Reimið á ykkur gönguskóna

Ólöf Sívertsen

„Það er allt gott við göngur. Um leið og fólk fer að hreyfa sig eykst framleiðsla á gleðihormónum í líkamanum. Við verðum glöð og okkur fer að líða vel. Auk þess sem göngur viðhalda hreyfifærni og hreyfigetu,“ segir Ólöf Sívertsen verkefnastjóri hjá Ferðafélagi Íslands.

Alla miðvikudaga í september mun Ferðafélag Íslands standa fyrir lýðheilsugöngum um allt land. Göngurnar eru hluti af afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar hefjast kl. 18:00 alla miðvikudaga og verða vítt og breitt um landið, sú fyrsta næstkomandi miðvikudag. „Okkur langar að virkja sem flesta landsmenn til útivistar og hreyfingar,“ segir Ólöf.

Í  Reykjavík verður  hægt að velja um þrjár göngur. Einn hópur fer á Úlfarsfell, annar leggur af stað frá Árbæjarlaug og sá þriðji gengur út frá Laugardalnum. En það er ekki bara í Reykjavík sem verður gengið heldur verða skipulagðar göngur því í um 50 bæjar- og sveitarfélögum vítt og breytt um landið. „Það er algengt að fólk setjist upp í bíl og keyri eitthvert langt í burtu til að fara í fjallgöngur eða göngur á flatlendi. Ótrúlega margir gleyma því að það getur verið sitthvað skemmtilegt að skoða í sínu nánasta umhverfi. Göngurnar eru meðal annars hugsaðar til að gefa fólki tækifæri á að fræðast um hvað er að sjá og skoða við bæjardyrnar hjá því. Þema Ferðafélagsins í göngunum er náttúra, saga, vinátta og vellíðan“ segir hún.

Svo er bara að reima á sig gönguskóna og drífa sig af stað.

Ólöf segir að göngurnar séu hugsaðar fyrir vinahópa, fjölskyldur og einstaklinga, aldraða jafnt sem börn. „Það getur verið ótrúlega gaman að fá til dæmis vinnufélagana til að koma með sér eða fjölskylduna og vinina. Það skemmtilega er að í göngum kynnist fólk og ný vináttutengsl myndast.“

Hver ganga tekur einn til einn og hálfan tíma. „Það geta eiginlega allir verið með. Þetta eru ekki göngur sem eru hugsaðar út frá þaulvönu göngufólki eða fólki í góðri þjálfun. Göngustjórarnir hafa flestir mikla reynslu í fararstjórn og þeir sjá til þess að allir komist heilir á áfangastað. Fólk þarf ekkert að hafa með sér þó það sé allaft gott að hafa vatnsbrúsa og eitthvað smá að borða til dæmis banana. Menn ættu þó að huga að því að vera í góðum skóm og klæða sig eftir veðri. Svo það er ekkert annað fyrir fólk að gera en reima á sig gönguskóna og njóta náttúrunnar í góðum félagsskap.

Þátttaka í göngunum er ókeypis. Ef að fólk vill vera með í sérstökum lukkupotti þar sem hægt er að vinna margskonar vinninga þarf það að skrá sig inn á vefsíðu Ferðafélags Íslands.

Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir verða settar inn á heimasíðu verkefnisins www.fi.is/lydheilsa jafn harðan og þær liggja fyrir

Ritstjórn september 4, 2017 10:21