Getur verið að þú sért fermingarsystir mín?

Jenný gleymir sér í spjalli við farþegana heilu kvöldin

Jenný Ólafsdóttir, farastjóri hjá Úrval Útsýn fór með sinn fyrsta hóp til Benedorm fyrir rúmlega áratug síðan, í kjölfar þess að hafa kennt eldri borgurum leikfimi og dans. Hún fór síðan með nánast sama hópinn út á hverju ári í 10 ár.  „Fólk fer þangað sem því líkar vel og það snýst ekkert um aldur“, segir Jenný. „ Sumir fara alltaf í skíðaferð á sama staðinn, aðrir fara í sumarbústaðinn sinn árum saman. Á Benedorm mynduðust sterk tengsl milli fólks. „Benedorm hópurinn minn er mjög samheldinn og hittist reglulega hér heima, bæði stærri og minni hópar. Þetta er mjög skemmtilegt fólk“, segir Jenný.

Hresst og lífsglatt fólk

Jenný fer tvisvar á þessu ári með eldri borgara í sól og sumar á Spáni. Á vorin er farið til Benidorm og á þessu ári verður í fyrsta sinn boðið uppá Kanaríferð í október, en ferðirnar hafa yfirleitt verið farnar fyrr á haustin. Hún segir að fólkið sem ferðist með sér, sé yfirleitt milli sjötugs og áttræðs, en svo sé bæði yngra og eldra fólk í hópnum. „Það er opið, hresst og lífsglatt fólk sem fer í svona ferðir og það kann virkilega að njóta þess að vera til. Við njótum þess að vera saman og gera eitthvað skemmtilegt, en fólk fær líka að vera útaf fyrir sig.  Ég kalla þessar ferðir heilsueflingarferðir á líkama og sál“.

Þrír voru frá Aðalvík á Ströndum

„Flestir  sem fara í hópferðir sækjast eftir félagsskap. Menn spjalla og rifja upp gamla tíma. Á kynningarfundum kynna menn sig með nafni og segja hvaðan þeir eru. Síðast kom í ljós að þarna voru þrír frá Aðalvík á Ströndum. Fólk hefur mjög gaman af þessu“, segir Jenný.  Hún býður meðal annars uppá leikfimi, göngur, félagsvist, minigolf, strandferðir og menningarferðir, bæði í strætó og með lest. Hún segir þó fólkið sé almennt frískt,  sé það misjafnlega á sig komið, en menn verði að treysta sér í ferðina, þar sem ekki er boðið uppá umönnun. En þeir sem vilji fara sér hægar, geti gert það og litið inná veitingastaði eða söfn, á meðan aðrir gangi lengri leiðir. „Það er eitthvað í boði alla daga, en fólki er frjálst að velja hvað það gerir“.

Flestir þekkja sín takmörk

Jenný segir að menn séu yfirleitt búnir að undirbúa sig vel áður en lagt sé af stað. „Flestir þekkja sín takmörk en ég brýni fyrir fólki að fara ekki lengra en líkaminn leyfir. Það er gengið á hverjum degi og ég sé að þeir sem byrja á annað borð að ganga, halda því áfram.  Fólk veit yfirleitt hvað það getur og hvað ekki. Það er rétt að ítreka það að menn eru ekki skyldugir til að taka þátt í því sem boðið er uppá, þetta er algerlega val hvers og eins“, segir hún. Varðandi það hvort það sé meiri hætta á óhöppum í ferðum fyrir eldra fólk segir Jenný  „Ef eitthvað kemur uppá í þessum ferðum, er það eitthvað ófyrirsjáanlegt og getur þá alveg eins gerst, hvort sem menn eru tvítugir eða níræðir“.

Fólk kynnist og eignast nýja vini

Það er ekki bara hjónafólk sem ferðast með Jenný.  Stundum eru það ferðafélagar eða einstaklingar. „Strákarnir eru ekki jafn duglegir að koma tveir og tveir saman, og stelpurnar“, segir hún og bætir við að sumir séu einmana, makinn kannski fallinn frá og vinirnir dánir. „En fólk hittist í þessum ferðum og kynnist, eignast nýja vini. Fólk fer saman í bæinn, borðar saman og spjallar. Svo eru það ættartengslin og tengslin í okkar litla samfélagi. Menn segja kannski „Ert þú Sigríður? Getur verið að þú sért fermingarsystir mín? Þetta er svo skemmtilegt og lífsglatt fólk að ég gleymi mér á spjalli við þau heilu kvöldin. Ég fæ svo mikinn fróðleik og mikla næringu frá þeim“, segir Jenný.

 

Ritstjórn ágúst 1, 2017 10:30