Getur verið lífshættulegt að vera í leshring?

„Mér finnst sjálfur glæpurinn ekki áhugaverður, ég er ekki ofbeldisdýrkandi“ segir Guðrún Guðlaugasdóttir rithöfundur, þegar Lifðu núna bankar uppá dyrnar hjá henni til að ræða við hana um nýju bókina hennar Morðið í leshringnum en Guðrún hefur áður sent frá sér þrjár glæpasögur. „Það sem er forvitnilegt, er að skoða hvernig á því stóð að glæpurinn var framinn. Hvað verður til þess að einhver tekur þá ákvörðun að koma annarri manneskju fyrir kattarnef? Og hvað hefur sá sem var myrtur gert?“ veltir hún fyrir sér.

Það er rólegt í eldhúsinu hjá Guðrúnu í Kópavoginum, þar sem hún býður uppá kaffi og croissant, auk stórrar tertu úr Costco.  En það er í bókunum hennar fjórum sem hlutirnir gerast.  Fyrsta bókin heitir Beinahúsið, önnur Blaðamaður deyr og sú þriðja Dauðinn í opna salnum. Morðið í leshringnum er svo fjórða bókin í þessari ritröð, þar sem blaðamaðurinn Alma glímir við að leysa morðgátur. Það er ekki tilviljun að Alma er blaðamaður, því þann heim þekkir Guðrún eftir áratuga starf á þeim vettvangi.

„Konurnar í leshringnum sem bókin fjallar um, eru að lesa um mikilfengleg örlög og píslarvætti kvenna og fara saman á kyrrðardaga í Skálholti. Þangað fara líka Alma blaðamaður og trúnaðarvinkona hennar Sveinbjörg, sem er áhugakona um kirkju og kyrrð. Ein kvennanna í leshringnum, Kamilla von Adelbert, hefur beðið Ölmu að skrifa ævisögu sína. Undarlegir atburðir verða í Skálholti og þar hefst leikurinn“, segir Guðrún og við grípum niður í upphafskafla bókarinnar, þar sem Alma og Kamilla ræða saman um ævisöguna og það kemur strax fram að Kamilla hugsar sér að fletta ofan af ýmsu sem hefur, að hennar mati, legið  alltof lengi í þagnargildi. Alma spyr hvort hún sé búin að fá útgefanda.

Auðvitað fáum við útgefanda. Ég hef ótrúlega margt að segja. Þú veist það kannski ekki að mamma mín giftist þýskum baróni. Þá var ég á fyrsta ári. Ég vissi ekki betur en hann væri faðir minn. Það kom mér algjörlega á óvart þegar mér var sagt að hann væri aðeins kjörfaðir minn. Það tók mig langan tíma að finna út hver minn raunverulegi faðir er. En ég veit það núna, það er saga sem kemur seinna. Ég vil að hið sanna komi í ljós. Líka hvernig farið var með móður mína og mig eftir að ég fæddist.

Hefði mamma ekki kynnst Hans Adolf von Adelbert veit ég ekki hvernig þetta hefði endað. Hann kom hingað til Íslands fullur af hugmyndum um hreinleika íslenska kynstofnsins. Mamma mín var alltaf kölluð Milla. Hún var mjög falleg, næstum hvíthærð og bláeygð, grönn og spengileg. Hún var ótrúlega glæsileg ung stúlka“ sagði Kamilla og dró fram mynd úr búnka á borðinu.

„Sjáðu – finnst þér hún ekki óviðjafnanleg?“

Alma tók við myndinni og gat ekki annað en dáðst að fagurmótuðu andliti konunnar og ljósu síðu hári.

„Jú, hún hefur verið mjög falleg.“

„Mjög falleg – en stórgölluð. Þú fréttir meira af því síðar. Ertu þá til í að skrifa sögu mína? Ég borga þér auðvitað. Við getum meira að segja haft greiðsluna svarta ef þú vilt. Ég treysti þér til að gera þetta almennilega. Vantar þig ekki líka vinnu?“.

„Ég er eins og stendur að vinna við vefmiðlinn Sagnamiðlun en ég veit ekki hve lengi ég hef það starf“.

„Ég veit að það er mikil skuld á því fyrirtæki. Það sagði mér kunningi minn í fjármálaheiminum.“

„Jæja. Ekki vissi ég það. Hver er þessi kunningi þinn?“

Ég nefni engin nöfn. En þetta eru ábyggilegar og réttar upplýsingar. Ég bið þig samt að hafa þetta ekki eftir mér. Það gæti komið sér illa fyrir mig.“

Alma horfði hugsi á Kamillu. Þetta voru nýjar fréttir. Hún yrði að ræða þetta við Maríu vinnuveitanda sinn. Ef þetta væri rétt væri kannski óvitlaust að hafa eitthvað í bakhöndinni.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 8, 2017 11:38