Meira en bara sól og sjór

Benidorm hvílir eins og marglitur gimsteinn á Hvítuströnd eða Costa Blanca Spánar. Þar má finna gylltar strendur, dásamlegar máltíðir og eitthvað áhugavert að hafast að fyrir fólk á öllum aldri.

Það er óhætt að fullyrða að stór hluti Íslendinga sem fæddust fyrir 1990 þekki Benidorm og hafi jafnvel komið þangað. Þessi einstaklega fallega og líflega strandborg á suðausturodda Spánar hefur um áratuga skeið verið draumaáfangastaður þeirra sem njóta þess að sleikja sólina, synda í volgum sjó, fá fylli sína af góðum mat og drykk og endurnærast á sál og líkama.

Benidorm þróaðist á tuttugustu öldinni úr því að vera fiskiþorp og yfir í að vera  einn vinsælasti sumarleyfisáfangastaður Spánverja en það var á sjöunda áratugnum sem ákveðið var að markaðssetja borgina fyrir erlenda ferðamenn líka. Og ekki furða því Benidorm hefur ýmislegt upp á að bjóða fyrir ferðalanga, hvort sem þeir leita að sól og sjó eða skemmtilegum útivistarmöguleikum.

Sól og sjór

Loftslagið á Benidorm er einkar ljúft en þar skin sólin 300 daga á ári. Hitastigið er kringum 28 gráður á sumrin og 16 yfir háveturinn. Besti tíminn til að heimsækja Benidorm er því á vorin og haustin þegar hitinn er í kringum 24 gráður. Haustin eru einkar góður tími því þá hefur sjórinn verið að hitna allt sumarið. Strandlengjan er tæpir sex kílómetrar og eru tvær aðalstrendur og svo er auðvelt að finna minni og fáfarnari staði til að njóta solar og sjávar ef óskað er.  Stóru strendurnar tvær eru mjög ólíkar og þjóna ólíkum hópum fólks. Playa Levante eða Levante ströndin er krökk af ferðamönnum enda eru flest hótelin aðeins spölkorn þaðan. Þar liggur göngugata meðfram strandlengjunni þar sem má finna veitingastaði af öllum stærðum og gerðum, bari og verslanir en aðal verslunargata borgarinnar er aðeins ofar. Á ströndinni er hægt að leigja bekki og sólhlífar, stutt er í næsta bjór og snarl og svo er líka hægt að leggja stund á allskyns vatnaíþróttir.

Á Poniente ströndinni sem er hinum megin við höfða þar sem meðal annars má líta kastalarústir og einstakt útsýni er aftur athvarf íbúanna sjálfra. Þar strandlengjan breiðari, minna um bari og veitingahús en afbragðskaffihús á stangli og hægt að vera meira út af fyrir sig. Þannig er hægt að finna strandlíf við flestra hæfi en það er þó fjarri því það eina sem Benidorm býður upp á.

Háhýsi á heimsmælikvarða

Benidorm býður áhugafólki um arkitektúr upp á ýmsa fjársjóði. Það eru fleiri háhýsi í Benidorm en nokkurri annarari spænskri borg miðað við höfðatölu og sumir segja borgina minna á bandarískar borgir eins og Manhattan eða Miami.  Þegar borgin var í byggingu var tekin meðvituð ákvörðun um að byggja frekar upp á við, bæði til að setja ákveðinn nútímabrag á borgina en líka af hagrænum ástæðum, borgin liggur í klettóttu landslagi þar sem erfitt gæti reynst að leyfa byggðinni að dreifa sér um fleiri kílómetra. Flest háhýsin á strandlengjunni eru íbúðarhús en ekki hotel og íbúar Benidorm halda því fram að háhýsin séu umhverfisvænni en lágreist byggð. Háhýsin vekja þó helst athygli fyrir sérstakan og fallegan arkitektúr sem er bæði frumlegur og heillandi og gaman að skoða, bæði í návígi en líka í útsýnisferðum þar sem borgin blasir við í allri sinni dýrð.

Aðgengileg og umhverfisvæn

Benidorm fór ekki varhluta af heimsfaraldrinum en yfirvöld notuðu tímann til að gera endurbætur á innviðum og þróa aðgerðir til umhverfisverndar. Þar sem Benidorm er einn fjölsóttasti strandleyfisstaður fólks á öllum aldri í heimi hefur verið lögð mikil áhersla á að hafa bæði strendur, göngugötur, hotel og veitingastaði með góðu aðgengi. Nánari upplýsingar um það má til dæmis finna hér https://www.disabledholidays.com/search/europe-l27/spain-l38/costa-blanca-l145/benidorm-l189/ og hér https://www.max-tourism.com/benidorm-a-sustainable-city-covered-with-enchanting-natural-spaces/. Þá er líka rík áhersla á umhverfisvernd í borginni með því meðal annars að draga úr og hægja verulega á bílaumferð en talið er að um 70% ferða um borgina séu farnar með öðrum ferðamáta en bíl. Einnig er rík meðvitund um vatnsnotkun og vatn endurnýtt á skynsamlegan hátt. Þá sagði borgin matarsóun stríð á hendur og ýmislegt annað hefur verið gert til að auka umhverfismeðvitund og draga úr umhverfisáhrifum frá ferðamannaiðnaðinum.

