Gengið um slóðir Silla og Valda í Reykjavík

Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna ugglaust eftir Silla og Valda og slagorðinu – „af ávöxtunum skulu þjer þekkja þá.“ Borgarsögusafnið býður upp á göngu þar sem hægt er að rifja upp þessa tíma.

Helga Maureen Gylfadóttir sagnfræðingur leiðir gönguna sem verður farin  fimmtudaginn 30. júní kl. 20. Hún hefst við Aðalstræti 10 kl. 20 og er öllum velkomin. Gengið verður um slóðir Silla og Valda í miðbæ Reykjavíkur og saga verslunarveldis þeirra rakin.

Ein þekktasta verslun sem starfrækt hefur verið í Aðalstræti 10 var nýlenduvöruverslun Silla &Valda á árunum 1927-1975. Verslunina ráku félagarnir Sigurliði Kristjánsson (1901-1972) og Valdimar Þórðarson (1905-1981) en þeir voru umsvifamiklir kaupmenn og ráku auk þess um tíma 10 aðrar verslanir víðsvegar í Reykjavík. Þeir áttu einnig fjölda eigna, meðal annars í Grjótaþorpinu en auk þess reistu þeir verslunarhúsnæði í Austurstræti 17 árið 1964 og Glæsibæ árið 1972

Silli og Valdi voru báðir mótaðir af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í uppvexti og töldu að öflug innlend verslun og þjónusta væri samfélaginu nauðsynleg. Þeir voru mjög samhentir í starfi, unnu mikið en voru ekkert að slá um sig. Þeir urðu snemma þekktir fyrir nýstárlegar auglýsingar sínar í blöðum og kjörorð þeirra Af ávöxtunum skulu þjer þekkja þá varð landsfrægt.

Kvöldgöngur eru viðburðaröð sem Borgarsögusafn, Borgarbókasafn og Listasafn Reykjavíkur standa fyrir. Göngurnar fara fram á fimmtudagskvöldum yfir sumarmánuðina. Upplýsingar um allar göngurnar er að finna á borginokkar.is og á Facebooksíðunni, Kvöldgöngur.

Helga Maureen

Ritstjórn júní 29, 2022 15:16