Gengið aftur á Kötluslóðum

Nú þegar landsmenn eru nýbúnir að horfa á Netflix-seríuna Kötlu eftir Baltasar Kormák er ekki úr vegi að rifja upp nokkrar áhugaverðar gönguleiðir í nágrenni eldfjallsins sem sefur værum blundi undir Mýrdalsjökli.

Gera má ráð fyrir því að flestir vilji vera fótgangandi á svæðinu eftir að hafa horft á þessa fallegu sjónvarpsþætti. Og þeir sem hafa gengið um þetta svæði áður fara nú aftur í göngur.

Nokkrar léttar afturgöngur

Best er að byrja í Vík í Mýrdal. Vík er syðsti bær landsins og stendur við miðju Kötlujarðvangs. Hann er eina sjávarþorpið á Íslandi sem aldrei hafði höfn. En þrátt fyrir hafnleysu sóttu heimamenn sjóinn til fiskveiða og vöruflutninga allt fram á miðja tuttugustu öld — enda harðduglegir að eðlisfari.

Frægasta kennileiti Víkur er án efa Reynisdrangar. Þeir blasa við frá bænum, fram undan Reynisfjalli. Auðvelt er að ganga í Víkurfjöru úr bænum, en þangað er aðeins snertispölur. Boðið er upp á reiðtúra í fjörunni sem er sannarlega ógleymanleg upplifun.

Reynisfjara er einnig frægt kennileiti ásamt Dyrhólaey, en Reynisfjall byrgir sýn úr bænum; fjallið gengur í sjó fram milli Reynisfjöru og Víkur. Ferðalangar þurfa því að aka yfir fjallið til að sjá Reynisfjöru og Dyrhólaósa. Einnig má ganga úr bænum upp á Reynisfjall og njóta útsýnisins þaðan yfir Atlantshaf, Reynisdranga og brött fuglabjörgin. Leiðin er stikuð með gulum merkingum og hefst við Víkurbraut.

Hringvegurinn liggur yfir Reynisfjall innarlega en rætt hefur verið um að færa veginn nær sjónum og leggja hann um Reynishverfi og gera jarðgöng gegnum Reynisfjall. Þessi áform hafa aldrei náð fram að ganga en minna óneitanlega á Almannaskarð við Höfn í Hornafirði.

Ein gönguleið — og kannski sú algengasta — hefst aftan við Víkurkirkju, þar sem lögreglan hafði bækistöð í Netflix-þáttaröðinni. Þessi leið liggur upp á Höttu, hæsta fjall Mýrdalshrepps. Þaðan er fallegt útsýni yfir Heiðardal og Mýrdalsjökul til norðurs.

Þakgil og Herjólfshöfði

Frá Þakgili. Mynd: Kaspars Dzenis.

Frá Vík í Mýrdal er auðvelt að fara í fjórhjólaferðir á Sólheimasand, jöklagöngur á Sólheimajökli og kajakferðir eru einnig í boði á lóni jökulsins. Þá er boðið upp á vélsleðaferðir á sjálfri jökulbreiðunni og íshellaferðir allan ársins hring.

En svo við höldum okkur við afturgöngurnar, þá má ekki gleyma Þakgili sem liggur svo að segja undir Kötlurótum. Þaðan eru þrjár skipulegar gönguleiðir, Remundargil (12,5 km), Austurafréttur (17 km) og Höfðabrekkuheiðar (11 km). Þær eru mislangar og miserfiðar, Austurafréttur einna lengst og tekur 6–8 klukkustundir, enda er hækkun á þeirri leið um 600 metrar.

Fært er öllum bílum inn í Þakgil, en vegurinn er þó lokaður yfir vetrartímann. Ekið er frá þjóðvegi 1 um Kerlingardalsveg (nr. 214) og sem leið liggur inn á heiðarnar.

Þá má heldur ekki gleyma Herjólfshöfða nokkru austar, en honum bregður einmitt fyrir í þáttaröðinni. Þetta staka móbergsfjall er 222m á hæð, hömrum gyrt en vel gróið að ofan. Vinsældir þessarar gönguleiðar hafa aukist mjög á seinustu árum enda er útsýni frá höfðanum óviðjafnanlegt.

Ef svo illa vill til að Katla spýi eldi og eimyrju á meðan þú vafrar um svæðið skaltu taka til fótanna.

Ritstjórn júlí 5, 2021 09:29