Kvaddi Vesturbæinn og fór í stærra á Akranesi

Gurrí var í fullu starfi sem blaðamaður á Vikunni frá árinu 2000, skipti um starfsvettvang innan fyrirtækisins 2016 og fór að vinna heiman frá sér. Hún hætti hjá Birtíngi á síðasta ári en hefur haft nóg að gera síðan við ýmis störf.

Guðríður Haraldsdóttir, eða Gurrí eins og hún er kölluð, er þekkt fyrir hispurslausan stíl í lífinu. Það skilar sér sannarlega í skemmtilegum skrifum en hún hefur starfað sem blaðamaður árum saman. Hún starfar nú mest sem prófarkalesari hjá Birtíngi auk þess sem hún skrifar stöku viðtöl og umfjöllun um bækur í Vikuna. Gurrí komst að því, löngu fyrir covid, að það er mjög einfalt og þægilegt að sinna vinnunni að heiman.

„Ég er afskaplega heimakær og ein þeirra sem fann lítinn mun á lífinu fyrir og eftir covid,“ segir hún. „Ég get haft meira en nóg að gera í yfirlestri og nú þegar ég þarf ekki að ferðast til og frá vinnu í þrjá klukkutíma á dag er lífið bara dásamlegt,“ segir þessi jákvæða kona sem varð 64 ára á síðasta afmælisdegi sínum. Hún hefur síðustu árin verið leiðbeinandi á námskeiðum hjá Símenntun Vesturlands og kennt útlendingum íslensku sem hún segir vera bæði skemmtilegt og gefandi. Á vordögum kemur út bók hjá Drápu sem hún skrifaði ásamt Margréti Blöndal en þær tvær kynntust árið 1986 þegar þær störfuðu við þáttagerð á Rás 2. Í bókinni má finna magnaðar sögur tíu innflytjenda, fólks sem mikill fengur var í að fá til Íslands, eins og Gurrí orðar það.

Gurrí býr nú með fóstursyni sínum sem flutti til hennar 2017 og þremur miklum eðalköttum; Kela, 13 ára, Krumma, 12 ára, og Mosa, 9 ára.

Seldi íbúðina í Vesturbæ Reykjavíkur 2006

„Ég fór fram til að sækja mér kaffi og þegar ég kom til baka sat Mosi, kötturinn sem Einar átti, fyrir framan tölvuna og prófarkalas. Sjórinn var dásamlegur þennan dag, hann er aldrei eins og alltaf flottur, samt bestur í góðu brimi, finnst mér. Ég sendi þessa mynd á síðuna View from YOUR window nú í febrúar 2023 og hún fékk metfjölda læka (118 þúsund) svo Mosi er orðinn heimsfrægur.“

Gurrí kvaddi litla og sæta íbúð í gömlu Verkó 2006 og keypti sér helmingi stærri íbúð með sjávarútsýni á æskuslóðunum á Akranesi og fékk hátt í tvær milljónir á milli. „Ég varði þeim peningum í að gera allt sem ég hafði alltaf þráð en aldrei getað, eins og að láta ramma inn málverkin mín, yfirdekkja rauða antíksófann, kaupa mér espressóvél og sitt af hverju fleira,“ segir Gurrí. „Ég kvaddi umferðardyn og geitunga á Hringbrautinni og fékk í staðinn sjávarnið og frábæra máva hér við Langasandinn,“ segir hún, hæstánægð með skiptin.

