Gengið útfrá að eldri borgarar hafi gaman af harmóníkutónlist

Tónlistarsmekkur eldra fólks breytist með kynslóðum, rétt eins og fatatíska og ýmislegt annað. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur setti inn þessa færslu á Facebook.

Í morgun barst til mín í pósti myndskreyttur bæklingur, 16 blaðsíður, frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar með upplýsingum um þjónustu fyrir eldri borgara sem er góðra gjalda vert. Það fór hins vegar dálítið í taugarnar á mér, sem er að verða 75 ára, að í bæklingnum eru þrjár myndir – hvorki fleiri né færrri – af mönnum að spila á harmoníku. Það virðist vera alveg föst staðalmynd af eldri borgurum að þeir hafi óskaplega gaman af harmoníkutónlist sem ég held að hljóti að vera alrangt varðandi meirihluta eldri borgara nú til dags – þó að það kunni einhvern tíma að hafa verið staðreynd. Ég leyfi mér að benda á að þeir sem eru nú um áttrætt eru rokkkynslóðin. Elvis Presley og Little Richard voru þeirra ídól. Og við sem erum eilítið yngri af eldri borgurum, svona um sjötugt og þar yfir, ólumst upp við Bítlana, Rolling Stones og Bob Dylan. Við höfum bara ekkert sérstaklega gaman af gamaldags harmoníkuspili – því miður. Svo kann að vera að við höfum mestan áhuga á því sem er efst á baugi í tónlistinni núna – rétt eins og hverjir aðrir. Ég hlýt því að álykta að þarna séu fordómar gagnvart eldri borgurum vaðandi uppi. Og hananú.

Fjöldi fólks hefur sett athugasemdir við færsluna hjá Guðjóni og þar kennir ýmissa grasa. Hérna eru fjögur dæmi

Er svo heppin að búa ekki í Reykjavík og hef þar af leiðandi ekki fengið þennan uppbyggilega bækling. Harmónikka er alls góðs makleg, sérstaklega ef menn eru fyrir gömlu dansana😉 en annars tek ég undir það sem fram kemur í pistlinum. Þeir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar þurfa að lesa betur kynslóðirnar.

Þetta eru tímabær skrif Guðjón. Ég verð sjötug í sumar og er rokkari í eðli mínu. Þessar staðalímyndir eru gersamlega út úr kú. Upphlutirog fléttur, harmónikkur og axlabönd. Common🤪 Ég ferðast um víða veröld til að fara á rokktónleika og með Bítlalógóið tattóverað á handlegginn á mér. Mér finnst þessar myndir eins og einn stór brandari

Harmonikan er fjölbreytt hljóðfæri það eru bæði ungir og aldnir sem spila á þetta hljóðfæri bæði rokkk, djass , klasiska hljómlist. Við eigum marga unga frábæra harmonikuleikara sem við getum verið stolt af.

Reynir harmonikkuleikari er náttúrukega rokkari af guðs náð… með tagl og allt… 

Fyrir hverra hönd talar þú? Ég spila á harmoniku, áttræður. Og kallarðu leik Reynis Jónassonar gamaldags? Og hvað með kórinn? Hefurðu gaman af söng gamalmenna?

Og Guðjón svarar þessu síðasta kommenti á þessa leið.

Harmoníkan er flott hljóðfæri. Tel hana bara ekkert frekar einkennandi fyrir okkar kynslóðir sem nú eru komin á efri ár en yngri kynslóðir eins og látið er að liggja í umræddum bæklingi og sýknt og heilagt. Og ég hef gaman af góðum kórsöng, punktur basta.

Hér fyrir neðan er svo mynd af umræddum bæklingi.

Ritstjórn febrúar 10, 2020 13:43