Eru jólagjafirnar handa börnunum vandamál?

Sigurveig María Ingvadóttir leikskólakennari

Sigurveig María gefur ráð

Eitt af því sem veldur flestum miklum heilabrotum fyrir jólin er hvað eigi að gefa börnunum. Allir vilja gefa nytsamar gjafir en öll viljum við líka gefa gjafir sem krakkarnir hafa gaman af. Á meðan þau eru óvitar er í lagi að gefa „mjúka pakka“ en eftir því sem þau stækka langar okkur að gefa „skemmtilegar gjafir“. Þegar táningsaldrinum er náð verða mjúku pakkarnir aftur vinsælir.

Börnunum má leiðast

Til að fá ráð leituðum við til Sigurveigar Maríu Ingvadóttur leikskólakennara en hún er deildarstjóri á leikskólanum Hagaborg þar sem hún sér um yngstu börnin eins og er. Sigurveig er fædd og uppalin á Eskifirði og þótt hún sé einungis nýskriðin inn á miðjan aldur segist hún muna vel eftir því í sláturtíðinni á haustin þegar þau krakkarnir fengu kindabein og fóru upp í fjall að leika allan daginn. „Það voru óendanlega skemmtilegir leikir sem við bjuggum til úti í náttúrunni. Líklegast er stóri vandinn núna sá að við skiljum ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið hjá krökkunum. Við erum nefnilega of mikið að passa að þeim leiðist ekki. Börnin þurfa allt of lítið að nota höfuðið og brjóta heilann. Leikföngin eru orðin of fullkomin þannig að leikirnir verða oft fyrirsjáanlegir.“

Kubbar og spil fyrir allan leikskólaaldurinn

Sigurveig segir að á leikskólunum séu mjög hugvitssamlega smíðaðir trékubbar í mismunandi formum sem krakkarnir leiki sér gífurlega mikið með. Þetta eru einingakubbar sem framleiddir voru fyrst í Bandaríkjunum. „Litlu börnunum þykir óskaplega gaman að leika með þessa kubba og þeir örva ímyndunarafl þeirra. Kubbarnir nýtast líka í stærðfræðikennslu fyrir eldri krakkana þar sem mismunandi form þjálfa þau. Þetta eru dýr leikföng sem eru ekki á allra færi að eignast en mér hefur oft dottið í hug hvað það væri sniðugt ef hagleikssmiðir á eftirlaunaaldri myndu taka sig til og framleiða svona kubba. Upprunalegu kubbarnir eru viðarlitir og það dugar krökkunum alveg. Sigurveig nefnir líka spil sem séu gífurlega vinsæl og þar segir hún að minnisspil séu til fyrir börn á öllum aldri en þau séu mjög vinsæl hjá krökkum því þar sé hægt að búa til svo skemmtilega keppni. „Við vanmetum hversu fær börn geta verið að spila spil. Spilin kenna þeim leikreglur og að stundum þurfum við að fara eftir þeim þótt okkur þyki það súrt í broti. Það er mjög þroskandi og þjálfar þau fyrir lífið.“

Verðlausa dótið mikilvægt

Sigurveig segir að dótið sem yngstu börnin hafi mest gaman af að leika sér með séu oft hlutir sem við kaupum ekki endilega tilbúna út úr búð og myndum líklega ekki gefa í jólagjafir. „Við sjáum yngstu börnin gjarnan leika sér með hluti þar sem verið er að skrúfa lokin á og af eins og bara lítið plastílát undan matvælum, t.d. LGG drykkjarílátið. Þannig dót þjálfar litla putta mjög vel og þau geta dundað sér endalaust við.“ Sigurveig ráðleggur ömmum og öfum eindregið að safna í mismunandi poka eða kassa slíku dóti. Einn kassa fyrir málmdót eins og lyklakippur, keðjur og dollur, annan fyrir plastdót, þann þriðja fyrir efni o.s.frv. í staðinn fyrr að fylla allt með tilbúnu dóti.“

Herma eftir þeim fullorðnu

„Krakkar hafa mjög gaman af að leika með dót sem líkir eftir hlutum sem þeir fullorðnu nota dags daglega,“ segir Sigurveig. „Þau eru alltaf að herma eftir því sem þau sjá okkur gera og þá eru jólagjafir eins og dót í heimiliskrók eða læknisdót tilvalið en dýrmætustu leikföngin eru samt oftast þau sem kosta ekki peninga. Þar eru leikföng þar sem við þurfum að vera með þeim dýrmætust. Þau vilja nefnilega vera með okkur að leika. Leikfangið sjálft þarf ekki að kosta svo mikið heldur er það samveran sem er dýrmætust. Þar skora bækurnar mjög hátt því þær þurfum við að lesa fyrir þau. Við vitum hvað það skiptir rosalega miklu máli að lesa fyrir börnin því málþroski barna sem lesið er fyrir er mælanlega meiri en þeirra sem njóta þess ekki að lesið sé fyrir þau. Við stuðlum auðvitað að því á leikskólum að kynna bækur fyrir börnunum en þau fá áhuga á að lesa sjlálf þegar lesið er fyrir þau og það þýðir þroski á öðrum sviðum.“

Þroskaleikföng

Litir og föndurdót segir Sigurveig að séu sígildar gjafir sem stuðli að skapandi hugsun. Púsl og spil séu líka gjafir í þeim flokki. „Svo má ekki gleyma þætti tónlistarinnar. Þar er af nógu að taka og sem dæmi má nefna stórskemmtilegan disk þar sem Sórsveit Reykjavíkur spilaði  Pétur og úlfinn á disk sem fylgir bókinni með textanum. Þar er til dæmist góð hugmynd að jólagjöf sem bæði börn og fullorðnir geta  notið saman. Að lokum nefnir Sigurveig alls konar púða sem börnum þykir gaman að hnoðast á en minnir á að við ættum öll að varast ofgnóttina af drasli sem hefur engan tilgang en kostar bara peninga. Sigurveig eignaðist nýverið dótturson sem hún ætlar að gefa harðspjaldabók sem foreldrarnir og amma og afi geta lesið fyrir hann.

 

 

Ritstjórn desember 5, 2017 00:31