Mikil ferðalög fyrstu árin

„Fyrstu tíu árin eftir að ég flutti til Akraness tók ég strætó til og frá vinnu og þótt það væri gaman fór mikill tími í ferðir, rúmir þrír tímar á dag eftir að vinnustaðurinn flutti í Garðabæ. Ég tók strætó um klukkan hálfsjö á morgnana og kom heim ellefu klukkutímum seinna. Vinnan var virkilega skemmtileg en jafnframt ansi krefjandi. Mér hefur alltaf fundist erfitt að einbeita mér í opnu rými á vinnustað svo ég vann oft á kvöldin og um helgar til að geta skilað af mér á réttum tíma. Ég hef aldrei komist upp á lag með að nota heyrnartól en mér skilst að það sé heldur ekki hollt að vera með þau á eyrunum allan daginn. Sennilega hefði ég brunnið út ef ég hefði ekki fengið að færa vinnuna heim 2016 um leið og ég skipti um starfsvettvang. Mér finnst þó alltaf gaman að skrifa og eftir að ég hætti í fullri vinnu sem blaðamaður fékk ég hvergi almennilega útrás fyrir tjáningarþörfina … fyrr en ég dustaði rykið af gamla Moggablogginu mínu í hitteðfyrra, eftir þrettán ára pásu þaðan. Ég blogga nokkuð reglulega og leyfi mér alveg ýkjur og skrök eftir þörfum. Bloggið mitt er gurrihar.blog.is.“

Eftir að Gurrí fór að vinna heiman frá sér stakk systir hennar, sem vinnur í fósturkerfinu, upp á því að hún tæki að sér fósturbarn því þörfin væri svo mikil. Gurrí fannst það góð hugmynd, sótti um og komst á „foster pride”-námskeið hjá Barnaverndarstofu. „Þörfin fyrir fósturforelda er svo mikil að ég náði varla að klára námskeiðið áður en ég fékk beiðni um að fóstra unglingsdreng sem er hér enn,“ segir Gurrí.

Lét gera íbúðina upp og losaði sig við dót

Gurrí bjó í mörg ár í íbúðinni á Akranesi áður en hún lét gera hana upp. „Það var ekki fyrr en 2020 sem hún var tekin í gegn og hún er orðin æðisleg núna,“ segir Gurrí. „Ég fékk innanhússhönnuð til að teikna upp breytingarnar sem var afskaplega góð hugmynd, sparaði mér fé og kom ábyggilega í veg fyrir ýmis mistök. Í leiðinni notaði ég líka tækifærið og losaði mig við helminginn af dótinu mínu. Hver þarf þrjá eggjaskera, átta sængurverasett, milljón bækur? Lífið er svo miklu léttara og auðveldara með minna magn af dóti í kringum sig, afskaplega fljótlegt að taka til og halda öllu hreinu. Ég er mikill bókaormur og er tiltölulega nýfarin að geta hlustað á bækur í gegnum Storytel. Húsverkin verða miklu skemmtilegri þegar einhver les fyrir mann á meðan. Lesarinn skiptir reyndar miklu máli, leiklestur er verstur, sérstaklega ef röddin er hækkuð og gerð grimm þegar „vondi karlinn“ talar eða væmin og tilgerðarleg þegar „góða konan“ talar. Óþolandi.“

Gurrí er þekkt fyrir að halda upp á afmæli sitt á hverju ári og býður „70 allra, allra nánustu vinunum“ og hefur gert frá því hún var 29 ára. „Ég held því fram að afmælið (12. ágúst) sé upphafið að samkvæmislífi vetrarins – held upp á það alltaf á sjálfan afmælisdaginn og býð upp á sjúklega gott kaffi og gómsætar hnallþórur – engar ræður eða neitt slíkt þótt stórafmæli séu. Það var áskorun að koma öllum fyrir á Hringbrautinni í 56 fermetrum, það komu yfir níutíu í fertugsafmælið en ég tók bara strætóbílstjórann á þetta og galaði: „Ætlið þið að færa ykkur aftar í íbúðina!“ Frá 2020 hafa veisluhöld verið mun hógværari vegna covid en ég stefni á almennilegt partí í ár, fólk er farið að kvarta yfir því að komast ekki í ágúst-fermingarveisluna.“

