Oft svolítið þreytt en safnar kröftum fyrir næsta dag sem hún veit að geymir líka ævintýri.
Sigrún elskaði starfið sitt líka sem geislafræðingur lengst af og naut samvista við samstarfsfólk sitt. Vinnan gat verið erfið og ekki alltaf hægt að fara áhyggjulaus heim. Hún vissi sem var að næsti dagur gat líka átt eftir að vera mjög erfiður þar sem illa slasað fólk átti eftir að koma inn á spítalann. En eitt var víst að allir stóðu saman og lögðust á eitt um að hjálpa þeim veiku eða slösuðu. Og umbunin var ærin þegar vel gekk.
Ef illa gekk var álagið óbærilegt eins og við leikmennirnir getum rétt ímyndað okkur. En við getum treyst því að ef við slösumst eða veikjumst stendur fólkið í heilbrigðiskerfinu vaktina og gerir allt sem hægt er til að hjálpa okkur. Í því samhengi ber auðvitað yfirstjórn heilbrigðiskerfisins mikla ábyrgð á því að skapa fólkinu sínu góðar vinnuaðstæður.
Með norðlenskan hreim
Sigrún getur ekki leynt norðlenskum hreim sínum enda er hún fædd og uppalin á Akureyri en fór til Reykjavíkur þar sem hún nam geislafræði. Því næst flutti hún til Svíþjóðar með fjölskyldu sinni þar sem bættist við eitt barn og hún fékk vinnu sem geislafræðingur á hátæknisjúkrahúsi. Að lokinni Svíþjóðardvöl settist fjölskyldan að á Dalvík þar sem bættist við eitt barn í viðbót og Sigrún sneri reynslunni ríkari aftur til Akureyrar.
Þegar uppkomin börn hennar fluttu til Reykjavíkur til frekara náms vildi Sigrún líka flytja suður, en það var 2012. Hún fékk strax starf á Landspítalanum við fag sitt og líkaði vel og var þar starfandi til 2017.
Geislafræðingar höfðu verið í kjaradeilu og 2015 fóru þeir aftur í harða kjaradeilu sem átti eftir að enda illa og var öllum sem komu að mjög þungbær. Tuttugu geislafræðingar sögðu starfi sínu lausu en þegar átti að draga uppsagnirnar til baka áttu ekki allir afturkvæmt en Sigrún var ein þeirra þar sem henni tókst að draga uppsögnina til baka. Starfsandinn var öllu þyngri eftir þessa deilu að hennar mati. Að lokum fór það svo að krafta hennar var ekki óskað lengur á spítalanum og henni bættur skaðinn.
Viðurkennir eigin sök
“Ég viðurkenni að ég geti verið stíf á meiningu minni í baráttunni fyrir bættum vinnuaðstæðum og líka að aldrei valdi einn þá tveir deili en ég var að berjast við ofurefli sem ég réði ekki við.”
Sigrún segist skilja að það sé áskorun að reka heilbrigðiskerfi enda mikil pressa á stjórnendum að hagræða í rekstri. “Ég veit að upp til hópa er fólk í heilbrigðiskerfinu gott í grunninn og mjög hæfir einstaklingar sem þar starfa en erfiðar aðstæður breyta besta fólki,” segir Sigrún.
Bjartari tímar fram undan
Nú segir Sigrún að erfitt tímabil sé að baki og bjartari tímar fram undan. Hún nýtur þess ríkulega að vinna með ungu hreinu sálunum á leikskólanum og leggja sitt af mörkum á þeim vettvangi. Hún valdi sér stað í tilverunni sjálf og er mjög sátt í dag. “Á leikskólanum eru stjórnendur sem kunna sitt fag mjög vel og átta sig á því hvað það skiptir miklu máli að þeir, sem koma að kennslu barnanna, hafi ólíkan bakgrunn. Nú eru mín eigin barnabörn farin að fæðast og hvað er hægt að biðja um meira en heilbrigða og góða afkomendur sem taka við landinu okkar,” segir Sigrún. Og nú fylgist hún ekki bara með sínum eigin afkomendum vaxa úr grasi heldur annarra líka og nýtur þess ríkulega. Hún veit að með öllu þessu glæsilega unga fólki er landinu okkar borgið.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.