Hjólreiðar á heimsmælikvarða

Það er ýmislegt hægt að gera sér til dundurs þegar strönd og hanastéljum sleppir. Benidorm státar af golfvöllum á heimsmælikvarða sem raða sér kringum borgina og einnig er hægt að fara í vínsmökkun á úrvals vínekrur þar sem víngerð er útskýrð allt frá þrúgu, gegnum í eikartunnu og í glas og lýkur á því að pöruð eru saman gæðavín af ýmsum gerðum og allskyns lostæti úr héraði. Hægt er að leigja jeppa og leiðsögumann og fara í jeppaferð um fjallgarðinn kringum borgina og njóta stórkostlegs útsýnis. Þau sem vilja upplifa náttúruna í meira návígi geta leigt sér rafmagnshjól og hjólað um borgina og upp fjallastíga sem taka við þegar Levante ströndinni sleppir eða til nærliggjandi smábæja. Þau sem þurfa aðeins meira krefjandi hjólahreyfingu þurfa ekki að örvænta, Benidorm er víðfræg fyrir hjólreiðar en fjöldi keppnishjólreiðafólks hvaðanæva að úr heiminum æfir íþrótt sína í hlíðunum í kring enda aðstæður afar góðar og lítið mál að útvega sér hjól sem gengur fyrir eigin vélarafli þess sem það situr.

Ævintýraeyjan

Þegar flatmagað er á ströndinni ber eyju fyrir augu sem rís úr hafinu. Þangað er kjörið að taka sér far með báti sem siglir meðfram strandlengjunni áður en hann snýr til eyjarinnar. Hægt er að ganga upp á efsta odda hennar eftir skemmtilegum stígum þar sem gæfir mávar horfa forvitnir á gesti sína og njóta fallegs útsýnis af borginni eða staldra við á kaffihúsinu og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Börnin í Benidorm þekkja öll sögu af risa í fjöllunum sem var ástfanginn af stúlku sem bjó við ströndina og til að sjá hana betur  hjó hann  stykki úr fjallinu með sverðinu sínu og fleygði því út í sjó. Skarðið má glöggt sjá í fjallinu enn þann dag í dag og stykkið sem hann hjó úr varð að eyjunni undan ströndinni.

Krossinn og bikiníið

Eins og áður sagði hefur Benidorm verið ferðamannastaður síðan á sjöunda áratugnum og brautryðjandi í ýmsu tilliti. Má þar nefna að borgin var fyrsti staðurinn á hinu rammkaþólska Spáni til að leyfa konum að sóla sig á ströndinni í bikini. Sagan segir að borgarstjórinn hafi tekið eftir því að ferðamönnum fór fækkandi, einkum þó norðurlandabúum og þegar hann innti eftir ástæðu var honum tjáð að konurnar vildu vera í bikini og færu þangað sem það væri leyfilegt. Borgarstjórinn gekk á fund Franco sem þá var einræðisherra Spánar og bar sig aumlega og fékk hann til að leyfa þennan glæfralega sundfatnað á ströndum Benidorm og voru það fyrstu en langt frá því síðustu bikiníin sem heimsóttu Spán. Þetta átti þó eftir að draga dilk á eftir sér því sumir íbúar Benidorm voru ekki par ánægðir með þessa siðspillingu og óttuðust mjög afleiðingarnar. Til að bæta fyrir bikiníin brugðu heimamenn á það ráð að láta smíða fallegan og nokkuð stóran kross og ganga með hann táknrænni píslargöngu frá kirkjum dýrlinga Benidorm, heilagrar Önu og heilags Jamie, og upp á fjall við ströndina. Krossinn var reistur þar og gnæfir nú yfir borginni, upplýstur á kvöldin, til mótvægis við holdið og lífsins lystisemdir við ströndina.

Já Benidorm er ekki öll þar sem hún er séð.

Að lokum má mæla með nokkrum frábærum veitingastöðum í miðborg Benidorm sem bjóða upp á spænska þjóðarrétti sem lifa í bragðminni þeirra sem smakkað hafa.

Urban Beach Gastrobar (https://urbanbeachbenidorm.com/) er á Levante ströndinni og býður upp á skemmtilegan fusion matseðil sem er samt spænskur í grunninn og nýtir vel hráefni úr nágrenninu.

Ef einhvern langar í afbragðsgóða paellu má hiklaust mæla með La posada del mar sem er staðsettur rétt við Balco de Mediterraneo, fallegum útsýnisstað við sjóinn milli strandanna tveggja.

La Senoria er lítill fjölskyldurekinn veitingastaður á Senoria torgi sem er bara með einn rétt á matseðlinum, ómótstæðilegan hrísgrjónarétt sem kallast arroz con bogavante.

Fimm stjörnu veitingastaðurinn Llum de mar á Villa Venecia hótelinu er ansi dýr en ef folk setur slíkt ekki fyrir sig er hægt að fá þar margréttaða veislu skreytta listaverkum úr kolkrabbableki og undursamleg vín með.

Maturinn á nýuppgerðu Barceló hótelinu á Levante ströndinni er einnig sérstaklega góður og þar má líka njóta sólsetursins á þakbarnum sem er sérdeilis auðvelt að mæla með.

Brynhildur Björnsdóttir blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

 

Ritstjórn nóvember 12, 2023 07:00