Hekls Angels

Skömmu eftir að ég dustaði rykið af heklunálinni og varð stofnfélagi í Hekls Angels, fór ég að hekla veðráttuteppi (2016), þar sem hitastig stjórnaði umferð hvers dags. Ég valdi að taka hitann kl. 12 á hádegi á Akranesi árið 2016 og náði því aldrei eldrauðri röð (18°C plús) eins og þeir heklararar sem völdu að taka hitastigið kl. 15. Sérlegur heklaðstoðarmaður á mynd var Keli af Kattholti, nú 13 ára.“

Gurrí dustaði rykið af heklunálinni eitt árið eftir að hún flutti á Skagann og stofnaði félagsskapinn Hekls Angels með tveimur vinkonum og þær hekluðu af miklum móð saman.

Annað áhugamál Gurríar tengist eldgosum og ýmsu þeim tengdu. „Ég horfði á eldgosið á Reykjanesskaga í gegnum sjónvarpið og sá það stundum úr gluggunum heima en íbúðin var sérvalin á sínum tíma vegna útsýnisins. Útsýnið úr risíbúð minni sem ég kalla Himnaríki á blogginu, er einstakt, óhindrað sjávarútsýni – stundum brim sem er líka eitt af áhugamálum mínum, ásamt lestri auðvitað og tónlist,“ segir hún brosandi.

Fékk hugljómun

Gurrí segist vera með eindæmum heilsuhraust og taki engin lyf að staðaldri.
„Árið 2020 fékk ég hugljómun og ákvað að ögra heilsunni ekki frekar. Læknir sem var að tala um COVID-19 í sjónvarpinu sagði meðal annars að það væri aldrei of seint að hætta að reykja. Það náði til mín, ég keypti fokdýr lyf og hætti með þeirra hjálp eftir að hafa reykt í áratugi. Ég var líka orðin algjör sófakartafla eftir að ég hætti í skvassi á síðustu öld og hata til dæmis gönguferðir. Ég hafði eitt sinn farið í skokkhóp en sleit næstum hásin þegar ég teygði án þess að kunna það, og nánast haltraði í nokkur ár á eftir. Ég prófaði ræktina sem reyndist vera sérlega skemmtilegt en það rann út í sandinn í covid. Annars væri ég sennilega komin með sixpakk! Þessa dagana notast ég við stigana sem heilsurækt en ég bý á þriðju hæð. Ég á róðravél, lóð og ketilbjöllu og set líka stundum Skálmöld eða Wu Tang Clan á fóninn (í tölvunni) og dansa. Rokk og rapp er fínt en „uppáhaldslagið“ mitt frá átta ára aldri hefur verið áttundi kaflinn í Stabat Mater eftir Pergolesi. Og Bach og Mozart og Radiohead og Pink Floyd og …“

Vinkona ráðlagði íbúð í lyftuhúsi

„Vinkona mín ráðlagði mér nýlega að flytja, fá mér íbúð í lyftuhúsi eða á jarðhæð, þessir stigar gætu orðið erfiðir af því ég yngdist ekkert héðan af. Önnur vinkona, sjúkraþjálfari, harðbannar mér það og segir stigana allra meina bót. Þeir séu líkamsrækt í sjálfu sér.“

„Ég og Yehya, fóstursonur minn, á veitingastaðnum Galito á Akranesi 2020. Anna vinkona tók myndina.“

Gurrí vonar að hún haldi góðri heilsu sem lengst og ef hún flytji á dvalarheimili seinna meir vonar hún að þau muni hafa þróast í takt við tímann. „Maður fær ekki sjálfkrafa smekk fyrir eingöngu harmonikkutónlist með hækkandi aldri eða gamaldags íslenskum mat. Bara alls ekki! Mamma bjó undir það síðasta á Eir og lét vel af því. Hún setti samt hraðamet á hjólastólnum einn daginn þegar einhver kom til að skemmta íbúum í setustofunni með tónlist sem henni fannst leiðinleg. Hún lést í júlí á síðasta ári, orðin 88 ára.“

