Gerir sér ekki grein fyrir aldri fólks

Íris Hafsteinsdóttir

Íris Hafsteinsdóttir

Hreinsunin Snögg í Suðurveri í Reykjavík veitir öllum eldri borgurum 20% afslátt af þjónustu sinni. Íris Hafsteinsdóttir, eigandi hreinsunarinnar segir að þetta sé aðallega tilkomið vegna þess að eldra fólk hafi minna á milli handanna en aðrir. Þeir eru hins vegar ekki þeir einu sem fá afslátt hjá Snögg, því starfsmenn stórfyrirtækja og fastir viðskiptavinir eru einnig með afsláttarkjör. „Eldra fólk notar þetta ótrúlega mikið“, segir Íris. „Það les greinilega bæklinginn um afsláttarkjör eldri borgara, því það veit vel af þessu“.

Allir eldri borgarar fá afslátt

Íris segir algengast að fólk láti hreinsa og pressa buxur, jakka og svo skyrtur. Ef menn setja fimm skyrtur eða fleiri í hreinsunina kostar það 450 krónur á almennu tilboði, en ef ein skyrta er sett í hreinsum kostar það 520 krónur með eldri borgara afslætti. Íris segir að allir eldri borgarar fái afslátt í hreinsuninni, ekki eingöngu þeir sem eru í Félagi eldri borgara. „Við höfum ekki verið sérstaklega ströng á þessu“, segir hún.

Sumir 65 ára líta út eins og 55 ára

En menn verða að bera sig sjálfir eftir afslættinum og fyrir því er ákveðin ástæða. „Maður gerir sér enga grein fyrir aldri fólks. Sumir sem eru 65 ára líta út fyrir að vera 55 ára. Það getur verið pínlegt að spyrja fólk hvort það sé komið í hóp eldri borgara, ef það er kannski yngra en maður heldur“, segir Íris að lokum.

Ritstjórn október 29, 2015 10:16