Húsin hans Guðjóns Friðrikssonar

Guðjón Friðriksson er ótrúlega afkastamikill rithöfundur og alþýðufræðari

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og rithöfundur hefur síðustu tvö árin birt 160 myndir af húsum á Facebook, ásamt upplýsingum um byggingu þeirra og fólkið sem þar bjó.  Hann segir að upphaflega hafi hann fengið þá hugdettu að segja frá húsunum á Facebook en hafi ekki hugsað sér þá, að þetta yrði jafn umfangsmikið og orðið er.  Hann segir að sig hafi langað að vera með eitthvað jákvætt á Facebook, þar sem mikið væri um nöldur og neikvæðni á netinu. „Ég fékk svo góðar viðtökur og var svo ánægður með lækin að það hefur orðið til þess að ég hef haldið þessu áfram“, segir hann hlæjandi. Guðjón hefur sent frá sér hverja bókina á fætur annarri síðustu árin, stór og mikil verk. Þegar blaðamaður Lifðu núna hafði orð á því að þetta væru ótrúleg afköst og við bættust húsapistlanir sagðist hann hafa haft það sem áhugamál lengi, að taka myndir af húsum í Reykjavík og ætti myndirnar því til, en hann hefur tekið nánast allar húsamyndirnar sem hann setur á netið. Guðjón ferðaðist innanlands í sumar, eins og svo margir og notaði þá tækifærið til að mynda hús á þeim stöðum þar sem hann kom.  Hann hefur veitt Lifðu núna leyfi til að deila nokkrum húsapistlum með lesendum vefsins og verða þeir birtir vikulega á næstunni. Hér fyrir neðan er frásögn Guðjóns um húsið.

Hús dagsins (143). Hamragarðar Hávallagötu 24 í Reykjavík. Hér er um að ræða býsna sögufrægt hús því það var reist sérstaklega fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu, einhvern eftirminnilegasta stjórnmálamann 20. aldar á Íslandi. Það var Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) sem stóð fyrir byggingu hússins og var það hugsað sem skólastjórabústaður en Jónas stofnaði Samvinnuskólann og var skólastjóri hans allt til ársins 1955 auk þess að vera einn helsti hugmyndafræðingur samvinnuhreyfingarinnar. Augljóslega hefði SÍS ekki byggt slíkan glæsibústað fyrir hvaða skólastjóra sem var enda mun Jónasi hafa verið boðið húsið að gjöf að einhverju leyti þegar hann lét af skólastjórastarfinu en hann þáði ekki. Jónas og Guðrún Stefánsdóttir kona hans fluttu í húsið 1941 og bjuggu þar til dauðadags en hún dó 1963 og hann 1968. Arkitekt að húsinu, sem er í eins konar herragarðsstíl var enginn annar en Guðjón Samúelsson en þeir Jónas voru einkavinir. Eftir daga Jónasar voru Hamragarðar um tíma félagsheimili samvinnumanna en komst í eigu Búseta árið 1993 sem hafði skrifstofur hér og síðar Búmenn frá 1998. Í 17 ár bjuggu hjónin Ritva Jouhki og Reynir Ingibjartsson í húsinu en hann var lengi potturinn og pannan í félagsstarfi samvinnumanna og forystumaður í Búseta og Búmönnum. Árið 1999 keypti Elvar Aðalsteinsson frá Esikifirði Hamragarða en seldi það svo aftur árið 2002 Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og konu hans Valgerði Ólafsdóttur meinatækni og félagsfræðingi. Bjuggu þau þar til 2011 en síðan hefur það verið í eigu hjónanna og lögmannanna Sigrúnar Benediktsdóttur og Ingólfs Friðjónssonar.

Ritstjórn október 18, 2020 12:10