Göngur eru góð leið til að eignast nýja vini

Einar Skúlason

Einar Skúlason

Það er komið vor og því ekki að nota björt kvöld og helgar til að drífa sig í göngutúr. Fyrir þá sem langar í félagsskap þá er gönguklúbburinn Vesen og vergangur tilvalinn. Einar Skúlason stofnaði gönguklúbbinn fyrir nokkrum misserum og þeir skipta þúsundum sem hafa farið í göngur á vegum klúbbsins. „Meirihluti þeirra sem ganga með okkur eru komnir á miðjan aldur eða að nálgast það aldursskeið. Fólk sem er komið á þennan aldur virðist hafa meiri tíma til stunda göngur en þeir sem yngri eru,“ segir Einar. Margir koma aftur og aftur því það er gaman í gönguferðunum. „Það er ekki mikið um neikvætt fólk sem fer í göngur. Það eru eins og göngur kalli fram það jákvæða sem býr í okkur öllum,“ segir hann og bætir við að margir eignist nýja vini. „Maður sér að fólk fer að spjalla við aðra í fyrstu göngunni og svo heldur það áfram að hittast og ræða málin og ný vináttutengsl myndast,“ segir hann. Í gönguferðunum eru allir jafnir. „Það er allskonar fólk með margskonar reynslu í farteskinu sem kemur í göngurnar. Mörgum finnst gaman að ganga með öðrum auk þess það er ákveðið öryggi í því fólgið.“ Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er öllum opinn. Það kostar ekkert að vera með en ef það þarf að greiða rútur eða annan kostnað deilist það niður á þátttakendur. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref má benda á að á fimmtudagskvöldum eru gönguferðir sem eru sniðnar að þeim sem vilja fara hægt yfir og líka annan hvern sunnudag. Á þriðjudagskvöldum eru göngur fyrir þá sem eru komnir í þokkalegt gönguform. Yfirleitt eru göngur skipulagðar með stuttum fyrirvarra en á fésbókarsíðu Vesens og vergangs er hægt að fylgjast með hvaða göngur eru í boði og hvert á að fara. Slóðin er hér.  Svo er bara að drífa sig af stað út í vorið.

Ritstjórn apríl 8, 2016 12:00