Hefur aldrei upplifað sig gamla

Gurrí segist aldrei hafa upplifað sig gamla en hafi fyrst fundið fyrir aldursfordómum um fertugt, eiginlega eins og hún hefði  stigið yfir ósýnilega línu. „Það var samt oftast krúttlegt og ég áttaði mig á að sumu ungu fólki fannst fertugt fólk ofboðslega gamalt. Fyrir mörgum árum fór ég með Önnu vinkonu á tónleika með Megadeth og við vorum vissulega langelstar þar, alveg vel 40 plús. Tattúveraður mótorhjólatöffari horfði blíðlega á okkur og spurði: „Eruð þið hér með krökkunum ykkar?“

„Nei, þau eru heima að hlusta á Mariuh Carey!“ sagði ég og hristi höfuðið sorgmædd á svip. Ég laug því auðvitað en uppskar einlæga samúð frá honum og vinum hans.“

Missti einkasoninn

„Við Einar, sonur minn, fyrir nokkrum árum á kaffihúsinu Skrúðgarðinum. Guðmundur Jónsson, vinur okkar, tók myndina.“

Gurrí missti son sinn í bílslysi fyrir fimm árum. „Einar var eina barnið mitt og við vorum einstaklega náin. Hann hefði orðið 43 ára núna 12. apríl. Það er auðvitað skrítið að hugsa til framtíðarinnar, elliáranna án hans, og ég geri það ekki oft. Það hefur hjálpað mér mikið að vera að eðlisfari létt í skapi og lítið fyrir dramatík. Ég á nú samt enn svolítið erfitt með að tala um hann, sem er öfugt við marga sem finnst gott að fá að tala um látna ástvini sína. Fólk er mismunandi og alls ekki hægt að setja alla syrgjendur undir sama hatt, ég fann til dæmis aldrei fyrir reiði sem sumir vilja meina að sé hluti af sorgarferlinu, heldur ekki afneitun. Ég komst reyndar að því að sorgarstigin svokölluðu eiga við fólk sem fær þær fréttir að það sé dauðvona, en ekki alla syrgjendur.

Í ágúst 2018, árið sem Einar lést, varð ég sextug og Hilda systir stofnaði háleynilegan Facebook-hóp með vinum og fjölskyldu þar sem tilgangurinn var að safna fyrir afmælisferð til útlanda um komandi jól. Það söfnuðust 800 þúsund krónur sem þýddi að ég gat farið, ásamt fóstursyni mínum, í frábæra ævintýrasiglingu um Karíbahafið – Hilda systir og börnin hennar komu líka. Þetta var svo gaman og gerði allt svo miklu auðveldara.

Ég á mjög góða að, hef verið umvafin ættingjum og vinum, með Hildu systur í fararbroddi. Davíð, sonur hennar, gerir allt tölvutengt fyrir heimilið, eða það sem Einar sá alltaf um, sem gerði mig óneitanlega ögn hjálparvana í slíkum málum.“

Kvíðir ekki að eldast

„Ekki get ég sagt að ég kvíði því að eldast, ég hugsa eiginlega aldrei út í það. Svona eins og ég sé ódrepandi, ósigrandi,“ segir Gurrí og hlær. „Ég hlakka þess vegna til að setjast í

„Ég keypti útsýni með íbúð fyrir 17 árum og horfði sérlega spennt yfir á Reykjanesskagann á meðan gaus þar.“

helgan stein, 67 eða 70 ára. Það er gaman að vinna en enn skemmtilegra að gera það ekki. Ég á auðvelt með að sofa til hádegis, er ekki komin með ellifjarsýni af því að ég les svo mikið án gleraugna, skilst mér, og endajaxlarnir eru enn á sínum stað. Að auki hef ég unun af því að lesa barna- og unglingabækur. Þetta hlýtur að þýða að ég verði 150 ára,“ segir þessi eldhressa kona sem lítur lífið björtum augum og tekur hækkandi aldri með æðruleysi.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 14, 2023 07:00