„Það er aldrei of seint að byrja á að ganga um fjöll og firnindi,“ sagði fararstjórinn og lífskúnsterinn Sigrún Valbergsdóttir, þegar Lifðu núna hafði upp á henni í Grímsey. Þar var hún að leiðsegja hópi af þýskum ferðamönnum. Sigrún er þrautreyndur fararstjóri, innan lands og utan og hefur starfað sem slíkur í 20 ár. Hún er varaforseti Ferðafélags Íslands og formaður ferðanefndar félagsins. Þetta er kona sem þekkir Ísland betur en margur annar, hefur ferðast um landið þvert og endilangt.
Andlega úthaldið mikilvægast
„Ég er búin að vera í gönguferðum svo lengi að ég er í miklu betra formi nú en þegar ég var fertug. Þeir sem byrja í alvöru gönguferðum 30 til 40 ára og halda þeim áfram, halda þrekinu fram á níræðisaldurinn séu þeir frískir á annað borð. Fólk lærir á líkamann og hvað sé hægt að bjóða honum og andlega úthaldið eykst með tímanum,“ segir hún og bætir við að í lengri gönguferðum sé það andlega úthaldið sem skipti mestu máli. „Það sem breytist kannski einna helst með hækkandi aldri er að fólk fer síður í margra daga göngur með allt á bakinu.“
Góður undirbúningur mikilvægur
„Áður en haldið er í göngu þarf að undirbúa sálina, skoða hversu mikil hækkunin er á gönguleiðinni, hvort þar séu farartálmar svo sem ár sem þarf að vaða eða klettar sem þarf að klöngrast upp eða niður. Gangan verður auðveldari þegar maður veit á hverju er von.“ Hún segir að þeir sem séu komnir á miðjan aldur og séu að byrja að ganga hafi mestar áhyggjur af því að þeir verði dragbítar. „Fólk hefur mestar áhyggjur af því að það haldi ekki í við hópinn og dragist aftur úr. En í gönguferðum fer hver á sínum hraða og það er beðið eftir þeim sem fer síðastur. Gönguferðir eru ekki kappganga. Ef fólk ætlar að vera í einhverju kapphlaupi við tímann á það ekkert erindi í göngu með öðru fólki. Gönguferðir snúast um að upplifa náttúruna, fræðast um jarðfræði og merka staði. Slíkt gerir fólk ekki á hlaupum.“
Skór og stafir
Sigrún segist ráðleggja öllum að huga vel að vali á skóm áður en haldið er til fjalla. Það skipti miklu máli að vera vel búinn til fótanna í góðum gönguskóm. „Ætli ég gangi ekki svona um það bil 500 kílómetra á hverju sumri og skórnir mínir endast í svona 2000 kílómetra,“ segir hún hlæjandi. „Það er komin tími til að endurnýja þá sem ég á núna,“ bætir hún við. „Það er líka gott að eiga göngustafi. Jafnvægið riðlast aðeins með aldrinum og þá er gott að hafa stafina. Stafirnir létta líka álagi af hnjánum þegar gengið er niður brekkur og þeir koma að góðum notum þegar þarf að stikla yfir ársprænur eða læki.“
Á eftir að heimsækja Öskju
Eins og áður sagði er Sigrún víðförul kona. Þegar hún er beðin um að nefna uppáhaldsstaðina sína segir hún að það sé nú eins og að biðja einhvern um að gera upp á milli barnanna sinna. „Það eru svo margir staðir sem koma upp í hugann. Ég get nefnt Arnvarvatnsheiði, Svarfaðadal, Krepputungur. En sennilega er gýgurinn Hallmundur í stöllum Langjökuls suður af Fljótsdrögum í Húnavatnssýslu mesta upplifunin. En ætli séu einhverjir staðir sem Sigrún á ókannaða. „Já, ég hef aldrei komið að Öskju eða í Dyngjufjöll. Ég kemst ekki þangað í sumar en stefni á að komast þangað síðar. Það er gott að eiga eitthvað eftir,“ segir Sigrún að lokum.